1. sporið: Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.
- Í bernsku var mér kennt að bera virðingu fyrir eldra fólki, sérstaklega foreldrum mínum. Þegar drykkja föður míns var orðin að vandamáli missti ég alla virðingu fyrir honum. Þetta kom mér úr jafnvægi því að það braut í bága við allt sem mér hafði verið kennt. Ég varð óskaplega óhamingjusöm af því að mér þótti mjög vænt um hann. Ég hafði mikla sektarkennd af því að nöldrið í mér gerði ekkert gagn og ég hafði slæma samvisku ef ég nöldraði ekki í honum af því að þá fannst mér að ég væri ekki að reyna neitt til að láta hann hætta að drekka. Ég var hrædd um að ef ég héldi áfram að sækja Alateen fundi yrði hann reiður og drykkjan myndi versna. Það var AA félagi sem settist niður með mér og sagði við mig: ,,Þú getur ekki borið ábyrgð á því hvort alkóhólistinn drekkur eða ekki. Alkóhólistinn mun drekka af því að þú ert að þvo upp, brýtur disk eða af því að það er rigning eða af því að það er of mikið sólskin úti.“ Þessu hef ég aldrei gleymt. Þar sem alkóhólismi er sjúkdómur og ég hef lært hvernig hann lýsir sér, get ég aftur borið virðingu fyrir föður mínum. Líf mitt hætti að snúast um drykkju pabba. Ég tók eftir því hvort hann var drukkinn eða ekki en það skipti ekki máli, það stjórnaði því ekki hvernig dagurinn var hjá mér.
- Ég ásakaði sjálfa mig fyrir vandamál pabba þegar ég átti í raun enga sök á því. Faðir minn vildi fá láta vorkenna sér og fá gagnrýni og ég veitti honum hvort tveggja. Í Alateen varð mér ljóst að þetta var ekki mér að kenna og að ég átti ekki að gagnrýna hann. Ég átti að sýna honum ást mína og reyna að hjálpa honum. Þetta spor snýst um uppgjöf. Ég á mjög erfitt með að gefast upp hvort sem er fyrir stóru eða smáu. Innra með mér er risastórt skrímsli sem ræðst á allt sem reynir að hindra mig eða er ósammála mér. Ég veit að pabbi minn er veikur og mamma mín líka. En allra veikust eru skrímslið mitt og ég. Við verðum að læra að við getum aldrei stjórnað eða læknað sjúkdóminn alkóhólisma eða fórnarlömb hans.
- Ég lærði líka að viðurkenna þá staðreynd að ég get ekki breytt systur minni og ég ber hvorki ábyrgð á drykkju hennar eða dópneyslu. Það var erfitt því stundum fannst mér ég bera ábyrgð á því sem hún gerði. Hún reyndi að kenna mér um og mér fannst það hlyti að vera eitthvað sem ég gæti gert. Ég var vön að reyna að leysa vandamál systur minnar og að vinna í hennar bata. En þetta virkar ekki svona og mun aldrei gera. Þegar ég hafði lært að ég bar ekki ábyrgð á bata hennar né drykkju öðlaðist ég frelsi til að læra og þroska sjálfa mig af því að ég var veik. Ég er vanmáttug gagnvart alkóhólisma, ég var það og ég mun alltaf vera það. Þetta er sjúkdómur. Ég myndi vera vanmáttug gegn hvaða sjúkdómi sem er.
2. sporið: Við fórum að trúa að máttur, okkur æðri, gæti gert okkur andlega heil að nýju.
- Ég trúi því að það sé eitthvað mér æðra og að þaðan geti ég fengið innblástur til að láta mér þykja vænt um aðra. Ég hef þroskast nógu mikið til að líta á minn æðri mátt sem vin sem ég get talað við og þessi vinátta hjálpar mér til að létta á hjarta mínu við hann. Ég get slakað á og komið skipulagi á huga minn. Þá verður hugsunin skýr og ég get tekið þær ákvarðanir sem þarf að taka á hverjum degi.
- Áður fyrr, gerði munurinn á guði í trúarlegum skilningi og guði í andlegum skilningi mig alveg ringlaðan. Það virtist sem ég fengi ekki eins mikið út úr því að fara í kirkju og ég fékk út úr Alateen fundunum. Ég held að það sé vegna þess að í kirkjunni var predikað yfir mér og mér sagt hvað ég ætti að hugsa. Í Alateen gat ég sjálfur tekið ákvörðun. Nú er ég ekki eins dómharður og ég er líka farinn að skilja hvað er verið að tala um í kirkjunni.
3. sporið: Við tókum þá ákvörðun að láta vilja okkar og líf lúta handleiðslu guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum.
- Ég þekkti engan æðri mátt þegar ég kom í Alateen. Fyrir mig eru síðustu orðin í þessu spori mikilvægust – ,,guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum “. Ég trúi á guð á minn hátt og eins og ég held að hann vilji að ég trúi. Þetta hefur hjálpað mér mjög mikið af því ég aðhyllist engin ein trúarbrögð.
