Æðruleysisbænin

Margir félagar í Al-Anon nýta sér æðruleysisbænina á hverjum degi á meðan aðrir eiga erfitt með að skilja um hvað hún snýst. Hér er smá hugleiðing um bænina frá íslenskum Al-Anon félaga.

Guð gefi mér æðruleysi: Guð gefi mér kjark. Fyll mig orku til að ganga inn í óttann, losaðu fjötra mína.

Til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt: Ég get ekki stjórnað annarri manneskju, hennar líðan, gjörðum né viðhorfum. Ekki því hvort hún drekkur, dópar, sóar fjármunum, fer illa með sig og heilsu sína, kemur illa fram við aðra, sundrar fjölskyldunni, lýgur eða svíkur. Ég ber ekki ábyrgð á líðan annarra.

Kjark til að breyta því sem ég get breytt: Ég þarf að setja mér og öðrum mörk. Breyta mínum viðhorfum og hegðun. Vinna í brestunum og horfast í augu við mína fortíð, nútíð og framtíð. Hvað vil ég gera við mitt líf? Ég þarf að þora að standa með mér, mínum draumum og þrám um gott líf. Ég þarf að rétta út höndina og biðja um hjálp. Hringja í trúnaðarkonuna mína eða aðra Al-Anon félaga.

Og vit til að greina þar á milli: Ég þarf að sleppa tökunum á öðrum og annarra lífi. Hafa vit á að leyfa hlutunum að gerast. Leyfa alkanum og öðrum að gera hlutina á sínum hraða og á sinn hátt. Mín aðferð er ekki endilega sú rétta. Hún er það kannski fyrir mig en en passar ekki endilega öðrum. Leyfa öðrum að gera mistök sem ég er kannski búin að gera og kenndu mér lexíu. Hvert og eitt okkar er sjálfstæður einstaklingur með eigin þrár og skiljum lífið hvert á sinn hátt. Forgangsröðunin er misjöfn, vægi hlutanna mismunandi, ólík áhugamál og áherslur. Ég þarf að hafa vit á að standa stundum hjá en grípa inn í þegar við á. En það getur svo sannarlega verið erfitt að finna meðalveginn góða.


Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það,
sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því,
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli