Sársaukafull lækning

Einu sinni heyrði ég góða sögu um konu sem þurfti að fara í aðgerð. Þessi kona þjáðist mikið og var með miklar kvalir. Eftir aðgerðina þegar hún var vel vöknuð fann hún enn til sársauka. 
 Henni fannst skrítið að finna til svona mikils sársauka þar sem hún var búin í aðgerðinni og spurði því lækninn afhverju svo væri. Henni leið þannig að henni fannst hún alveg eins hafa getað sleppt því að fara í þessa aðgerð fyrst árangurinn var svona. Læknirinn sagði hinsvegar við hana.
,,Sársaukinn sem þú finnur fyrir núna er sársauki lækningarinnar.“
 Þessi setning snerti mig mjög mikið því þetta er einmitt það sem ég hef fengið að upplifa á minni göngu  í Al-Anon. Ég sé það fyrir mér að ég og þú séum eins og blómabeð í stórum garði. Þegar við fæddumst vorum við gróðursett af Guði í þetta yndislega blómabeð. Til að byrja með döfnuðum við vel og allt leit vel út. En þegar dagarnir og árin liðu komu stormar alkohólismans í ljós, það komu miklir vindar og það kom mikil sól. Jarðvegurinn byrjaði að skorpna og veðurfarið í kringum okkur hafði mikil áhrif á tilfinningar okkar, vilja okkar og hugarfarið  og að lokum  byrjuðu að vaxa upp úr blómabeðinu allskyns gerðir af arfa. Arfinn lítur oft út eins og blóm og því er vel hægt að ruglast á því hvort um er að ræða blóm eða arfa. Þið sem hafið reitt arfa hafið ef til vill tekið eftir því að blómabeðið verður voðalega fínt og glæsilegt þegar búið er að reita arfann en eftir tvær vikur er arfinn byrjaður að koma upp aftur. Afhverju er þetta svo? Það er vegna þess að það sem er sjáanlegt af arfanum er tekið en ræturnar eru ennþá ofan í moldinni og halda áfram að grassera þar og að lokum kemur nýr arfi upp. Það sem ég hef verið að upplifa síðustu mánuði er einmitt þetta. Mitt blómabeð var fullt af arfa – en ég hélt að þessi arfi væri blóm sem ættu heima í blómabeðinu mínu.
Arfinn hafði mörg nöfn og óttinn var stærsti arfinn en það voru margar gerðir t.d. eigingirni, gremja, sjálfsvorkunn, samviskubit og sektarkennd, óheiðarleiki og fleira og fleira. Eftir því sem ég hélt lengra áfram í sporavinnunni minni gerði ég mér grein fyrir arfahrúgunni sem var í beðinu mínu. Alla ævi hafði ég tekið eftir arfanum í blómabeði fólksins í kringum mig og reyndi eins og ég gat að reita þann arfa í burtu. En með hjálp sporanna, trúnaðarkonu og auðvitað Guðs sem er allt í öllu þá gerði ég mér grein fyrir að arfinn var ekki blóm og bað Guð í auðmýkt um að reita hann í burtu með rótum.  Þvílíkt frelsi sem það er að leyfa Guði að hreinsa til í blómabeðinu. Ég hef upplifað yndislegan sigur með Guði síðustu mánuði en oft á tíðum hef ég fundið til og fundið þessa sársaukafullu lækningu. Þegar Guð kippir arfanum burtu þá myndast ákveðið sár því staðurinn sem arfinn var á er orðin tómur. Sumar ræturnar voru orðnar mjög stórar og komnar langt ofan í beðið og það tók og tekur meiri tíma að ná þeim upp, en þið getið rétt ímyndað ykkur sigurinn sem vinnst þegar við fáum að vera frjáls undan öllu því sem bindur okkur. Guð er búin að rífa mikið af arfa upp í lífi mínu  og ég veit að hann er ennþá að vinna  og ég veit að hann gróðursetur falleg blóm í blómabeðið mitt í staðinn. Eins og stendur í bókinni From Survival to Recovery þá mun trúin sjálfkrafa leysa óttann af hólmi og við fyllast þakklæti þegar við gerum okkur ljóst að Guð er að gera það fyrir okkur sem við getum ekki gert fyrir okkur sjálf.
G. S.