- Þetta spor hjálpaði mér að taka ákvörðun, eitthvað sem ég átti erfitt með áður en ég kom í Alateen. Ég varð að vera fús til að vinna og mæta mínum æðra mætti á miðri leið. Það er bara sanngjarnt – þetta er mitt líf sem ég hef áhyggur af.
- Þegar ég ákveð hvernig ég vil að hlutirnir fari er það minn vilji, þegar ég fæ ekki vilja mínum framgengt, lít ég á það sem vilja míns æðri máttar. Ég reyni að muna að vandamálið sem blasir við mér er aldrei eins stórt og sá æðri máttur sem stendur að baki mér.
4. sporið: Við gerðum óttalaust nákvæman siðferðislegan lista yfir skapgerðareinkenni okkar.
- Það fyrsta sem raunverulega hjálpaði mér var að gera reikningsskil í lífi mínu. Ég gerði það með því hugarfari að hjálpa sjálfum mér. Vá, maður! Allt sem ég fann var hræðilegt. Ég fann hvergi neitt gott! Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég ætti að byrja að vinna í sjálfum mér í stað þess að gagnrýna aðra eins og ég hafði áður gert.
- ,,Við gerðum óttalaust nákvæman siðferðislegan lista yfir skapgerðareinkenni okkar.“ Rækileg og óttalaus? Ég hef áreiðanlega skrifað þrjár blaðsíður af því sem mér gekk vel með. Allir mínir dásamlegu eiginleikar. En þegar ég kom að göllunum fann ég enga. Þegar ég kom að níunda atriðinu fór ég að skoða sjálfa mig fyrir alvöru. Ég fann að það væri möguleiki, já það gæti ef til vill verið að ég hefði einhvern smá galla. Því meira sem ég hugsaði um það því betur gerði ég mér grein fyrir því að gallar mínir væru nokkuð margir. Og þeir voru stórir og ljótir. Þetta tók sinn tíma. Sannleikurinn var sársaukafullur. En að lokum viðurkenndi ég þá staðreynd að ég hefði marga galla sem ég þurfti að losa mig við. Ég gerði rækileg og óttalaus reikningsskil í lífi mínu og í þetta sinn skrifaði ég galla á heilar þrjár blaðsíður.
- Þegar ég fór að vinna fjórða sporið, gerði ég það vegna tilfinninga minna í garð föður míns. Ég var mjög reið vegna þess sem hann hafði gert móður minni, mér og allri fjölskyldunni. Það var erfitt fyrir mig að yfirvinna reiðina og raunverulega langaði mig ekki til þess. En að lokum tókst mér að losa mig við alla reiði í hans garð.
5. sporið: Við viðurkenndum afdráttarlaust fyrir guði, sjálfum okkur og öðrum einstaklingi yfirsjónir okkar.
- Tilfinningin sem fimmta sporið gaf mér var stórkostleg. Mér fannst í raun og veru eins og andi alheimsins og ég leiddumst á göngu minni. Í fyrsta skipti í lífi mínu sá ég sjálfa mig sem heilbrigða manneskju sem var sett saman úr góðu og slæmu. Ég vissi hver ástæðan var fyrir sumu af því sem ég hafði gert. Ég vissi hver tilgangur minn var og nákvæmlega hvers eðlis vandamál mín voru.
6. sporið: Við vorum þess albúin að láta guð fjarlægja alla okkar skapgerðarbresti.
- Ég hélt að ég væri reiðubúin til að vinna þetta spor af því að ég var svo löt. Ég nennti ekki að losa mig sjálf við bresti mína. Ég var sátt við að láta einhvern annan gera það. Ég bjóst við að ég þyrfti bara að segja: ,,Jæja guð, nú tekur þú við“ og þá væru þeir horfnir næsta dag. En þetta var nú ekki alveg svona einfalt.
- Önnur góð tilfinning fylgdi sjötta sporinu, þegar ég var loksins fús til að guð losaði mig við skapgerðarbresti mína. Fyrst vildi ég halda nokkrum eftir, en ég vissi að ég yrði að láta þá alla af hendi til æðri máttar. Þegar ég gerði það létti mér stórkostlega.
7. sporið: Við báðum guð í auðmýkt að fjarlægja brestina.
- Ég trúi því að guð muni losa mig við brestina með því að gefa mér tækifæri til að vinna í sjálfri mér. Til dæmis er ég mjög skapstór, en síðan ég varð meðvituð um þennan galla þá virðist sem ég taki oftar eftir því þegar ég er að missa stjórn á skapi mínu. Ég hef talað við fólk og lært hvernig það fer að því að stjórna sínu skapi. Ég trúi því að þessi nýja vitund um mig sjálfa sé aðferð guðs til að hjálpa mér.
8. sporið: Við gerðum lista yfir alla þá sem við höfðum skaðað og urðum fús til að bæta fyrir brot okkar.
