Í Alateen lærði ég að alkhólismi er sjúkdómur

Úr Forum
Júlí 2008
Fram til sjö ára aldurs fannst mér að líf mitt væri dásamlegt. Ég bjó hjá móður minni, frænku og afa, átti marga vini og fékk góðar einkunnir. Ég lifði áhyggjulausu lífi þar til móðir mín sá hann aftur. 
 
Hann var martröð lífs míns – hann var stjúpfaðir minn. Hann átti við drykkjuvandamál að stríða, hinn svokallaða alkóhólisma. Sjúkdómurinn tók stjórn á lífi hans og endaði á því að taka líf hans.
Móðir mín elskaði hann svo ég reyndi að gleðja hana með því að láta sem ég elskaði hann líka. Þau giftust stuttu eftir sjö ára afmælið mitt og það var von á litlu systur minni. Ég átti líka stjúpbróður. Ég varð að flytja í nýtt hús sem ég hataði – þó ég viti ekki hvers vegna ég hataði það. Hinn bróðir minn fæddist stuttu eftir að við fluttum.
Nokkrum árum síðar skaut stjúpfaðir minn sig í fylleríi. Hann öskraði á mig að ná í símann sem ég og gerði. Hann hringdi sjálfur á sjúkrabílinn sem flutti hann á sjúkrahús þar sem hann dvaldist um tíma.
Fljótlega fékk hann innvortis blæðingar og það vakti mikinn óróa hjá öllum. Hann kvaldist mikið – og einnig við. Hann dvaldist lengi á spítala og allir voru áhyggjufullir. Hann kom aftur heim en við vissum að þetta myndi gerast aftur.
Þegar ég varð eldri fór ég að vorkenna stjúpföður mínum og ég saknaði hans þegar hann var horfinn á braut. Mér fór að þykja vænna um hann eftir því sem árin liðu og það olli mér áhyggjum, ég vissi ekki að það var eðlilegt að elska stjúpforeldri.
Móðir mín og ráðgjafi minn ráðlögðu mér að fara í Alateen. Fundirnir hjálpuðu mér mikið og mér lærðist að ég var ekki sú eina sem varð fyrir áhrifum alkóhólisma. Mér fannst það góð tilfinning að einhver skildi mig svo ég hélt áfram að sækja fundi.
Móðir mín kastaði stjúpföður mínum nokkrum sinnum á dyr vegna þess að hann hélt áfram að koma drukkinn heim og fela vodkaflöskurnar þar sem hann hélt að við fyndum þær ekki. Hún hélt áfram að hleypa honum heim eftir fylleríin.
Hann fór að heiman í níu mánuði og við söknuðum hans öll en vissum samt að þetta væri öllum fyrir bestu. Við elskuðum hann öll en við gátum bara ekki lifað við þetta ástand lengur. Ég elskaði hann enn, þó ég hafi ekki viljað viðurkenna það. Á þessu tímabili var ég líka í mikilli afneitun.
Um ári síðar byrjuðu innvortis blæðingarnar aftur. Hann fór á sjúkrahúsið og kom heim nokkrum dögum síðar. Mér sýndist hann í góðu ásigkomulagi.
Dag einn þegar ég kom heim úr skólanum með skólabílnum voru um 20 lögreglubílar fyrir utan húsið okkar. Afi stoppaði mig í miðri brekkunni og sagði mér að stjúpfaðir minn væri látinn. Ég skildi þetta ekki, hann virtist við góða heilsu tæpri viku áður. Í þetta sinn hafði ofneysla áfengis og lyfja verið banvænt.
Alateen hefur kennt mér að stjúpfaðir minn þjáðist af sjúkdómi.
Mér líður mjög illa vegna þess að meðan hann lifði sýndi ég honum aldrei í raun hve vænt mér þótti um hann, að ég bar umhyggju fyrir honum. Ég hef lært að meta gæludýr mín að verðleikum því við vitum aldrei hvað bíður okkar. Mér þykir vænt um móður mína því hún ber umhyggju fyrir mér. Mér þykir vænt um Alateen vini mína, þeir geta hjálpað mér í gegnum allt. Mikilvægast af öllu – mér hefur lærst að þykja vænt um sjálfa mig.
 
Jessica, Indiana, Bandarríkjunum


The Forum, July 2008
Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.© 
© Al-Anon Family Group Headquarters, Inc. 2008. All Rights Reserved.


Öll réttindi áskilin! Al-Anon og Alateen félögum er frjálst að prenta út og dreifa efninu innan samtakanna og til félaga. 
Al-Anon samtökin á Íslandi©