Almennt um erfðavenjurnar

Erfðavenjurnar hafa reynst svo vel að Al-Anon bataleiðin hefur verið til staðar nær óbreytt til hjálpar fjölskyldum og vinum alkóhólista í meira en hálfa öld. Við sem höfum fundið æðruleysi og betri lífsmáta með bata í Al-Anon leitum til erfðavenjanna eftir leiðsögn. Vegna þess að við viljum að sá bati sem við höfum notið góðs af standi okkur áfram til boða og líka þeim sem á eftir fylgja. Við förum eftir erfðavenjunum vegna þess að þær hafa sannað gildi sitt.

Oft er erfitt er að átta sig á því til hvers er ætlast í alkóhólísku umhverfi. Óskrifaðar reglur ríkja sem eru í sífellu að breytast án fyrirvara frá einni stundu til annarrar, allt eftir líðan alkóhólistans. Afleiðingin er kvíði, óöryggi og oft á tíðum andlegt niðurbrot aðstandenda. Við berjumst við að fylgja þessum órökrænu reglum til þess að þóknast alkóhólistanum eða allavega að minnsta kosti til að halda friðinn. En engu skiptir hversu hart við leggjum að okkur, við erum alltaf í órétti að mati alkóhólistans og eigum hvenær sem er von á gagnrýni og jafnvel ofbeldi.

Þess vegna er mörgum okkar léttir þegar við heyrum að það séu engar reglur í Al-Anon. Enginn segir okkur að við höfum ekki rétt á að vera félagar ef við förum ekki rétt að við batavinnuna, segjum eitthvað rangt eða tökum ranga ákvörðun. Í Al-Anon fjölskyldudeildunum ganga hlutirnir ekki þannig fyrir sig.

Stærsta undrunarefni okkar flestra er að sjá að í stað þess að stjórnleysi ríki innan deildanna þá eru Al-Anon samtökin friðsæl. Enginn einn stjórnar og segir öllum öðrum hvað þeir eigi að gera. Engu að síður er óþynntum boðskap Al-Anon stöðugt miðlað á fundum, ár eftir ár, út um allan heim.

Það sem veitir þennan stöðugleika í Al-Anon eru erfðavenjurnar tólf:

  • Þær ráðleggja okkur að blanda okkur ekki í það sem gæti raskað hagsmunum okkar og þær hjálpa okkur að einbeita okkur að sameiginlegu markmiði okkar.
  • Þær leggja til leiðir að ná fram sameiginlegum ákvörðunum sem eru öllum viðkomandi fyrir bestu á öllum stigum þjónustunnar; í deildinni, á svæðinu og í landsþjónustunni.
  • Þær sjá til þess að boðskapur Al-Anon sé ávallt sá sami, óháður síðustu bylgju sjálfshjálparbóka eða hugmyndastefna.
  • Þær eru leiðbeinandi um afstöðu deilda gagnvart forystu, félögum, fjármunum, eignum, almannatengslum og mikilvægi nafnleyndarinnar. Þær leiðbeina Al-Anon fjölskyldudeildunum; Al-Anon og Alateen félögum í samskiptum við önnur félagasamtök, við AA-samtökin og við almenning.

Erfðavenjurnar tengja okkur saman í anda einingar. Eining Al-Anon og jafnvel einnig langlífi samtakanna er undir því komið að við höldum áfram að fylgja þessum meginreglum sem erfðavenjurnar standa vörð um.

Mörgum okkar, sem aldrei hafa lært hvernig á að koma vel saman við aðra eða hvernig fólk hagar sér í heilbrigðri fjölskyldu, finnast þessar andlegu meginreglur einnig koma að gagni í einkalífi okkar, á vinnustað og vinahópi. Þess vegna er það okkar hagur að gera þær að mikilvægum þætti í lífi okkar. Bati okkar sem einstaklinga er jafn nátengdur erfðavenjunum tólf og reynslusporunum tólf.

Byggt á B-22, How Al-Anon Works, P-60, Tólf erfðavenjur í máli og myndum (Twelve Traditions Illustrated) og

B-24, Paths to Recovery (Leiðir til bata)

Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.©

Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda al-anon.is.

Al-Anon samtökin á Íslandi©

Al-Anon félögum er frjálst að prenta út og dreifa efninu innan samtakanna og til félaga.