Reynslusögur um erfðavenjur Alateen

1. erfðavenjan: Sameiginleg velferð okkar situr í fyrirrúmi. Bati hvers og eins byggist á einingu samtakanna.

  • Fyrir mér er þetta mikilvægasta erfðavenjan. Til þess að fá eins mikið og ég get úr bataleiðinni, verð ég að upplifa einingu með mér, einingu með fjölskyldunni minni og einingu með deildinni minni. Formaður deildarinnar okkar ákvað að Alateen lesefnið væri ekki nóg, svo hann fór að koma með bæklinga og pésa frá öðrum samtökum. Sumir af þeim voru nokkuð góðir svo við pöntuðum fleiri. En flest af þessu var um alkóhólisma, og upplýsingarnar voru ekki alltaf samkvæmar sjálfum sér. Umræður okkar enduðu í rifrildum yfir einkennum frumstigs og seinni stigum alkóhólisma. Allir urðu pirraðir og ráðvilltari en áður. Á endanum fengum við aðra trúnaðarmanneskju sem hvatti okkur til að halda okkur við Alateen lesefnið og nota Al-Anon efni okkur til aðstoðar. Við lærðum af illri reynslu að lesefnið er mikilvægt fyrir einingu hópsins.

2. erfðavenjan: Hver deild hefur aðeins einn leiðtoga algóðan guð, eins og hann birtist í deildarsamviskunni. Fyrirsvarsmenn okkar eru aðeins þjónar sem við treystum, ekki stjórnendur.

  • Deildin okkar hafði einn eldri meðlim sem hafði verið í Alateen lengur en allir aðrir. Af því að hann var eldri og reyndari, leituðu allir til hans til að fá svör og eiginlega tóku því sem sjálfsögðum hlut að allt sem hann sagði væri rétt. Seinna meir höfðu nokkrir í deildinni öðlast nógu mikla reynslu til að leiða fundi og taka ábyrgð á öðrum störfum innan deildarinnar. En þessi eldri félagi vildi ennþá stjórna deildinni. Hann var alltaf að reyna að segja hinum hvernig þau áttu að fara að og hann skapaði alls konar vandamál. Hann pantaði það lesefni sem hann vildi í staðinn fyrir að spyrja hina í deildinni. Hann bauð fólki að leiða fundi án þess að ræða við fundarstjórann. Hann meira að segja krafðist að fundarstjóri/ritari myndi ráðfæra sig við hann áður en fundurinn væri skipulagður! Trúnaðarmanneskjan okkar kom auga á vandamálið og stakk upp á við fundarstjórann að við skyldum hafa fund um erfðavenjurnar. Sem við gerðum og komumst að því að við vorum á gráu svæði með fleira en þetta. Núna erum við með erfðavenjufund að minnsta kosti einu sinni á hálfs árs fresti.

3. erfðavenjan: Til þess að gerast Alateenfélagi þarf aðeins eitt, að ættingi eða vinur hafi átt eða eigi í vanda vegna alkóhólisma. Unglingar sem eru aðstandendur alkóhólista mega því aðeins nefna sig Alateendeild að þeir komi saman til sameiginlegrar hjálpar og með því skilyrði að þeir komi saman í þeim tilgangi einum.

  • Ég átti mjög nána vinkonu sem var ekki aðstandandi en hún var mjög skilningsrík og mér fannst ég geta sagt henni allt. Ég sagði henni einnig frá drykkjuvanda föður míns og hvaða áhrif það hafði á mig. Þegar ég fór í Alateen, vildi ég hafa hana með mér. Hún var mér mikils virði og mér fannst Alateen vera svo frábært og að það væri gott fyrir alla. Ég vildi deila þessu með henni.
  • En ég ákvað að spyrja deildina mína fyrst hvort það væri allt í lagi. Eftir að við höfðum rætt málin skildi ég af hverju það væri ekki heppilegt að hún kæmi. Sumir félaganna gætu orðið þvingaðir og hræddir við að segja frá því hvað lægi þeim á hjarta. Það myndi skaða einingu deildarinnar og samskipti félaganna.
  • Sumir í öðrum deildum nálægt okkur höfðu leyft utanaðkomandi fólki að stunda fundina þeirra, en lentu svo í vandræðum vegna þess. Ég er mjög ánægð yfir því að deildin okkar ræðir málin og reynir að standa vörð um erfðavenjurnar.

