Spurt og svarað

1. Hvað er alkóhólismi?
Alkóhólismi er þrískiptur sjúkdómur sem hefur áhrif á líkamann, hugann og andann. Eitt af einkennum sjúkdómsins er stjórnlaus löngun í áfengi. Læknavísindin segja alkóhólisma vera sjúkdóm sem hægt er að halda í skefjum en ekki lækna. Alkóhólismi er stigvaxandi sjúkdómur. Á meðan alkóhólistinn drekkur mun ástandið versna.Ef ekki er tekist á við sjúkdóminn getur hann leitt til geðveiki eða dauða. Eina leiðin til að halda alkóhólisma í skefjum er algert bindindi.Flestir eru sammála um að jafnvel eftir margra ára bindindi geti alkóhólisti aldrei drukkið aftur vegna þess að alkóhólismi er ólæknandi sjúkdómur. Það bjóðast mörg úrræði fyrir alkóhólista í dag. Alkóhólismi er ekki lengur vonlaust ástand ef sjúkdómurinn er viðurkenndur og meðhöndlaður.


2. Hvernig getur fjölskyldan hjálpað alkóhólistanum?
Með því að tileinka okkur meginreglur Al-Anon tekst okkur að hætta að reyna að breyta alkóhólistanum sem við getum ekki breytt og beinum þess í stað sjónum að okkur sjálfum sem við getum breytt.


3. Hvað getum við gert til að aðstoða alkóhólistann til að hætta drykkju?
Með því að breyta viðhorfum okkar getum við skapað heilbrigðara umhverfi fyrir fjölskylduna í heild, þar með talinn alkóhólistann. Þetta getur gefið alkóhólistanum færi á að átta sig á vandamálinu og leita sér hjálpar.


4. Hvernig getum við breytt viðhorfum okkar?

 • Með því að sækja Al-Anon fundi reglulega og lesa daglega Al-Anon ráðstefnusamþykkt lesefni.
 • Með því að nýta okkur Al-Anon bataleiðina, þar með talin reynslusporin, erfðavenjurnar, slagorðin og æðruleysisbænina.
 • Með því að reyna að leita okkur þekkingar á sjúkdómnum alkóhólisma og áhrifum hans á okkur.

5. Ættum við að bjóða upp á áfengi á heimilinu?
Það er ekkert eitt rétt svar til við þessari spurningu.Hver og einn tekur sína ákvörðun miðað við þær aðstæður sem ríkja.


6. Ættum við að þiggja boð þar sem áfengi verður á boðstólnum?
Við ættum að láta alkóhólistann ákveða hvort hann þiggur slíkt boð eða ekki, á sama hátt og við tökum ákvarðanir um slíkt fyrir okkur sjálf.


7. Ættu vinir eða fjölskyldumeðlimir að hætta að neita áfengis?
Það er ekkert eitt rétt svar til við þessari spurningu. Hvert og eitt okkar tekur sína ákvörðun.


8. Er einhver sérstakur tími betri en annar sem við getum rætt við alkóhólistann um drykkjuna eða önnur alvarleg málefni?
Í þessu tilviki þarf að spila hlutina eftir eyranu.Mörgum finnst alkóhólistinn vera móttækilegastur eftir langa drykkjutúra. En þegar málin eru rædd er mikilvægast að halda ró sinni, æðruleysi og aftengingu.


9. Hvað er aftenging?
Aftenging er þegar við lærum að hinkra við eitt andartak áður en við bregðumst við hegðun alkóhólistans. Við getum munað að enda þótt alkóhólistar skapi gjarnan í kringum sig kreppu, óreiðu, ótta og sársauka þá þurfum við ekki að vera þátttakendur í því tilfinningalega umróti sem umlykur þá. Alkóhólistar eru gjarnir á að kenna öðrum um afleiðingar eigin gerða og beita andlegu eða líkamlegu ofbeldi til að beina athyglinni frá hinni raunverulegu uppsprettu vandræðanna, sem er að sjálfsögðu alkóhólisminn. Aftenging er ein gagnlegasta aðferðin sem Al-Anon býður okkur sem erum að leitast við að finna okkur sjálf á nýjan leik. Aftenging felur það einfaldlega í sér að við aðskiljum okkur frá öðru fólki, tilfinningalega og andlega. Ef einhver sem okkur þætti vænt um væri með flensu og aflýsti af þeim sökum áætlunum sínum, myndu flest okkar skilja það. Við myndum ekki taka það persónulega né heldur saka viðkomandi um að vera tillitslaus eða t.d. andstyggilegur. Þess í stað myndum við reyna að aðskilja einstaklinginn frá veikindum hans, vegna þess að við vitum að það eru veikindin en ekki ástvinurinn sem urðu til þess að áætlanir breyttust. Þetta er aftenging.


10. Hverfa öll okkar vandamál þegar alkóhólistinn hættir að drekka?
Ekki búast við of miklu of fljótt. Að stíga upp úr veikindum tekur sinn tíma og ekki er hægt að skrifa öll vandamál á sjúkdóminn alkhólisma.


11. Þurfum við á Al-Anon að halda eftir að alkóhólistinn hættir að drekka?
Já. Það getur verið hjálplegt að beina sjónum að okkur sjálfum, þroskast í Al-Anon og aðlagast þannig nýju lífi án áfengis. Það að alkóhólistinn fari í meðferð er ekki lausn allra mála. Það tekur tíma að bæta og laga gömul hegðunarmynstur innan fjölskyldunnar. Þurrafyllerí getur varað í töluverðan tíma eftir meðferð.


