Slagorðin

Slagorðin og æðruleysisbænin styrkja traust okkar á æðri mátt til andlegs vaxtar. Þegar við setjum slagorðin og æðruleysisbænina í samhengi við Al-Anon bataleiðina hjálpa þau okkur að takast á við dagleg persónuleg vandamál.

Slagorðin er hægt að nota á fjölmargan hátt í dagsins önn:

  • Hugleiða eða iðka tiltekið slagorð í heila viku
  • Hafa þau upp á vegg eða í gemsanum
  • Hugleiða hvernig við notum þau til að takast á við daglega lífið
  • Þau eru frábært fundarefni

Hafðu það einfalt
(Keep It Simple)

Þegar lífið virðist óviðráðanlegt og ruglingslegt hentar best að beita einföldum aðferðum og þetta slagorð minnir okkur á að flækja málin ekki ómeðvitað með því að reyna að sjá fyrir allt það sem gæti farið úrskeiðis til að vera viðbúin því. Þegar við höfum það einfalt reynum við að taka hlutunum eins og þeir eru í stað þess að velta því fyrir okkur hvað, ef til vill og kannski gæti orðið, ef þetta eða hitt væri svona eða hinsegin.

Það minnir okkur á að flækja málin ekki frekar eða taka ekki meira að okkur en við getum ráðið við og að okkur gangi betur ef við einföldum markmið okkar. Að við getum slakað á, verið mildari við okkur sjálf og treyst því að ef við setjum annan fótinn fram fyrir hinn til skiptis komumst við á áfangastað. Einfaldlega skref fyrir skref.


Nema fyrir náð guðs
(But for the grace of God)

Þetta slagorð sem er stytting á máltækinu Þar gengi ég, nema fyrir náð guðs, minnir okkur á að ef ekki væri fyrir náð okkar æðri máttar værum við í sporum þeirra sem okkur hættir til að gagnrýna og álasa. Það segir okkur að það sé ekki okkar að dæma og við getum ekki vitað hvað aðrir eru að kljást við. Með því að vera langrækin, hefnigjörn, uppfull af ásökunum og gremju eyðum við miklum tíma sem við gætum annars notað til að þroska með okkur þakklæti fyrir það góða sem okkur hefur verið gefið og við spyrjum okkur í hvað við viljum eyða kröftum okkar.


Lifðu og leyfðu öðrum að lifa
(Live and let live)

Margir aðstandendur einbeita sér að síðari hluta þessa slagorðs þegar þeir byrja batagöngu sína. Við notum þetta slagorð til að minna okkur á að annað fólk á rétt á sínu lífi, rétt á að taka eigin ákvarðanir og taka afleiðingum þeirra, bæði góðum og slæmum. Með því að stíga til hliðar og leyfa öðrum að vera þeir sjálfir án okkar íhlutunar sýnum við þeim, og okkur virðingu og losum okkur við alls kyns byrðar sem okkur var aldrei ætlað að bera.

Með því gefst okkur tækifæri til að skoða okkur sjálf og snúa okkur að fyrri hluta slagorðsins: Lifðu! Við sem búum eða höfum búið við alkóhólisma höfum oft verið heltekin af annarra vandamálum og lífi og vanrækt okkur sjálf líkamlega og andlega. Þetta slagorð hvetur okkur til að snúa okkur að því að rækta okkur sjálf og sinna okkar eigin lífi og þörfum. Al-Anon bataleiðin, trúnaðarmenn og aðrir Al-Anon félagar geta hjálpað okkur til að finna leiðir til þess. Við eigum rétt á að lifa og sýna okkur sjálfum virðingu.


Byrjaðu á byrjuninni
(First things first)

Þetta slagorð hvetur okkur til að gefa okkur tíma til að forgangsraða. Í óreiðu alkóhólískra kringumstæðna höfum við vanist því að bregðast við háværustu kröfunum og þess vegna sést okkur oft yfir alvarlegar kringumstæður og hljóðlátar en mikilvægar þarfir okkar sjálfra. Þetta slagorð hjálpar okkur að átta okkur á því hvaða kosti við eigum, hvað við eigum að setja í forgang og að lifa með þeim ákvörðunum sem við tökum.


Dagurinn í dag
(Just for today)

Með því að lifa í dag og leggja fortíð og framtíð til hliðar virðast þau verkefni sem okkur hafa fundist óframkvæmanleg, viðráðanlegri. Við áttum okkur á því að ekki þarf endilega að leysa úr öllum ágreiningsefnum á stundinni og fyrir fullt og allt. Með því að lifa daginn í dag getum við breytt okkur sjálfum örlítið og kannað nýja möguleika.


