Almennt um reynslusporin

Í fyrstu getur verið erfitt að skilja reynsluspor Al-Anon. Orð eins og vanmáttur, stjórnleysi, andlegt heilbrigði, guð, óttalaust siðferðislegan lista, skapgerðarbrestir, að bæta fyrir brot okkar, bæn og hugleiðsla og andleg vakning geta gert nýliðann ringlaðan. Það er samt sem áður reynsla milljóna kvenna og karla sem sannar að reynslusporin virka.

Takið eftir því að sporin eru skrifuð í þátíð og endurvarpa þannig reynslu þeirra sem hafa farið þessa leið á undan okkur.

Reynslusporin marka leið í lífinu sem hefur hjálpað Al-Anon félögum til „ … að finna ánægju og jafnvel hamingju hvort sem alkóhólistinn drekkur enn eða ekki“. (úr Inngangsorðum Al- Anon og Alateen deilda)

Við komum öll í Al-Anon fjölskyldudeildirnar vegna þess að líf okkar hafði orðið fyrir áhrifum af fjölskyldusjúkdómnum alkóhólisma. Mörg okkar stigu inn fyrir þröskuldinn með þá tilfinningu að við værum yfirbuguð af sjúkdómnum. Kannski höfðum við varið orku okkar í að reyna að fá virkan alkóhólista til að hætta að drekka eða að stjórna hegðun hans; kannski höfðum við varið stórum hluta ævinnar í að kljást við áhrifin af því að alast upp við drykkju fjölskyldumeðlima. Hver svo sem staða hvers og eins er, þá lærum við í Al-Anon að við erum ekki ein og að okkur býðst annars konar líf fyrir tilstilli reynslu­sporanna tólf.


Reynslusporin leggja til fjórar grundvallarhugmyndir:

  1. … við erum vanmáttug gagnvart áfengisvandanum. Þegar við getum af hreinskilni viðurkennt þennan sannleika, færir það okkur tilfinningu léttis og vonar. Við getum nú beint allri athyglinni að því að koma reglu á líf okkar. Við getum miðað áfram að andlegum þroska, að huggun og friði, sem fæst með heildarbataleið Al-Anon.
  2. … við getum falið mætti æðri okkur sjálfum líf okkar. Nú, þar sem velviljuð aðstoð okkar við alkóhólistann hefur beðið skipbrot og líf okkar er orðið stjórnlaust, gerum við okkur ljóst að við getum ekki tekið hlutlaust á vanda­málinu, kannski ekki einu sinni á andlega heilbrigðan hátt. Í Al-Anon finnum við mátt æðri okkar eigin sem getur beint lífi okkar inn á rólegar og gagnlegar brautir. Í fyrstu virðist sem þessi máttur sé Al-Anon deildin en með aukinni þekkingu og andlegum þroska, fara mörg okkar að nefna hann guð, samkvæmt skilningi okkar á honum.
  3. … við þurfum að breyta bæði viðhorfum okkar og gerðum. Þegar við verðum fús til að viðurkenna bresti okkar, förum við að sjá hversu brengluð hugsun okkar er oft á tíðum. Við gerum okkur ljóst hve óskynsamlegar margar athafnir okkar hafa verið, hve mörg af viðhorfum okkar hafa verið snauð af kærleika. Við reynum að horfast í augu við og leiðrétta þessa galla.
  4. … við höldum gjöfum Al-Anon með því að deila þeim með öðrum. Það að deila með öðrum gerir Al-Anon að þeim þróttmikla og framsækna félagsskap sem hann er. Meginskuldbinding okkar er við þá sem enn eru í nauðum staddir. Að leiða aðra manneskju úr örvæntingu til vonar og kærleika hughreystir bæði gefandann og þann sem þiggur.“ (úr Þjónustuhandbók Al-Anon og Alateen, P-24/27 Service Manual))

Skilyrðin fyrir bata eru einföld:Ef þið takið því sem hér er sagt með opnum huga munuð þið öðlast hjálp. Ykkur mun verða ljóst að ekkert ástand er það slæmt og engin óhamingja það mikil að ekki megi úr bæta“.

(Tillaga að lokaorðum Al-Anon funda í Al-Anon/Alateen).

Við munum öðlast hjálp; ástandið mun batna og óhamingja okkar mun minnka!

Það er ekki til neinn fyrirfram ákveðinn tímarammi fyrir batann í Al-Anon. Allt sem þarf er að hafa hugann opinn og vilji til að gera okkar besta í dag. Við sækjumst eftir framförum, ekki fullkomnum, þegar við leggjum stund á reynslu­sporin á leið okkar til bata.

 

Útdráttur úr Inngangi í með reynslusporunum í Leiðum til bata 1.-3.
B- 24 Paths to Recovery, Al-Anon’s Steps, Tradidtions an Concepts (bls.4-6)
Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.©

Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda al-anon.is.

Al-Anon samtökin á Íslandi©

Al-Anon félögum er frjálst að prenta út og dreifa efninu innan samtakanna og til félaga.