12. Hvað er þurrafyllerí?
Þetta er tímabil þar sem alkóhólistinn hegðar sér á sama eða svipaðan hátt og hann gerði á meðan hann drakk. Stundum kemur þetta ástand fram fljótlega eftir að drykkju er hætt en getur líka komið fram síðar, stundum þegar alkóhólistinn er undir miklu álagi.


13. Erum við sem búum með eða umgöngumst alkóhólistann líka veik?
Það er rétt að muna að við höfum orðið fyrir áhrifum vegna alkóhólisma annarra. Við getum líka þjáðst líkamlega, tilfinningalega og andlega vegna sjúkdómsins.


14. Hvenær er alkóhólistinn fær um að taka ábyrgð á ný?
Það er mismunandi eftir einstaklingum og í Al-Anon forðumst við að gefa ráð varðandi hvernig skal takast á við mismunandi aðstæður. Sumir alkóhólistar í bata geta tekið á sig aukna ábyrgð fyrr en aðrir, möguleikar alkóhólista sem eru að vinna í sínum bata eru óþrjótandi.


15. Hvernig getum við best aðstoðað eftir að alkóhólistinn hættir drykkju?
Besta hjálpin er að ná sjálf bata frá áhrifum alkóhólisma og með því að sýna alkóhólistanum ást og skilning.


16. Þekkist það ,,að falla“ líka í Al-Anon?
Já. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og stundum förum við í sama gamla farið og hegðum okkur og hugsum eins og áður. Við getum fækkað ,,föllunum“ með því að halda sambandi við Al-Anon félaga t.d. með því að hringja í félaga, lesa Al-Anon lesefni og sækja Al-Anon fundi.


17. Getum við haldið alkóhólistanum frá því að hitta drykkjufélagana?
Nei, það getum við ekki. Ekkert getur stöðvað manneskju sem ætlar sér að drekka.


18. Hvernig forðumst við að láta draga úr okkur máttinn?

 • Með því að treysta okkar æðri mætti.
 • Með því að nýta okkur Al-Anon bataleiðina og aðstoða aðra.
 • Með bæn og íhugun, lestri á Al-Anon lesefni og notkun slagorðanna.

19. Hvernig öðlumst við æðruleysi?

 • Með því að vera með opinn huga á fundum og fá þannig þekkingu og styrk frá deildinni.
 • Með því að kynna okkur sporin tólf, æðruleysisbænina og slagorðin.
 • Með því að aftengja okkur frá alkóhólistanum með ást og trausti á æðri mátt.

20. Hvernig get ég hjálpað börnunum mínum?

 • Með því að gerast virkur félagi í Al-Anon.
 • Með því að hvetja unglingana til að sækja Alateen fundi og uppkomin börn til að sækja Al-Anon fundi.
 • Með því að lesa Al-Anon og Alateen lesefni fáum við þekkingu á því hvaða áhrif sjúkdómurinn hefur haft á alla fjölskylduna.

21.Hverjir verða alkóhólistar?
Allir geta orðið alkóhólistar – ungir, gamlir,ríkir, fátækir, menntaðir, ómenntaðir, konur jafnt sem karlar af öllum stigum þjóðfélagsins. Aðeins 3-5% alkóhólista eru ,,rónar” og útigangsfólk. Hinir eru fjölskyldumenn, sem eiga vini, eru í fastri vinnu og taka þátt í samfélaginu þó drykkja þeirra hafi áhrif á líf þeirra. Fjölskyldan, félagslífið og atvinnan líður fyrir drykkjuna. Drykkja alkóhólista veldur stigvaxandi vanda í þeirra daglega lífi.


22. Af hverju drekka alkóhólistar?
Alkóhólistar drekka vegna þess að þeim finnst þeir verða að drekka. Þeir þjást af andlegu meini og nota áfengið til að sefa þjáningu sína. Þeir treysta á áfengið og trúa að þeir geti ekki lifað án þess.
Það er þráhyggja.
Þegar alkóhólistar reyna að vera án áfengis eru fráhvarfseinkennin svo hrikaleg að þeir hverfa aftur til drykkjunnar því það virðist vera það eina sem getur linað þjáninguna.
Það er fíkn.
Flestir alkóhólistar vildu gjarnan drekka í hófi.Þeir eyða miklum tíma í að reyna að stjórna drykkju sinni þannig að þeir geti drukkið eins og annað fólk. Þeir prófa að drekka aðeins um helgar eða takmarka drykkju sína við eina tegund en þeir eru aldrei öruggir um að geta hætt þegar þeir vilja. Þeir enda alltaf með því að verða ölvaðir þó þeir hafi ákveðið annað.
Það er stjórnleysi.
Það er eðli þessa sjúkdóms að alkóhólistinn trúir því ekki að hann sé veikur.
Það er afneitun.
Eina von um bata er að viðurkenna þörf fyrir hjálp, finna löngun til að hætta að drekka og að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart áfengi og gera sér grein fyrir aðþað er ekki hægt aðvinna bug ávandamálinu á viljastyrknum einum.“
Byggt álesefninu P-4, Alcoholism, The Family Disease,B-3,Alateen – Hope for Children of Alcoholics,P-48 Understanding Ourselves and Alchoholism og S-19, Að aftengjast (Detachment)ásamtreynslu og styrk íslenskra Al-Anon félaga.
Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.©


Öll réttindi áskilin.Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimildaal-anon.is.

Al-Anon samtökin á Íslandi ©

Al-Anon og Alateen félögum er frjálst að prenta út og dreifa efninu innan samtakanna og til félaga.