Er Al-Anon fyrir mig?

Hvernig veit ég hvort Al-Anon aðferðin hentar mér?
Hér er spurningalisti sem getur hjálpað þér að glöggva þig á því hvort þú eigir erindi á Al-Anon fundi.


Verður sagt frá því að ég hafi komið á fundinn?

Nafnleyndin er algert grundvallaratriði í Al-Anon bataleiðinni. Hún tryggir félögum öruggan stað til þess að deila reynslu sinni. Við notum eingöngu fornöfn eða gælunöfn félaga. Við ræðum ekki um fólkið sem við sjáum eða endurtökum það sem við heyrum. Við stöndum vörð um nafnleynd allra Al-Anon, Alateen, AA-félaga jafnt sem fjölskyldumeðlima og vina sem við gætum minnst á fundum.


Eru aðrar deildir eins og þessi?
Deildin okkar er ein þúsunda Al-Anon deilda í meira en 110 löndum víðs vegar um heim. Á Íslandi fylgja flestar deildir sama fundarfyrirkomulagi og Al-Anon deildir í öðrum löndum. Áherslumunur getur verið milli deilda og sumar deildir eru t.d. karla eða konudeildir. Einnig eru sumar deildir með fast fundarefni en aðrar frjálst. Deildirnar skiptast síðan í þrjú svæði á landsvísu. Á svæðisfundum ræða fulltrúar deildanna þau mál sem varða vöxt deilanna og sameinast um sameiginleg markmið. Svæðisfundir eru opnir öllum félögum sem áhuga hafa á því að gefa af sér til samtakanna eða til að fræðast meira um samtökin.


Hvað kostar þetta allt?
Engra beinna félagsgjalda er krafist af félögum Al-Anon eða Alateen deildanna. Í flestum deildum eru körfur látnar ganga á fundum. Við setjum í þær frjálst framlag, það sem við getum látið af hendi rakna. Peningarnir eru notaðir til að greiða húsaleigu, kaupa samþykkt Al-Anon lesefni fyrir deildina, kaupa veitingar og fl. Það sem af gengur er nýtt í sameiginlegan rekstur allra deildanna á þjónustuskrifstofu samtakanna, útgáfu á lesefni á íslensku og til kynningar og reksturs þessarar vefsíðu.


Hvað geri ég nú?
Okkur hefur fundist gagnlegt að:

  • Verða okkur út um fundarskrá
  • Mæta reglulega á fundi og spjalla við hvort annað fyrir og eftir fundi.
  • Skiptast á símanúmerum og netföngum.
  • Að nokkrum tíma liðnum langar þig e.t.v. að biðja einhvern reyndan félaga að vera trúnaðarmanninn þinn. Trúnaðarmenn eru til staðar fyrir þig á milli funda. Trúnaðarmaðurinn þinn er þinn sérstaki vinur, sem þú getur haldið áfram að ræða við um innstu tilfinningar þínar og líðan, í fullum trúnaði.
  • Lesa Al-Anon og Alateen bækur, bæklinga, tímaritið Forum, veftímaritið Hlekkinn og ýmis erlend fréttabréf Al-Anon og Alateen.

Ef þú hefur enn spurningar, vertu óhrædd/ur að spyrja.Komdu endilega á fund. Við bjóðum þér vináttu okkar og skilning. Í byrjun er mjög gott að fara á nýliðafund ef slíkur fundur er í boði í þínu byggðarlagi.

Um Fundi
Hver deild heldur fund á sama tíma og sama stað í hverri viku, allan ársins hring. Flestar deildir eru með einn fund á viku. Frávik og breytingar eru auglýstar undir Fréttir og tilkynningar á upphafssíðu.Fundirnir eru fyrir alla Al-Anon/Alateen félaga og væntanlega félaga af báðum kynjum. Þeir standa oftast yfir í 60 mínútur. Sé fundarformið öðruvísi er það tekið fram í fundarskránni.
Nýliðafundir eru smærri en almennir fundir. Þar er skýrt frá starfsemi Al-Anon fjölskyldudeildanna, reyndir félagar deila reynslu sinni og segja frá því hvernig Al-Anon/Alateen aðferðin hefur gagnast þeim. Aðrar deildir sem eru ekki með sérstaka nýliðafundi bjóða nýliðum upp á að ræða við reynda félaga eftir almennan fund. Nýliðafundir eru að jafnaði 30-45 mínútur að lengd og eru hjá mörgum deildum á undan almennum fundi.
Við mælum eindregið með því að þú mætir í allavega sex skipti á almenna fundi áður en þú gerir upp hug þinn um hvort þessi leið henti þér. Í fyrstu getur verið mjög erfitt að takast á við hluti sem legið hafa lengi í þagnargildi, jafnvel áratugum saman. En ástandið er ekki vonlaust, þúsundir fólks um allan heim hafa öðlast hjálp og aukna hugarró með því að sækja Al-Anon fundi og lesa Al-Anon lesefni.
SKOÐAFUNDASKRÁ


Þessi texti er byggður m.a.á bæklingnumS-4 For The Newcomer, P24/27 Service Manualog reynslu íslenskra félaga

Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.©


Öll réttindi áskilin.Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda al-anon.is.