Alateen er fyrir unglinga sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju annarra.

 

Allir unglingar á aldrinum 13-18 ára sem eru aðstandendur alkóhólista eru velkomnir á Alateen fundi!

 
Alateen, sem er hluti af fjölskyldudeildum Al-Anon eru samtök unglinga sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju ættingja eða náins vinar. Við hjálpum hvert öðru með því að deila reynslu okkar, styrk og vonum. Við trúum því að alkóhólismi sé fjölskyldusjúkdómur af því að hann hefur tilfinningaleg og oft líkamleg áhrif á alla meðlimi fjölskyldunnar. Þrátt fyrir það að við getum ekki breytt eða stjórnað foreldrum, vinum eða systkinum okkar þá getum við skilið okkur frá vandamálum þeirra og þrátt fyrir það þótt vænt um þau.  Við ræðum ekki trúmál og erum óháð öllum utanaðkomandi samtökum. Eigin vandamál eru eina umræðuefni okkar.  Við gætum þess að virða alltaf nafnleynd hvers annars og allra Al-Anon og AA félaga.  Með því að tileinka okkur reynslusporin tólf öðlumst  við vitrænan, tilfinningalegan og andlegan þroska.  Við verðum alltaf þakklát Alateen fyrir að beina okkur á þessa frábæru, heilbrigðu leið til að lifa eftir og njóta.
 

 

Hvernig urðu Alateen deildirnar til?

Alateen var stofnað árið 1957 í Bandaríkjunum af unglingsstráknum Bob og fimm öðrum ungmennum.  Bob átti föður sem var í AA og móður í Al-Anon og vildi fá sömu hjálp og þau höfðu fengið í sínum samtökum.  Al-Anon samtökin studdu við bakið á Alateen og Alateen varð hluti af Al-Anon. 

Alateen alþjóðanefndin var stofnuð 1959 og sendur var spurningalisti til allra Alateen deilda og út frá því var dregin upp meginstefna Alateen. Fyrsta bók Alateen: Alateen: Hope for Children of Alcoholics kom út 1973. Síðan hefur verið gefið út töluvert af Alateen lesefni.

 

Alateen óx hratt og í dag eru yfir 2700 deildir um allan heim þar sem ungt fólk hjálpar hvert öðru að takast á við þau áhrif sem drykkja annarrar manneskju hefur á líf þeirra.

 

Upplýsingar um fundi eru á síðunni Fundir og í Al-Anon fundaskránni.