Alþjóðastarf

Frétt um alþjóðafund árið 2012 (Útdráttur úr The Forum, February 2013)

Hlutverk alþjóðafulltrúa Al-Anon er m.a. að taka þátt í alþjóðafundi (IAGSM) sem haldnir eru á tveggja ára fresti. Síðast var slíkur fundur haldinn í október 2012, var það í sextánda sinn sem  alþjóðafundur er haldinn. Fundurinn var í S-Afríku og sáu Al-Anon samtökin á Íslandi sér ekki fært að senda alþjóðafulltrúa sína á þann fund vegna kostnaðar.

Fundinn sóttu 29 fulltrúar frá 16 samtökum víða um heim. Yfirskrift fundarins var „Engin samtök eru nokkru sinni ein – IAGSM“ . Þetta var í fyrsta sinn sem alþjóðafundur er haldinn á meginlandi  Afríku og voru það Al-Anon samtökin í Cape Town sem voru gestgjafar. Gillian G, fulltrúi S-Afríku sagði að undirbúningur fundarins hafi hjálpað þeim til finnast þau tengjast betur tilgangi Al-Anon samtakanna.

Lois frá Ástralíu var leiðari á fundinum og lagði út frá yfirskriftinni og sagði: „Það sem kom í huga minn var að strá eru hvert og eitt veikburða en ef þau eru fléttuð saman er hægt að búa til úr þeim efni sem er mjög sterkt og endingargott.“

Roger C. Formaður alþjóðanefndar (ICC) ávarpaði fundarmenn og sagði; „ég er þess fullviss að eftir þennan fund höfum við öll upplifað mikinn samhug en þó er mikilvægara að við munum fara héðan með endurnýjaðan áhuga og kraft til að tryggja að engin samtök eru nokkru sinni ein.“

Karen R, fulltrúi BNA og Kanada deildi eftirfarandi með fundarmönnum: „Yfirskriftin í ár tengir okkur við þjónustuna og einnig við batann. Að sjálfsögðu þörfnumst við hvers annars til að öðlast bata og þessir fundir annað hvert ár minna okkur á að við erum ekki ein í þjónustu þar sem við vinnum hvert í sínu landi.“

Vonir standa til að alþjóðafulltrúar geti sótt næsta fund fyrir hönd Al-Anon samtakanna á Íslandi árið 2014.

 

Hér er hlekkur á Bandarísku vefsíðu Al-Anon.