Af hverju drekkur pabbi minn of mikið?

Margir drekka vegna þess að þeim líður betur þegar þeir eru drukknir.  En sumir sem drekka hafa enga stjórn á því.

Af hverju getur mamma mín ekki hætt að drekka?

Vegna þess að löngunin til að drekka er óviðráðanleg hjá henni.  Það getur vel verið að hún vilji ekki drekka.

Er hægt að lækna þennan sjúkdóm?

Þrátt fyrir það að hægt sé að hætta að drekka, þá er ekki hægt að lækna alkóhólisma.

Báðir foreldrar mínir drekka of mikið. Af hverju gera þau sér ekki grein fyrir því að þau eru alkóhólistar og gera eitthvað í málunum?

Það getur vel verið að þau geri sér grein fyrir því að það er eitthvað rangt við það hvernig þau drekka.  En þau skammast sín kannski eða eru alls ekki tilbúin að viðurkenna það.  Fáir eru tilbúnir til þess.

Hvað get ég gert til þess að hjálpa?

Byrjaðu á því að kynna þér alkóhólisma.  Það mun hjálpa þér að skilja hvernig sjúkdómurinn er.  Lestu Alateen og Al-Anon lesefni.  Það er hægt að fá lesefnislista frá Al-Anon skrifstofunni eða kíkja á lesefnislistann á síðunni.  Taktu þátt í Alateen eða Al-Anon deild og stundaðu fundi reglulega.

Hvað ef alkóhólistinn í fjölskyldunni okkar hættir aldrei að drekka?

Það er til von fyrir alla alkóhólista.  Alveg sama hversu illa hlutirnir líta út í augnablikinu.  Með því að fara í Alateen og Al-Anon lærum við að sinna okkur sjálfum, alveg sama hvort alkóhólistinn hættir að drekka eða ekki.

Hvað á ég að segja við vini mína þegar þeir sjá annað hvort foreldri mitt fullt?

Það er eðlilegt að finna til reiði, skammar eða fara hjá sér þegar þetta kemur fyrir.

Hvað á ég að gera ef vinir mínir vilja ekki koma í heimsókn?

Reyndu að taka ekki höfnun þeirra persónulega. Það getur vel verið að vinir þínir skilji ekki sjúkdóminn alkóhólisma. Það getur verið að þeim líði bara illa heima hjá þér en ekki með þér. Kannski er betra að þú hittir þá annars staðar.