4. erfðavenjan: Sérhver deild ætti að vera sjálfráða nema í málefnum sem snerta aðrar Alateen- eða Al-Anon fjölskyldudeildir eða Al-Anon og AA samtökin í heild.

  • Deildin okkar gekk vel og við vorum bara ánægð með félagana okkar. Við vorum sátt við hlutina eins og þeir voru og okkur fannst engin þörf í að halda sambandi við alþjóðaþjónustuskrifstofuna (WSO) eða aðalþjónustuskrifstofuna okkar. Svo að við vorum alveg út af fyrir okkur. Eftir einhvern tíma stöðnuðum við. Fundirnir virtust ekki gera neitt fyrir okkur lengur. Við héldum áfram að heyra það gamla aftur og aftur. Umræður urðu að slúðursamkomum. Við fengum engar upplýsingar um hvað var að gerast í Alateen annars staðar. Nýtt lesefni kom og við vissum ekki einu sinni af því. Enginn fór á svæðisfundi. Við höfðum ekki einu sinni deildarfulltrúa fyrir deildina og enginn man hvaða netfang var notað. Félagarnir hættu að koma, best að tala hreint út, fundirnir voru leiðinlegir.
  • Einn félaginn fór á vinnusmiðju hjá samtökunum og kom aftur með fréttir um hvað var að gerast hjá Alateen. Deildir út um allt voru orðnar svo sjálfhverfar að það var enginn til að veita almennar upplýsingar eða til að fara út að tala í skólum og þess háttar. Svæðisútvarpið var að leita að Alateen meðlim til að taka viðtal við en enginn vildi fara. Við áttuðum okkur þá á að með því að einangra okkur, vorum við að hindra að lífsnauðsynlegar upplýsingar bærust til okkar og missa af tækifærinu til að breiða út boðskap Alateen. Samtökin í heild líða fyrir afstöðu okkar líka.
  • En nú erum við virk bæði á svæðinu og landsvísu. Deildarfulltrúinn okkar kynnir fyrir okkur hvað er að gerast í alþjóðaþjónustunni og okkur finnst við vera hluti af alheimssamtökum. Deildarfulltrúinn okkar segir okkur frá því sem er að gerast á okkar heimasvæði og við erum orðin mjög virk í að láta vita af okkur og kynna bataleið Alateen. Okkur lærðist að ef við viljum að deildin okkar dafni og þroskist, þá er mikilvægt fyrir okkur að gefa af okkur til þess að viðhalda langlífi samtakanna.

5. erfðavenjan: Alateen unglingadeildirnar hafa aðeins einn tilgang, að hjálpa öðrum unglingum sem búa við alkóhólisma. Það gerum við með því að tileinka okkur tólf reynsluspor AA-samtakanna og með því að auðsýna nánustu fjölskyldu okkar skilning og hvatningu.

  • Margir af félögum okkar áttu við fíkniefnavandamál að stríða. Fljótlega áttuðum við okkur á að umræðan snerist um hvernig og hvernig ekki átti að nota fíkniefni, í staðinn fyrir að ræða bataleiðina. Við fengum lesefni um fíkniefni og fengum fólk úr forvarnarstarfi til að tala á fundum. Enginn var að tala um vandamálin sem fylgja því að eiga alkóhólista fyrir foreldra eða sem systkini. Krakkar sem áttu ekki við fíkniefnavandamál að stríða komu ekki aftur og við enduðum ruglaðri en við vorum þegar við fyrst byrjuðum í deildinni.
  • Við ákváðum að halda okkur við megintilgang okkar sem er að hjálpa börnum alkóhólista og eftirláta öðrum samtökum önnur vandamál.

6. erfðavenjan: Alateendeildirnar, sem eru hluti Al-Anon fjölskyldudeildanna, ættu aldrei að standa að, leggja fé til, eða lána nafn sitt neinum utanaðkomandi samtökum til þess að fjármunir, eignir eða upphefð fjarlægi okkur ekki frá upphaflegum andlegum tilgangi okkar. Þó að við séum sjálfstæð heild, skyldum við ávallt vera fús til samvinnu við AA-samtökin.

