frá aðalþjónustunefnd
Aðstæður í samfélaginu eru vægast sagt öðruvísi en vanalega og skiptir þá engu hver á í hlut. Segja má að öll starfsemi í landinu sé með óvenjulegum hætti og þar er Al-Anon ekki undanskilið.
Starfsemi í deildum er því mismunandi. Sumar deildir hafa fellt tímabundið niður fundi, sumar komið á netfundum og aðrar halda hefðbundna fundi þar sem hægt er að virða fjölda- og fjarlægðartakmarkanir.
Deildarsamviska hverrar deildar hefur komið sér saman um fyrirkomulag fundanna. Fundaskráin á heimasíðu er uppfærð jafnóðum og upplýsingar um breytingar berast. Allir eru að gera sitt besta í flóknum aðstæðum.
Eins og í öllum krefjandi aðstæðum nýta Al-Anon félagar reynslu sína, styrk og von og treysta á meginreglurnar sem finnast í sporunum, erfðavenjum og þjónustuhugtökum til leiðbeiningar.
Gagnlegt er að hafa aðra erfðavenjuna í huga „Hver deild hefur aðeins einn leiðtoga, algóðan guð, eins og hann birtist í deildarsamviskunni“.
Einnig er gott að minna á erfðavenju fjögur sem tekur á sjálfræði deilda, hvað virkar best til að skapa öryggi félaganna og viðhalda einingu í samræmi við meginreglur Al-Anon.
Hafa ber í huga að þetta er tímabundið ástand. Um stund er vanmáttur ríkjandi þar sem þessar aðstæður eru óviðráðanlegar og nú eins og ávallt treystum við á æðri mátt.