Alateen fundir eru á miðvikudögum kl. 20:00 í Holtagörðum, Holtavegi 10, 2. hæð, salur 7 (Tólf spora hús)
Um Alateen fundi
Hvað gerist á fundi?
Hver Alateen deild fundar einu sinni í viku, allt árið. Á fundinum deila unglingar reynslu sinni, styrk og von af þeirri bataleið sem þeir finna í Alateen. Ákveðnu fundarformi er fylgt og þar er öllum gefinn kostur á að tjá sig. Enginn er skyldugur til að tala og stundum vilja félagar bara hlusta. Það er líklegt að unglingur sem kemur á fund hitti aðra unglinga sem eigi við svipuð vandamál að stríða vegna drykkju ættingja eða vinar. Þeir sem mæta á sinn fyrsta fund, fá gefins bækling um Alateen. Á fundinum er einnig hægt að kaupa Alateen bækur og bæklinga. Fundirnir geta verið ólíkir dag frá degi, þess vegna eru nýliðar hvattir til að mæta á sex fundi áður en þeir ákveða hvort Alateen sé fyrir þá.
Hverjir mega koma á fundi?
Allir unglingar 13-18 ára sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju ættingja eða vinar. Í 3. erfðavenjunni segir: ,,Til þess að gerast Alateen félagi þarf aðeins eitt, að ættingi eða vinur hafi átt eða eigi í vanda vegna alkóhólisma.“ Enginn þarf að skrá sig og enginn fylgist með mætingu Alateen félaga. Alateen félögum er frjálst að mæta þegar þeir vilja.
Á fundunum sitja einnig tveir reyndir Al-Anon félagar sem kallast Alateen trúnaðarmenn. Þetta eru Al-Anon félagar sem hafa verið lengi í samtökunum og uppfylla ákveðin skilyrði. Al-Anon félagarnir eru til stuðnings, stundum tala þeir í upphafi og lok fundar og jafnvel stýra honum. Það er alltaf best ef Alateen félagarnir, unglingarnir sjálfir, bera sameiginlega ábyrgð á sinni deild.
Foreldrar, fagfólk og utanaðkomandi aðilar mega ekki sitja Alateen fundi enda eru þeir einungis fyrir unglinga sem eru aðstandendur alkóhólista.
Hvað er nafnleynd?
Í Alateen er nafnleynd. Allt sem sagt er á fundum er trúnaðarmál og fer ekki út fyrir fundinn. Nafnleyndin er oft forsenda þess að félagar þora að tjá sig opið og óþvingað. Við kynnum okkur jafnan með fyrsta nafni eða gælunafni og þurfum aldrei að segja fullt nafn. Nafnleyndin felst í því að enginn annar sem hefur setið fund með þér mun segja öðrum frá því að þú sért í Alateen. Sömuleiðis ber þér ekki að ljóstra því upp við utanaðkomandi aðila hverjir mæta á fundi og hverjir ekki. Okkur er frjálst að segja öðrum, vinum og ættingjum, að við sækjum Alateen fundi. En þegar kemur að öðrum félögum þá virðum við nafnleyndina og vitum að aðrir virða okkar nafnleynd. Nafnleyndin skapar ómetanlegt traust.
Má maður haga sér hvernig sem er?
Nei, á fundum eru traust og virðing mikilvæg. Einn talar í einu og á meðan hlusta aðrir og grípa ekki fram í. Að hlusta á aðra félaga hjálpar okkur. Oft eru Alateen félagar að segja frá hlutum sem þeim finnst mjög erfitt að tala um og hafa jafnvel aldrei áður sagt neinum frá. Þess vegna hlustum við af virðingu rétt eins og við viljum að hlustað sé á okkur.
Ekki eru til neinar skrifaðar reglur um hegðun á Alateen fundum. Þess eru dæmi erlendis að stórar Alateen deildir komi sér saman um ,,Hegðunarviðmið“ sem Alateen félagarnir semja sjálfir.
Hver stjórnar deildinni?
Í raun stjórnar engin ein manneskja deildinni. Eftir fyrsta fund í mánuði er haldinn ,,Samviskufundur“. Á samviskufundi er rætt um þjónustuna í deildinni, bornar eru upp tillögur um breytingar á fundinum o.fl. og kosið er um allar tillögur. Við reynum alltaf að komast að samhljóða niðurstöðu og ef það er ekki hægt þá að minnsta kosti 2/3 greiddra atkvæða. Á samviskufundi fær sameiginleg viska Alateen félaganna að ráða því hvernig deildin er.
Það er hagur deildarinnar að skoða allar ákvarðanir í ljósi 12 erfðavenja Alateen en tilgangur erfðavenjanna er að tryggja einingu og bata í deildinni. Á þann hátt verða Alateen fundirnir til hjálpar fyrir sem flesta.