  • Hópnum okkar finnst mjög mikilvægt að starfa með AA-samtökunum. Við njótum þess líka. Í hvert sinn sem AA biður um leiðara, erum við meira en fús til að bjóða okkur fram og við bjóðum þeim á opnu fundina okkar og biðjum um AA leiðara. Þegar Al-Anon trúnaðarmanneskjan okkar hætti vegna persónulegra vandamála, höfðum við engan til að taka við af henni. Svo AA félagi tók við af henni. Í fyrstu var það frábært og við tókum ekki eftir neinum breytingum. En með tímanum sáum við að sjónarhorn alkóhólistans var öðruvísi en okkar. Hann skildi ekki hugmyndina um að aftengja sig og sum ráð sem hann gaf krökkunum voru ruglingsleg. Stór hluti fundanna okkar fjallaði um alkóhólisma og alkóhólistana. Áður en við vissum af, vorum við farin að lesa AA bæklinga og krakkar sem komu inn í deildina héldu að við værum hluti af AA í stað Al-Anon. Á endanum fengum við Al-Anon félaga sem aðstoðartrúnaðarmann deildarinnar og við erum komin aftur inn á sjónarhorn Al-Anon.

7. erfðavenjan: Sérhver deild ætti að vera algjörlega á eigin framfæri og hafna utanaðkomandi framlögum.

  • Alateen hópurinn okkar hittist í húsi sem var í eigu kirkjunnar. Við fengum afnot af húsinu endurgjaldslaust. Sóknarpresti kirkjunnar þótti mikið til Alateen leiðarinnar koma og vildi gera allt sem hann gat fyrir okkur. Hann byrjaði á að kaupa veitingar handa okkur og skilja þær öðru hvoru eftir í húsinu handa okkur. Krakkarnir sem sáu um veitingarnar byrjuðu á að reiða sig á hann og þau hættu að koma með veitingar sjálf. Stundum kom sóknarpresturinn með veitingar og stundum ekki. Þetta olli ágreiningi í deildinni og á endanum ákváðum við að afþakka gjafmildi sóknarprestsins því að það var verið að svipta félagana tækifærinu á að taka ábyrgð og tilheyra deildinni með því að taka þátt í þjónustu.
  • En þegar á leið, í hvert sinn sem að kirkjan þurfti á fundarstað að halda á fundarkvöldunum okkar, vorum við beðin um að færa okkur og við vorum flutt frá einum stað til annars. Þetta var mjög slæmt því að heimilsfang hússins var auglýst í fundaskránni og ef nýliði kom of seint, gat hann ekki fundið okkur. Auk þess að ef kjarnafélagi missti af fundi síðastliðinnar viku, vissi hann ekki hvert hann ætti að fara. Við báðum sóknarprestinn um að fá að borga leigu. Í fyrstu vildi hann ekki leyfa okkur það en við komum honum í skilning um af hverju það var nauðsynlegt. Við sýndum honum fram á að við værum þakklát, en við vildum líka sýna ábyrgð. Deildin okkar skilur af hverju það er nauðsynlegt að standa á eigin fótum. Það styrkir líka einingu hópsins þegar við öll hjálpum til við að borga leigu, lesefni og öll önnur útgjöld.

8. erfðavenjan: Tólfta spors starf Alateen ætti ávallt að vera í höndum áhugamanna en þjónustumiðstöðvar okkar mega ráða sérstaka starfskrafta.

  • Félagsráðgjafi frá geðdeild svæðisins kom deildinni okkar á fót. Hann hafði mikinn áhuga á alkóhólisma og vildi hjálpa. En hann vissi ekki neitt um Alateen aðferðina og hann hafði ekki búið við alkóhólisma í sinni eigin fjölskyldu. Hann vildi vera með hópmeðferð hjá krökkunum og nota upplýsingarnar til að skrifa grein í tímariti. Þegar foreldrarnir komust að þessu urðu þeir alveg brjálaðir. Núna höfum við Al-Anon trúnaðarmann sem leyfir okkur að fara eftir Alateen bataleiðinni. Það er mikið betra.

9. erfðavenjan: Deildirnar, sem slíkar, ætti aldrei að skipuleggja, en við getum myndað þjónusturáð eða nefndir, sem ábyrgar eru gagnvart þeim, sem þær þjóna.

