1. sporið: Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi

Reynslusaga
 
 

Í bernsku var mér kennt að bera virðingu fyrir eldra fólki, sérstaklega foreldrum mínum.
Þegar drykkja föður míns var orðin að vandamáli missti ég alla virðingu fyrir honum. Þetta kom
mér úr jafnvægi því að það braut í bága við allt sem mér hafði verið kennt. Ég varð óskaplega
óhamingjusöm af því að mér þótti mjög vænt um hann. Ég hafði mikla sektarkennd af því að
nöldrið í mér gerði ekkert gagn og ég hafði slæma samvisku ef ég nöldraði ekki í honum af því
að þá fannst mér að ég væri ekki að reyna neitt til að láta hann hætta að drekka.
Ég var hrædd um að ef ég héldi áfram að sækja Alateen fundi yrði hann reiður og drykkjan
myndi versna. Það var AA félagi sem settist niður með mér og sagði við mig: ,,Þú getur ekki
borið ábyrgð á því hvort alkóhólistinn drekkur eða ekki. Alkóhólistinn mun drekka af því að þú
ert að þvo upp, brýtur disk eða af því að það er rigning eða af því að það er of mikið sólskin úti.“
Þessu hef ég aldrei gleymt.
Þar sem alkóhólismi er sjúkdómur og ég hef lært hvernig hann lýsir sér, get ég aftur borið
virðingu fyrir föður mínum. Líf mitt hætti að snúast um drykkju pabba. Ég tók eftir því hvort hann
var drukkinn eða ekki en það skipti ekki máli, það stjórnaði því ekki hvernig dagurinn var hjá mér.
Ég gat aðskilið tilfinningar mínar frá vandamálum foreldra minna en samt haldið áfram að þykja
vænt um þau. Það er erfiðara að takast á við alkóhólisma hjá þeim sem þér þykir vænt um en
þeim sem þér stendur á sama um. Það snertir mann minna þó einhver óviðkomandi drekki sig í
hel.
Ég ásakaði sjálfa mig fyrir vandamál pabba þegar ég átti í raun enga sök á því. Faðir minn vildi
fá láta vorkenna sér og fá gagnrýni og ég veitti honum hvort tveggja. Í Alateen varð mér ljóst að
þetta var ekki mér að kenna og að ég átti ekki að gagnrýna hann. Ég átti að sýna honum ást
mína og reyna að hjálpa honum.
Þetta spor snýst um uppgjöf. Ég á mjög erfitt með að gefast upp hvort sem er fyrir stóru eða
smáu. Innra með mér er risastórt skrímsli sem ræðst á allt sem reynir að hindra mig eða er
ósammála mér. Ég veit að pabbi minn er veikur og mamma mín líka. En allra veikust eru
skrímslið mitt og ég. Við verðum að læra að við getum aldrei stjórnað eða læknað sjúkdóminn
alkóhólisma eða fórnarlömb hans.
 
Ég lærði líka að viðurkenna þá staðreynd að ég get ekki breytt systur minni og ég ber hvorki
ábyrgð á drykkju hennar eða dópneyslu. Það var erfitt því stundum fannst mér ég bera ábyrgð á
því sem hún gerði. Hún reyndi að kenna mér um og mér fannst það hlyti að vera eitthvað sem
ég gæti gert. Ég var vön að reyna að leysa vandamál systur minnar og að vinna í hennar bata.
En þetta virkar ekki svona og mun aldrei gera. Þegar ég hafði lært að ég bar ekki ábyrgð á bata
hennar né drykkju öðlaðist ég frelsi til að læra og þroska sjálfa mig af því að ég var veik. Ég er
vanmáttug gagnvart alkóhólisma, ég var það og ég mun alltaf vera það. Þetta er sjúkdómur. Ég
myndi vera vanmáttug gegn hvaða sjúkdómi sem er.