Þjónustuhandbók

Þjónustuhandbókin lýsir uppbyggingu Al-Anon samtakanna á Íslandi. Í henni er að finna lýsingu á þáttum eins og Svæðisfundum, Landsþjónusturáðstefnu og fastanefndum. Einnig er þar lýsing á ábyrgð og skyldum hinna ýmsu fulltrúa. Allir fulltrúar og aðrir sem starfa í þágu landsþjónustunnar eru sjálfboðaliðar úr röðum almennra Al-Anon félaga. Þjónustuhandbókina má nálgast hérna (pdf skjal).

Aðalþjónustuskrifstofa Al-Anon á Íslandi er í umsjón Framkvæmdanefndar. Síðan 2014 hafa sjálfboðaliðar sinnt vinnu á skrifstofunni.

Fastanefndir
Fastanefndirnar eru hluti af landsþjónustunni. Með virku nefndarstarfi haldast samtökin öflug og lifandi og það stuðlar að sterkum deildum og virkum bata. Allt nefndarstarf er í höndum sjálfboðaliða úr röðum almennra félaga.

Fastanefndirnar eru nokkrar og sinni hver um sig afmörkuðu starfi í þágu samtakanna. Fastanefndir Al-Anon á Íslandi:

  • Aðalþjónustunefnd
  • Alateen nefnd
  • Almannatengslanefnd
  • Alþjóðafulltrúar
  • Framkvæmdanefnd
  • Ráðstefnunefnd
  • Útgáfunefnd

Formenn allra nefnda tilheyra síðan Aðalþjónustunefnd sem hittist reglulega á fundum þar sem nefndir skýra frá stöðu sinna verkefna og fá stuðning við lausn mála ef á þarf að halda. Starf nefndanna er skilgreint í Þjónustuhandbókinni.

Ef þú hefur áhuga á að vita meira um landsþjónustuna og hvað þátttaka felur í sér, þá mælum við með bæklingnum Þátttaka í landsþjónustu – hvaða þátttaka hentar þér? sem gefinn var út í júní 2016. Þar má m.a. finna lýsingu á fastanefndunum. Bæklingurinn er ókeypis og það má hlaða honum niður hér. Einnig var bæklingnum dreift til deilda og geta félagar nálgast eintak á fundunum sínum. Bæklingurinn er líka listaður undir Lesefni – íslenskt.