Hver og ein deild ræður því hvernig fundarformið er í sinni deild. En flestar Alateen deildir í heiminum eru með svipaða dagskrá. Hér má sjá það fundarform sem margar Alateen deildir hafa stuðst við:
-
Inngangsorð
-
Allir kynna sig (nafn og hve lengir viðkomandi hefur verið í Alateen)
-
Lesin 12 reynsluspor Alateen eða 12 erfðavenjur Alateen
-
Tilkynningar
-
Alateen lesefni lesið
-
Orðið gengur hringinn – einn talar í einu. Við grípum ekki fram í eða ræðum málefni annarra félaga. Öllum er frjálst að tjá sig um það sem snertir þeirra eign reynslu. Ef þú vilt ekki segja neitt þá er nóg að kynna sig með fornafni.
-
Velgengni og vandmál – orðið gengur annan hring þar sem félagar geta sagt frá velgengni og vandamáli hjá sér.
-
Lokaorð
-
Æðruleysisbænin
Hér koma að neðan má finna inngangs- og lokaorð Alateen funda og æðruleysisbænina
Tillaga að inngangsorðum Alateen funda
Við bjóðum ykkur velkomin í Alateen deildina __________________ og vonum að þið finnið innan þessara samtaka þá hjálp og vináttu sem við höfum verið svo lánsöm að njóta. Við sem búum eða höfum búið við vandamál alkóhólisma höfum öðlast skilning sem fáum er gefinn. Við vorum einnig einmana og ráðvillt, en í Alateen verður okkur ljóst að ekkert er í rauninni vonlaust og það er mögulegt fyrir okkur að finna ánægju og jafnvel hamingju, hvort sem alkóhólistinn drekkur enn eða ekki.
Við hvetjum ykkur eindregið til að reyna Alateen leiðina. Hún hefur hjálpað mörgum okkar til að finna úrlausnir sem leiða til æðruleysis. Afstaða okkar er mikilvæg og þegar við lærum að setja vandamál okkar í rétt samhengi finnum við að þau tapa valdi sínu til að stjórna hugsunum okkar og lífi. Ástandið innan fjölskyldunnar hlýtur að batna þegar við beitum Alateen hugmyndinni. Án slíkrar andlegrar hjálpar er flestum okkar um megn að búa með alkóhólista. Hugsunarháttur okkar brenglast við að reyna að knýja fram úrlausnir og við verðum uppstökk og ósanngjörn án þess að veita því athygli.
Alateen leiðin er grundvölluð á tólf reynslusporum AA-samtakanna. Þeim reynum við að beita smám saman í lífi okkar, einn dag í einu, jafnframt slagorðunum og æðruleysisbæninni. Kærleiksríkur stuðningur okkar hvert við annað og daglegur lestur Al-Anon og Alateen lesefnis, gerir okkur fær um að taka við æðruleysinu sem er ómetanlegt.
Í Alateen er nafnleynd. Allt sem sagt er á fundum og félaga á milli er trúnaðarmál. Aðeins á þann hátt getum við óþvinguð sagt það sem okkur býr í brjósti því þannig hjálpum við hvert öðru í Alateen.**
** Sérstaklega viljum við biðja þá sem eru félagar í öðrum tólf spora samtökum að varðveita nafnleynd sína sem slíkir og einbeita sér að Alateen bataleiðinni á þessum fundi. (samþykkt viðbót sem margar deildir nýta sér).
Við minnum á að Alateen trúnaðarmenn eru bundnir af barnaverndarlögum en samkvæmt þeim ber að tilkynna það ef einhver grunur er um að barn sé beitt ofbeldi.
Tillaga að lokaorðum Alateen funda
Að lokum vil ég taka það fram að þær skoðanir sem hér hafa komið fram voru eingöngu skoðanir þeirra sem töluðu. Takið það sem ykkur geðjast að en látið annað liggja á milli hluta. Þau orð sem hér hafa verið töluð voru sögð í trúnaði og skal farið með þau sem trúnaðarmál. Haldið þeim innan þessara veggja og í huga ykkar.
Nokkur orð sérstaklega ætluð nýliðum: Hver sem vandamál ykkar eru þá er einhver meðal okkar sem hefur líka átt við þau að stríða. Ef þið takið því sem hér er sagt með opnum huga munu þið öðlast hjálp. Ykkur mun verða ljóst að ekkert ástand er það slæmt og engin óhamingja það mikil að ekki megi úr bæta.
Við erum ekki fullkomin, því getur farið svo að þið finnið ekki þá einlægni og vinarhug sem við viljum sýna ykkur. Ef til vill fellur þér ekki við alla hér en fyrr en varir fer þér að þykja vænt um okkur á mjög sérstakan hátt – á sama hátt og okkur þykir vænt um þig.
Talið hvert við annað um vandamálin en forðist slúður og ádeilur. Þið skuluð heldur þroska með ykkur skilning, vináttu og frið Alateen aðferðarinnar – einn dag í einu. **
** Að lokum viljum við minna á nafnleyndina, þakklætispottinn sem stendur straum af kostnaði deildarinnar vegna húsaleigu, veitinga, kaupum á lesefni og rekstri á aðalþjónustuskrifstofu Al-Anon og síðast en ekki síst heimasíðu samtakanna www.al-anon.is (þessa viðbót hafa margar deildir tekið upp)
Ég ætla að biðja þá sem það vilja að fara með lokabænina sem hjá okkur er___________ *
( *Þeir sem það vilja fara með bæn sem deildin hefur komið sér saman um)