Gefandi þjónusta

Reynslusaga trúnaðarkonu í Alateen
Á Al-Anon fundum hafði ég oft heyrt tilkynningar frá Alateen um að það sárvantaði fleira trúnaðarfólk. Það hvarflaði ekki að mér að ég gæti sinnt þessu 12. spors starfi. Ég taldi mér trú um að til að gerast trúnaðarmanneskja í Alateen yrði maður að hafa alist upp við mjög mikla drykkju og mér fannst ég ekki passa inn í það mynstur.
Það var ekki fyrr en Al-Anon félagi sem einnig var trúnaðarmanneskja í Alateen kom að máli við mig og spurði hvort ég vildi ekki vera með í þessari frábæru þjónustu sem eitthvað fór að gerast. Ég maldaði í móinn en Al-Anon félaginn útskýrði fyrir mér að nóg er að hafa reynslu af bataleiðinni í Al-Anon og að vera tilbúinn að vinna 12. sporið. Ég lét slag standa og var mjög stressuð fyrstu fundina mína því mér fannst ég bera ábyrgð á unglingunum.
Eftir því sem á leið þá sá ég hvað Alateen fundirnir gáfu mér mikið og hvað ég lærði mikið á því að hlusta á Alateen félagana deila reynslu sinni, styrk og von. Ég þurfti að læra að ég er jafningi unglinganna, ekki kennari, auk þess sem bati Alateen félaga er ekki á mína ábyrgð heldur gefa samtökin og æðri máttur hverjum og einum bata. Ég lærði að hafa það einfalt og að það mikilvægasta sem ég vill að Alateen félagar læri er að þeir bera ekki ábyrgð á drykkju annarra. Í kjölfarið fékk ég fleiri tækifæri til að þjóna Alateen með því að kynna Alateen og taka þátt í þýðingum og útgáfu á Alateen lesefni.
Það er stórkostleg gjöf að geta gefið unglingum kost á því að kynnast bataleiðinni í reynslusporunum og einingunni í erfðavenjunum og fá að fylgjast með þeim vaxa, dafna og taka miklum framförum í Alateen.
 
 Íslenskur Al-Anon félagi
 

Öll réttindi áskilin! Al-Anon og Alateen félögum er frjálst að prenta út og dreifa efninu innan samtakanna og til félaga. 
Al-Anon samtökin á Íslandi©