Látum slóðina berast

Ritstjórapistill maí 2001:
Hlekkurinn, útgáfa Al-Anon samtakanna á Íslandi, hóf göngu sína á Netinu í síðasta mánuði.  Stefnt er að því að birta nýtt efni í hverjum mánuði; reynslusögur, þýðingar úr lesefni og fréttir frá skrifstofu. Það gleður okkur að geta staðið við þá áætlun enda þótt við séum nýlögð af stað. Enn stendur yfir kynning á þessari útgáfu meðal félaga í 36 deildum Al-Anon samtakanna og enn ófengnir tenglar frá mörgum deildum, en hlutverki þeirra er nánar lýst í grein á síðunni sem merkt er Fréttir.
 
Í þessu nýja ,,tölublaði“ Hlekksins er að finna reynslusögu frá íslenskum Al-Anon félaga undir yfirskriftinni Af hverju Al-Anon fyrir mig? og tvær þýðingar. Önnur þýðingin ber yfirskriftina Væntingar mínar og er reynslusaga frá félaga sem birt var í Forum, tímariti Al-Anon sem gefið er út af Alþjóðaþjónustuskrifstofunni í Bandaríkjunum.  Hin þýðingin er kaflabrot úr bókinni How Al-Anon Works for Families & Friends of Alcoholics og fjallar um aftengingu, en það er ein af gagnlegustu aðferðunum sem Al-Anon leiðin kennir okkur að nota í samskiptum okkar við alkóhólista.
 
Hlekkurinn hefur nú eignast tengla í fjórum deildum; á Akureyri, á Akranesi, í Vestmannaeyjum og í Árbæjardeild í Reykjavík.  Aðrar deildir eru hvattar til að útvega sér tengla og félagar allir til að senda inn efni, þýtt og/eða skrifað frá eigin brjósti, sem og að koma vefslóðinni okkar,  www.al-anon.is sem víðast út á meðal fólks í landinu.  Munum að það er með því að deila reynslu okkar, styrk og vonum sem við öðlumst bata í Al-Anon. Sendið inn texta um hvaðeina sem tengist Al-Anon göngunni; þeir þurfa ekki að vera langir.  Hvað hefur hjálpað þér áleiðis, hvað hefur Al-Anon kennt þér? Þá væri áhugavert að fá til birtingar hugleiðingar um fjórða og fimmta sporið, sem margir eru að takast á við nú á vormánuðunum.  Netfangið er auðvelt að muna: hlekkurinn@al-anon.is  Við höfum nafnleyndina að sjálfsögðu í heiðri og nóg er að merkja innsent efni með fornafni sendanda.
Í lokin vil ég benda á að öllum er frjálst að prenta út efni af Hlekknum og nýta sem fundarefni.
 
Með Al-Anon kveðju,
Vilborg D.