Reynslusögur um fundi

21. mars

Áður en ég kynntist Alateen, ríkti ótti á heimili mínu. Jafnvel hundarnir lögðust niður þegar pabbi kom inn í herbergið. Svo var það að einhver bauð mömmu á Al-Anon fund og sagði henni frá Alateen, svo hún tók mig með.

          Ég sat fyrir utan fundinn og grét, af því ég var alltof hrædd til að fara þangað inn. Á fyrsta fundinum sem ég sat, sá ég tvo góða vini mína. Mesti ótti minn við Alateen var að einhver af skólafélögum mínum kæmist að þessu og ég vildi ekki að neinn vissi það. Þegar ég sat á fundinum, áttaði ég mig á því, að vinir mínir voru þarna af því þeir þurftu líka á hjálp að halda.

Það tekur langan tíma að þroskast í Alateen. Mér líkaði það ekki í fyrstu. Ég hafði ekki vanist því að fólk segði satt. Ég hætti að fara og vandamál mín versnuðu. Loksins fór ég þangað aftur og grét allan fundinn. Ég trúi því að minn æðri máttur hafi leitt mig þangað. Í dag er líf mitt gott. Ég reyni að missa ekki af fundi. Ef ég geri það, er eins og ég fari aftur í gamla farið. Pabbi er ennþá veikur en ég verð að einbeita mér að mínu lífi. Ég verð að vinna að því að hjálpa mér. Alateen hjálpar mér að lifa í voninni. Þegar mér batnar, lagast annað líka.

Til umhugsunar:

Það er erfitt að láta eins og allt sé í besta lagi, þegar það er ekki þannig. Þegar ég bæli tilfinningar mínar innra með mér, þá er eitthvað sem fer að gefa sig og það er venjulega ég.

 B – 10, Alateen – A Day at a Time, bls. 243, birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.


13. mars

Ég er með þunglyndi. Þegar ég loks þurfti að leggjast inn á sjúkrahús vegna þess, hélt ég að ég myndi skammast mín of mikið til að segja öðrum frá því, en svo var ekki. Í vikunni sem ég kom af spítalanum fór ég á fyrsta Alateen fundinn minn. Ég fann að það var eini staðurinn þar sem ég gat sagt frá tilfinningum mínum og lífi mínu án þess að aðrir dæmdu mig.

Ég skammast mín ekki lengur. Enginn gerir grín að mér eða finnst ég vera einhver einfari sem verði að sneiða hjá. Ég finn að það er allt í lagi að eiga vandamál, jafnvel alvarleg vandamál. Ég veit að alkohólismi hefur haft áhrif á líf mitt, og að ég er ekki einn.

Ef eitthvað er að, er allt í lagi að segja einhverjum frá því. Oftast er hjálp í því að segja bara frá. Núna, ef ég hef þörf fyrir að tala, veit ég að ég get reitt mig á Alateen vini mína, að þeir verði til staðar, – ekki bara til að hlusta, heldur líka til að veita stuðning. Það er virkilega hjálp í því.

Til umhugsunar:

Bataleiðin fyllir í tómarúmið í lífi mínu og gefur mér eitthvað til að lifa fyrir.

B – 10, Alateen – A Day at a Time, bls. 290birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.


27. nóvember    

Báðir foreldrar mínir eru alkóhólistar. Þau tóku mig úr einkaskóla og settu mig í almennan skóla. Ég átti svona kannski tvo vini og ég var komin á undan öllum, svo allir létu eins og ég væri alger proffi. Þá tók besti vinur minn mig með á Alateen fund. Ég var ferlega hrædd. Ég hélt að Alateen félagarnir myndu líta niður á mig eins og krakkarnir í skólanum. Sem betur fer voru ekki nema svona sex manns á fundinum.

Eftir nokkra fundi, byrjaði ég að átta mig á því  að ég gat sagt það sem ég vildi. Ég gat viðurkennt hvað sem var eða verið feimin og þagað. Þessi krakkar myndu samt taka mér. Einn daginn sagði ég þeim hvernig mér leið og ég fór að gráta. Enginn gerði grín að mér. Í staðinn fékk ég knús og huggun og þá grét ég ennþá meira.

          Sumir af þessum fyrstu sex Alateen félögum eru fluttir í burtu, en ég er þakklát fyrir það að þau voru þarna þegar ég þarfnaðist þess. Núna er það á mína ábyrgð að vera til staðar fyrir nýju krakkana sem koma á fund.

Til umhugsunar:

Ef þú ert að hugsa um að fara á fund, farðu þá á fund og hugsaðu um það á eftir.

 Tilvitnun í From Survival to Recovery, p. 141

B- 26, Living in Alateen Today bls.?, birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.


22. desember

Fyrst þegar ég kom í Alateen, þá var ég alltaf út af fyrir mig. Ég fór í Alateen til að foreldrar mínir gætu verið stolt af mér, því þau langaði svo mikið til að ég færi. Það virtist svo sem nógu auðvelt. Ég fór á fundi, hlustaði og fór svo. En það var magnað að hlusta og eftir smá tíma skildi ég að foreldrar mínir vildu að ég færi á fundina mín vegna. Það er það sem Alateen snýst um; að ég hjálpi mér. Þegar ég vissi það og með því að styðjast við trúnaðarmanninn minn hef ég fundið margar nýjar leiðir til að bæta mig og til að leysa persónuleika minn úr viðjum.

Í gegnum vinnuna í sporunum tólf, þá hef ég farið að sjá betri hliðar á mér í öllu sem ég geri. Sama hversu stórt vandamál ég glími við, ég veit að ég get ráðið við það einn dag í einu, með hjálp Alateen og kærleikans og félagsskaparins sem ég finn þar. Það er magnað að hlusta.

Til umhugsunar:

Ég tek þátt í félagsskap fólks sem hjálpar fólki. Það gerir mér auðveldara um vik að leita til annarra og segja ,,Ég get þetta ekki ein(n). Saman náum við árangri“.

 Living in Alateen Today bls.?, birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.©


Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda www.al-anon.is.

Al-Anon samtökin á Íslandi©

Þessar bækur fást á skrifstofu Al-Anon