Skrifstofan

Skrifstofa Al-Anon samtakanna á Íslandi
Skrifstofa Al-Anon er þjónustumiðstöð samtakanna. Hún gegnir víðtæku hlutverki sem tengiliður milli deilda, svæða og landsþjónustunnar. Á skrifstofunni fer fram bóksala til félagsmanna, bókasafna, bókabúða og félagasamtaka. Al-Anon samtökin gefa út mikið af lesefni skrifað af Al-Anon félögum fyrir Al-Anon félaga og alla þá sem áhuga hafa á fjölskyldusjúkdómnum alkóhólisma, almenningi jafnt sem fagaðila.
Upplýsingar um fjármál og reikninga samtakanna
Samkvæmt 7. erfðavenjunni þá eru Al-Anon fjölskyldudeildirnar og samtökin á Íslandi og á heimsvísu, algerlega á eigin framfæri. Það þýðir að Al-Anon samtökin á Íslandi njóta engra utanaðkomandi styrkja. Eingöngu sala á lesefni, fjárframlög deildanna og félaganna fjármagna rekstur skrifstofunnar, greiða laun starfsmanns og síðast en ekki síst útgáfu á lesefni.

Seinasta áratuginn hefur reyndin verið sú að framlög deilda og einstaklinga nema einungis um einum fjórða af þeirri upphæð sem þarf til reksturs samtakanna. Því hefur sala lesefnis haldið samtökunum á floti. Þetta leiðir til þess að ekki eru fyrir hendi peningar til að gefa út nýtt lesefni. Brýn þörf er á því að geta gefið út meira lesefni á íslensku. Nú þegar er til þýtt efni sem samtökin hafa ekki ráð á að gefa út.


Almennur reikningur samtakanna er:
0101-26-021674, kt. 680978-0429

Deildir vinsamlegast láti nafn deildar koma fram í skýringu ef greitt er í gegnum netbanka, þar sem engin listi er til á skrifstofunni yfir kennitölur deilda eða reikningsnúmer þeirra.

Félagar setji skýringuna frjálst framlag félaga í skýringarreit sé greitt í gengum banka eða netbanka. Hægt er að láta fasta upphæð fara sjálfkrafa inn mánaðarlega í gengum netbanka.

Deildir láti nafn deildar koma fram sem skýringu. Félagar setja frjálst framlag í skýringu.

Þar sem Al-Anon samtökin halda engar skrár um félaga sína er góð þjónustumiðstöð nauðsynleg til að miðla upplýsingum og fréttum til deilda og félaga. Til þess að gera það mögulegt halda samtökin eina skrá en það er skrá yfir deildar- og svæðisfulltrúa sem taka við fréttum frá skrifstofu og nefndum og miðla til félaga í deildunum og svæðanna. Allar deildir þurfa að hafa skráðan deildarfulltrúa til þess að teljast hluti af þjónustuneti samtakanna og m.a. geta skráð deildina í fundaskrá. Því er nauðsynlegt að deildir séu ávallt vakandi fyrir því að skrifstofan og landsþjónustan hafi réttar upplýsingar um deildar- og varadeildarfulltrúa til þess að hægt sé að miðla upplýsingum frá skrifstofu til félaga. Einnig má geta þess að deildarfulltrúi fer með atkvæði deildarinnar á svæðisfundum Al-Anon.

Starfsmaður samtakanna á sæti í aðalþjónustunefnd og hefur þannig innsýn í þjónustugeirann í heild. Hann hefur samskipti við félaga, deildir og sinnir upplýsingagjöf til fólks sem er utan samtakanna og kemur fyrirspurnum og ábendingum áfram til viðeigandi nefnda og félaga í þjónustu. Einnig er hægt að nálgast fréttir og tilkynningar frá skrifstofu, félögum, deildum og nefndum á Hlekknum.

Starfsmaður sér um að ávallt sé nægt lesefni til sölu á skrifstofunni og sér um að sérpanta lesefni að utan ef óskað er. Hann sér um samskipti við prentsmiðjur vegna bókaútgáfu og uppfærslu á fundaskrá. Færsla bókhalds og öll almenn skrifstofustörf eru einnig í höndum starfsmanns.

Á heimsvísu gegna þjónustuskrifstofur aðildarlandanna mikilvægu hlutverki til þess að boð berist á milli landa og að öll Al-Anon löndin séu samstíga í þeim tilgangi samtakanna að hjálpa vinum og fjölskyldum alkóhólista.

Upplýsingar um uppbyggingu þjónustugeira Al-Anon má finna undir hlekknum Al-Anon starfið.