  • Deildin okkar var svo óskipulögð, að það var alger óreiða. Við höfðum ekki fundarstjóra; hver sem vildi gat leitt fundinn. Ekkert var skipulagt fyrirfram, við bara töluðum um það sem við vildum. Enginn vildi vera gjaldkeri, svo að sá sem keypti gos og veitingar tók þakklætispottinn með sér heim. Við höfðum ekki neinn til að taka við pósti til deildarinnar eða vera með tilkynningar, svo að við vissum ekki hvað var að gerast og við höfðum ekkert lesefni. Við höfðum ekki einu sinni fastan trúnaðarmann. Sumar konurnar úr Al-Anon deild nálægt okkur skiptust á að koma til að líta eftir okkur, en við höfðum enga eina ábyrga manneskju sem við gætum fengið aðstoð hjá. Það er svo sem óþarfi að segja að við vorum í hræðilegu ástandi. Við lognuðumst næstum því út af og við hefðum gert það ef ein af okkar næstum-trúnaðarkonunum hefði ekki tekið virkari ábyrgð á deildinni okkar. Núna höfum við krakka í þjónustu og allir skilja hvað það er mikilvægt að skipuleggja fundina fyrirfram.

10. erfðavenjan: Alateendeildirnar taka enga afstöðu til utanaðkomandi málefna, þess vegna ætti aldrei að blanda nafni okkar í opinber deilumál.

  • Maðurinn sem bauð sig fram til þingmanns í síðustu kosningum var óvirkur alkóhólisti og pabbi eins félaganna okkar. Hann var mjög umhyggjusamur maður og vel liðinn í deildinni okkar. Margir í deildinni okkar fóru að vinna við kosningaherferðina hans. Reyndar voru það svo mörg af okkur að við fórum að bera plaköt og barmmerki á Alateen fundunum. Við skipulögðum hver sá um hvaða hverfi og dreifðum fjölritum og svo framvegis. Við höfðum meira að segja augýsingar sem sögðu að Alateen styddi þennan þingmann. Þetta var auðvitað brot á nafnleyndinni hans og dró nafn okkar inn í opinber deilumál. Áður en við vissum af, hafði andstæðingur hans gert sér grein fyrir að þingmaðurinn okkar væri alkóhólisti og gerði mikið mál úr því.
  • Þrjár vikur í röð notuðum við fundina til að finna leiðir til þess að láta andstæðinginn draga orð sín til baka. Eitt kvöldið kom einn af félögunum okkar miður sín á fundinn. Það hafði eitthvað legið á henni síðastliðnar þrjár vikur og hún gat ekki byrgt það inni lengur. Við skömmuðumst okkar ekkert smá mikið því að við höfðum ekki haldið Alateen fund í næstum mánuð. Við komumst að því að sem einstaklingar gátum við tekið þátt en við áttum að halda deildinni utan við þetta málefni.

11. erfðavenjan: Stefna okkar í kynningarmálum byggist á aðlöðun fremur en áróðri og skyldum við ætíð varðveita eigin nafnleynd í fjölmiðlum. Sérstaklega skyldum við gæta nafnleyndar allra AA félaga.

  • Þegar ritarinn okkar var að senda út boðskort fyrir afmælið okkar, sendi hún þau heim til félaganna og setti nafn Alateen utan á umslögin. Virk móðir eins krakkans sá póstinn á undan henni. Hún vissi ekki að dóttir hennar færi á Alateen fundi og varð mjög reið yfir því. Stelpan enti á sjúkrahúsinu vegna barsmíða. Við lærðum mikilvægi nafnleyndarinnar af illri reynslu.

12. erfðavenjan: Nafnleynd er hinn andlegi grundvöllur allra erfðavenja okkar og minnir okkur ætíð á að setja málefni og markmið ofar einstaklingum.

  • Ég hafði verið félagi í Alateen í næstum þrjú ár þegar fjölskyldan mín flutti. Það hefði verið mikið mál að fyrir mig að halda áfram að fara á fundi hjá gömlu deildinni, svo að ég og systir mín stofnuðum nýja Alateen deild í hverfinu okkar með hjálp Al-Anon félaga. Systir mín gifti sig skömmu seinna og flutti burt, svo að ég var eini reyndi félaginn eftir. Það skipti mig litlu máli, en það virtist skipta miklu fyrir marga yngri félagana. Í hvert sinn sem þeir sögðu eitthvað, leituðu þeir eftir samþykki mínu. Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að enginn félagi væri mikilvægari en annar, en á sama tíma hélt ég í starf fundarstjórans því að ég hélt að það væri enginn nógu hæfur til þess! Ég komst að því að lokum að það væri ekki gott að einn einstaklingur væri svona áberandi, svo að ég sagði af mér fundarstjóraembættinu.

Úr P-18, Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur fyrir Alateen, fæst á skrifstofu Alatenn og í Alateen deildum
Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.
© Al-Anon Family Group Headquarters, Inc. 1984. All Rights Reserved.

Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda www.al-anon.is.

Al-Anon samtökin á Íslandi©