Megi það byrja hjá mér
(Let it begin with me)

Við erum ábyrg fyrir okkar eigin breytni, tilfinningum, líðan og hegðun. Slagorðið Megi það byrja hjá mér minnir okkur á að bíða ekki eftir að aðrir breytist og að við réttlætum ekki slæma hegðun okkar með því að aðrir hegði sér illa eða komi illa fram við okkur. Að við séu ekki vansæl af því aðrir geri okkur ekki hamingjusöm heldur eigum við að hefjast handa og uppfylla okkar þarfir sjálf. Erum við að leggja eitthvað jákvætt af mörkum til þess sem fram fer eða stöndum við bara hjá og gagnrýnum aðra fyrir að hlutirnir séu ekki í lagi. Breytum við því sem við getur breytt eða ætlumst við til að aðrir sjái um alla hluti.


Hversu mikilvægt er það?
(How important is it?)

Hvert okkar ákveður fyrir sig hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu en flest erum við sammála um að okkur hættir til að komast í uppnám yfir því sem litlu máli skiptir. Þetta slagorð minnir okkur á að rifja upp hvað það er sem hefur mest gildi í lífinu. Kostar það okkur æðruleysið að einhver sagði óvingjarnleg orð við okkur eða að við gleymdum einhverju sem við ætluðum okkur að gera? Hvað er svo mikilvægt að það sé fimm mínútna virði af óhamingju og vansæld? Og það sem er mikilvægt, Hversu mikilvægt er það, í dag?


Hugsaðu
(Think)

Slagorðið Hugsaðu minnir okkur á að í stað þess að bregðast ósjálfrátt við getum við staldrað við, hugsað og valið það sem okkur er fyrir bestu. Í stað þess að bregðast við ögrunum og erfiðleikum með látum, hávaða, tárum, píslarvætti, sjálfsásökunum, niðurrifs hugsunum eða hverju því sem við höfum tamið okkur í alkóhólísku umhverfi getum við tekið meðvitaða ákvörðun um eigin hegðun og reynt að átta okkur á muninum á úlfalda og mýflugu.


Einn dagur í einu
(One day at a time)

Meðan við rýnum í það ókomna og reynum að sjá fyrir atburði og samskipti í framtíðinni til að vera viðbúin öllu því sem mögulega getur komið upp á missum við af möguleikum dagsins í dag. Framtíðin er ekki innan seilingar og flestum okkar gengur betur að takast á við verkefni jafnt sem kvíða einn dag í einu. Með því að nýta daginn í dag sem best getum við búið okkur undir það sem morgundagurinn ber í skauti sér en við erum engu betur undir það búin að takast á við erfiðleika í framtíðinni þó við sóum deginum í dag í að hafa áhyggjur af morgundeginum.

Erfiðleikar og sársauki í framtíðinni verður hvorki meiri né minni þó við veltum okkur upp úr áhyggjum yfir þeim í dag, við drögum aðeins þjáningar okkar á langinn. Með því að lifa einn dag í einu gefst okkur kostur á að skipta óviðráðanlegum verkefnum niður í smærri og viðráðanlegri hluta og reynt að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og gleði.


Hafðu hugann opinn
(Keep an open mind)

Þegar við höfum hugann opinn erum við tilbúin að veita athygli visku sem getur leynst þar sem við eigum síst von á. Hún getur jafnt leynst í orðum gamalreyndra Al-Anon félaga, nýliðanna, lítils barns eða í röfli einhvers sem okkur líkar alls ekki við. Með því að hafa hugann opinn útilokum við ekki hjálp, hvaðan sem hún berst.


Góðir hlutir gerast hægt/Með hægðinni hefst það
(Easy does it)

Flest höfum við reynt að knýja fram úrlausnir með góðu eða illu og við höfum gripið til ótrúlegustu aðgerða bara til að gera eitthvað. Þetta slagorð segir okkur að okkur geti miðað áfram þó við förum okkur hægt og stundum sé jafnvel árangursríkast að gera ekkert. Þar sem harkan hefur ekki dugað gerir hægðin það oftar en ekki.


Slepptu tökunum og leyfðu guði
(Let go and let God)

Í óreiðu alkóhólískra kringumstæðna höfum við treyst á okkar eigin mátt og viljastyrk við að reyna að stjórna því sem ekki er hægt að stjórna. Þetta slagorð minnir okkur á að treysta á mátt okkur æðri. Þegar við sleppum tökunum og leyfum guði, sleppum við tökunum á vandamálunum, þráhyggjunni og þörfinni á að hafa stjórn á öllum aðstæðum. Við víkjum við úr vegi og opnum leið fyrir hjálpinni sem við þurfum á að halda.


Byggt á bókunum B-22 Al-Anon leiðin, B-6 Einn dagur í einu í Al-Anon
og bæklingnum P-32 Þetta er Al-Anon
Birt með fóðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.©

Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda al-anon.is.

Al-Anon samtökin á Íslandi©

Al-Anon félögum er frjálst að prenta út og dreifa efninu innan samtakanna og til félaga.


Lesefni um slagorðin:

  • B-6 Einn dagur í einu í Al-Anon
  • B-16 Courage to Change
  • B-22 Al-Anon leiðin
  • B-27 Hope for Today
  • B-24 Paths to Recovery