- Það er mikilvægt fyrir mig að búa til lista yfir það fólk sem ég hef sært svo að ég sjái greinilega hvaða hegðun gerði mér meira vont en gott. Ég var best í því að koma með alls konar afsakanir fyrir slæmri hegðun minni. Ég afsakaði mig með því að ég væri bara mannleg eða reyndi að skella skuldinni á aðra.
- Ég var í námi og vildi komast í dýrari skóla en fékk ekki inngöngu og það hafði slæm áhrif á sjálfsálitið. Ég fór í fýlu og taldi mér trú um að eina ástæðan væri sú að mamma og pabbi væru ekki nógu efnuð til að senda mig þangað. Ég var fjölskyldunni mjög erfið. Ef ég hefði ekki rifjað þennan atburð upp annað hvort í huganum eða með því að skrifa hann niður getur verið að ég hefði haldið áfram að trúa afsökunum mínum. Ég særði ekki aðeins foreldra mína heldur sjálfa mig líka. Það forðar mér frá að gera sömu mistökin aftur að ég var fús til að opna hug minn og hjarta og bæta fyrir þetta brot og önnur.
9. sporið: Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust, þar sem því var við komið, svo fremi það særði engan.
- Í mjög langan tíma komst ég upp með að vinna ekki í þessu spori því það myndi skaða mig –það myndi særa sjálfstraust mitt að biðjast fyrirgefningar og bæta fyrir brotin, svo að ég sleppti því. En að lokum varð ég heiðarleg. Nú veit ég að ef ég bæti fyrir brotin gagnvart einhverjum mun hinn sami sennilega hafa meira álit á mér og mér mun líða miklu betur í samskiptum við hann.
- Oft og mörgum sinnum hef ég freistast til að forðast þau vandræði sem fylgja því að biðjast fyrirgefningar milliliðalaust og því valið að bæta fyrir brotið á óbeinan hátt. Ég verð að vera viss um tilgang minn áður en ég ákveð hvernig ég ætla að bæta fyrir brot mitt. Ég spyr mig hvort ég forðist að biðjast fyrirgefningar af því að það sé betra fyrir mig eða af því að það sé í raun og veru betra fyrir hinn aðilann að ég geri það á einhvern annan hátt.
10. sporið: Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar okkur skjátlaðist, viðurkenndum við það undanbragðalaust.
- Á kvöldin áður en ég sofna ligg ég og reyni að muna hvað ég hef gert, sagt og hugsað þann daginn. Ég finn alltaf ýmislegt sem ég vildi óska að ég hefði ekki gert, vissi að var rangt en gerði samt. Ég skoða betur það sem mér þótti verst og næsta dag reyni ég að forðast að það endurtaki sig. Ég einbeiti mér bara að því að gera þetta ekki aftur. Næsta kvöld bæti ég við einu eða tveimur atriðum og þannig held ég áfram.
11. sporið: Við leituðumst við, með bæn og hugleiðslu, að styrkja vitundarsamband okkar við guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum aðeins um þekkingu á því sem hann ætlar okkur og styrk til að framkvæma það.
- Það virðist vera að því meira sem ég hugsa um minn æðri mátt og því heitar sem ég bið um handleiðslu hans, því nær kemst ég honum. Ég er hætt að hugsa um hann sem ógnvekjandi veru, en í stað þess trúi ég á hann sem vin. Þegar ég tala við hann veit ég að hann hlustar. Þetta veitir mér mikið öryggi af því að ég veit að ég er aldrei ein.
- Æðri máttur er besti vinur minn. Hann er alltaf til staðar, reiðubúinn til hjálpar ef ég leyfi honum það. Ég tala við hann á hverjum degi. Fyrst á morgnana og síðan eyði ég með honum einhverjum tíma á hverjum degi á rólegum stað. Hann veit hvað mér er fyrir bestu og að ég reyni að finna út hvað það er.
12. sporið: Við fundum að sá árangur sem náðist, með hjálp reynslusporanna, var andleg vakning og þess vegna reyndum við að flytja öðrum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi.
- Eitt af því sem mér finnst best við bataleiðina, að undaskyldu því að læra um sjálfa mig, er að flytja öðrum boðskapinn. Þú mátt aldrei gleyma því hvernig það var að vera þarna úti í myrkrinu án vonar. Þegar þú ert búin að kynnast samtökunum, ferð að verða ánægðari og vandamálin eru ekki lengur óyfirstíganleg, þá er svo auðvelt að gleyma því að ennþá eru aðrir þarna úti sem þjást, gleymdu þeim ekki. Gleymdu því ekki að einhver sem hafði náð bata hjálpaði þér. Deildu batanum með öðrum – það mun hjálpa þér til að verða hamingjusamari. Þegar þú ferð að útskýra bataleiðina fyrir öðrum gerir þú þér betri grein fyrir því hvernig hún virkar, þú verður betur með á nótunum og kemur auga á það sem þú hefur vanrækt.
Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda www.al-anon.is.
Al-Anon samtökin á Íslandi©