Al-Anon leiðin - fyrir fjölskyldur og vini alkóhólista  (B-22)

 

 

Bókin kom í fyrst skipti út á íslensku í Mars 2012 og hefur verið mjög vinsæl. Hún fjallar á aðgengilegan og yfirgripsmikinn hátt um undirstöðuþætti bataleiðarinnar og er því tilvalin fyrir nýliða.

 

Í bókinni er stuttar en hnitmiðaðar lýsingar á Reynslusporunum, Erfðavenjunum og Þjónustuhugtökunum sem og slagorðunum. Bókin inniheldur auk þess reynslusögur frá félögum.

 

Kilja með atriðisorðaskrá, 416 síður. Verð kr. 5.800. Pöntunarnúmer: B-22.

 

Sýnishorn úr Fyrsta hluta, kafla 10

 

Breytt viðhorf

 

Hversu oft höfum við ekki litið á tiltekið atvik eða jafnvel heila viku sem annað hvort algóða eða alslæma? Dagurinn var ónýtur ef alkóhólistinn drakk eða vinur var þunglyndur. Og ef rigndi daginn sem við höfðum látið okkur hlakka til lautarferðar þá vorum við í rusli. Nú þegar við erum byrjuð í Al-Anon og erum að læra að færa athyglina að okkur sjálfum þá komumst við að því að veröldin er ekki aðeins í svörtu eða hvítu. Núna felst munurinn á góðum dögum og slæmum ekki í því hvað á sér stað eða hvað öðru fólki finnst eða hvernig því líður. Við getum átt góðan dag jafnt í blíðviðri sem byl, jafnt þegar allt fer eftir því sem við ætluðum og þegar kvöldmaturinn brennur við, mjólkin klárast og hraðbankinn gleypir kortið okkar. Við getum meira að segja átt góðan dag þótt alkóhólistinn í lífi okkar drekki enn, vegna þess að nú vitum við að það veltur á okkar eigin viðhorfum hvernig dagurinn okkar er.

 

Máttur viðhorfsins

 

Líkt og Shakespeare sagði þá „er ekkert gott eða illt, nema fyrir álög hugans.“ Hvort sem við erum meðvituð um það eður ei þá hefur afstaða okkar áhrif á það hvernig við skynjum það sem gerist í lífi okkar; lífreynsla okkar veltur þannig fremur á því hvernig við túlkum það sem gerist en á atburðunum sjálfum. Enginn vill verða veikur; veikindi geta verið óþægileg, stundum alveg skelfilega. En hvort sem við lendum í því að vera rúmliggjandi með kvef, eða eitthvað af alvarlegra tagi, þá höfum samt sem áður val um hvernig við lítum á þá reynslu. Við getum enn og aftur upplifað okkur sem fórnarlömb og dvalið við allt það sem við erum ófær um að taka okkur fyrir hendur – eða litið á kringumstæðurnar sem dulið lán. Við gætum fundið fyrir óvæntum létti þegar við neyðumst óvænt til að leggjast í rúmið og losnum um tíma undan daglegum kvöðum. Við getum nýtt þetta tækifæri til þess að hvílast, íhuga stöðu mála, taka til á ný við einhver af þeim hugðarefnum sem við höfum máski vanrækt eða einfaldlega verið góð við sjálf okkur. Þegar við áttum okkur á því að við höfum ávallt gengið bæði að heilsu okkar og þeim dýrmæta tíma sem okkur er úthlutað í lífinu sem gefnum, gætum við fundið hjá okkur þakklæti fyrir hvoru tveggja og gert hvern dag betri.

 

Með öðrum orðum þá getum við, eins og sagt er í klisjunni, litið svo á að glasið sé annað hvort hálftómt eða hálffullt. Val okkar mun ákvarða hvernig við skynjum heiminn og hafa áhrif á það hvað okkur finnst um okkur sjálf og aðra.

 

Þetta á sérstaklega við um þau okkar sem þekkja frá fyrstu hendi áhrifin af alkóhólisma annarrar manneskju. Mörg okkar hneigjast til neikvæðs hugsunargangs sem veldur því að við sjáum aðeins það slæma við kringumstæður okkar. Þegar við horfum til framtíðar ímyndum við okkur hið versta og verðum svo upptekin af því að hafa áhyggjur eða reyna að vernda okkur að við gleymum að hafa gaman af lífinu. Í stað þess að snúa okkur til annarra þá búum við okkur undir vonbrigði og látum tækifæri til að njóta lífsins framhjá okkur fara. Þegar væntingar okkar standast ekki eða áætlanir okkar raskast vorkennum við sjálfum okkur og reiðumst þeim sem við teljum ábyrg. Við nýtum oft þetta mótlæti til að réttlæta hvers vegna við eigum sjálf einhverju ólokið, höfum sjálf svikið loforð eða vanrækt það sem er á okkar ábyrgð.

 

Okkur er algjör nauðsyn að breyta slíkum viðhorfum ef við ætlum að ná bata því að þau vinna gegn okkur en við verðum að vera heiðarleg gagnvart okkur sjálfum. Það þjónar engum tilgangi að þykjast vera bjartsýn þegar okkur þykja aðstæður sársaukafullar eða ógnvekjandi eða þegar okkur finnst veröldin drungaleg ásýndum. Við sækjumst eftir raunverulegri breytingu, ekki afneitun. Fyrsta skrefið í átt til að breyta neikvæðri afstöðu okkar er að verða meðvituð um hana og því ferli lýkur sjaldan á einni nóttu.
 
Jafnvel eftir að við höfum orðið okkur meðvituð um viðhorf sem vinnur gegn okkur getur okkur brugðið við þegar við verðum þess óvænt vör að því skýtur upp hvað eftir annað. Viðhorfið virðist áberandi. Við veltum því fyrir okkur hvernig í ósköpunum okkur gat sést yfir það og hvort aðrir hafa áttað sig á því hversu skaðlegt það er. En áður en við getum gripið til árangursríkra ráða og breytt neikvæðu viðhorfi í jákvætt í raun og veru eða sjálfsvorkunn í þakklæti þá verðum við að gangast við okkur sjálfum nákvæmlega eins og við erum. Við verðum að viðurkenna að þessi truflandi ávani eða viðhorf er hluti af okkur. Við verðum að gangast við tilfinningum okkar og skynjunum eins og þær eru og við verðum einnig að rækta með okkur vilja til að breytast. Við biðjum æðri mátt okkar um hjálp vegna þess að við getum ekki gert þetta einsömul. Þegar við verðum fús þá leitum við uppi jákvæða þætti í hverjum kringumstæðum og finnum þar duldar gjafir, jafnvel þegar hvað mest reynir á okkur. Í fyrstu skynjum við það ekki en smám saman breytist afstaða okkar þar til veröldin virðist í raun og veru bjartari og meira aðlaðandi en áður. Með tímanum tökum við varla eftir ýmsu sem áður hefði vakið með okkur neikvæð viðhorf. Við getum jafnvel komið auga á eitt og annað sem við getum verið þakklát fyrir.

 

Al-Anon Leiðin (B-22), bls. 99-101

 

Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.

© Al-Anon Family Group Headquarters. All Rights Reserved.


Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda www.al-anon.is.