Reynsluspor, erfðavenjur og þjónustuhugtök Al-Anon
Bókin Leiðir til bata – Reynsluspor, erfðavenjur og þjónustuhugtök Al-Anon er nú komin út. Um er að ræða íslenska þýðingu á Paths to Recovery-Al-Anon’s Steps, Traditions and Concepts þar sem fjallað er um hinar þrjár arfleifðir Al-Anon: reynslusporin, erfðavenjurnar og þjónustuhugtökin.
Bókinni er skipt í þrjá meginhluta þar sem hver arfleifð er tekin fyrir. Fyrsti hlutinn er tileinkaður reynslusporunum annar erfðavenjunum og sá þriðji þjónustuhugtökunum. Í hverjum hluta eru tólf undirkaflar þar sem ítarlega er fjallað um hvert spor, erfðavenju eða þjónustuhugtak. Þar að auki eru birtar reynslusögur félaga og fjöldi spurninga sem auðvelda félögum að tileinka sér og fylgja þeim meginreglum sem fram koma í reynsluspori, erfðavenju eða þjónustuhugtaki. Bókin endurspeglar reynslu, styrk og von hundruða Al-Anon félaga. Efni bókarinnar mun auka skilning lesenda á hvað felst í Al-Anon leiðinni og leiðbeina Al-Anon félögum á Íslandi þegar þeir leggja stund á hinar þrjár arfleifðir Al-Anon leiðarinnar á leið sinni til bata frá áhrifum drykkju ættingja eða vinar.
Bókin kostar 6000 kr. en er fáanleg á 5000 kr. fram að Landsþjónusturáðstefnu þann 30. mars. Hægt er að panta bókina með pöntunarformi á heimasíðu Al-Anon, al-anon.is. Einnig verður hægt að kaupa bókina í bóksölunni Sundaborg 5 sem verður næst opin 7. febrúar.
Blásið verður til útgáfuhófs á skrifstofu Al-Anon von bráðar og verður það auglýst sérstaklega.
Bestu Al-Anon kveðjur,
Aðalþjónustunefnd