Hlekkurinn á Netinu

Ritstjórapistill apríl 2001:
Kæru Al-Anon félagar.
 
Ykkur birtist hér fyrsta netútgáfa Hlekksins, fréttablaðs Al-Anon samtakanna á Íslandi.  Hlekkurinn kom út á prenti í þó nokkur ár en útgáfa hans hefur legið niðri um alllangt skeið.  Vaxandi erfiðleikum var bundið að fá félaga til að taka virkan þátt í útgáfunni og þeirri vinnu sem fólst í að semja texta, þýða, teikna, fjölfalda og dreifa blaði.  Eðli samtakanna vegna var ekki greitt fyrir þetta starf og í annríki daganna er ekki undarlegt þótt mörgum veitist erfitt að taka að sér sjálfboðaliðavinnu.
 
 
Internetið einfaldar og sparar mikla vinnu og býður okkur áður óþekkta möguleika.  Í Hlekknum á Netinu getum við komið á framfæri efni, samtímis og með litlum tilkostnaði, til allra félaga hvar sem er á landinu, og raunar hvar sem er í heiminum. 
Uppbyggingin verður einföld; við birtum reynslusögur frá ykkur, þýðingar ykkar á samþykktu Al-Anon lesefni og fréttir frá Al-Anon skrifstofunni eftir því sem tilefni gefst til.  Vinnan dreifist á margar hendur og hver og einn fær tækifæri til að gefa og þiggja í senn af Al-Anon samtökunum; að gefa af sjálfum sér og stuðla þannig að eigin bata um leið og annarra.
 
Til þess að koma í veg fyrir að örfáir ,,duglegir/stjórnsamir“ einstaklingar sitji uppi með alla vinnu og ábyrgð og tryggja að Al-Anon hugsjónin sé í heiðri höfð viljum við fá einn tengil Hlekksins í hverri einustu deild samtakanna um land allt.  Aðalþjónustunefnd samtakanna hefur samþykkt eftirfarandi sem hlutverk (t)englanna:
 
1. Að hvetja félaga í sinni deild reglulega til að skrifa og senda reynslusögur í Hlekkinn  með því að tala um það á fundum og minna þar á netfangið og vefslóðina, 12. sporið og gildi þess að deila  reynslu sinni á þennan hátt.
 
2. Koma áleiðis til félaga upplýsingum um nýtt efni á Netinu (fyrirmilligöngu ritnefndarformanns)
 
3. Að prenta út 1-2 eintök af heimasíðunni og leggja fram í sinni deild þannig að þeir sem ekki hafa aðgang að Netinu geti lesið síðuna þegar þeir sækja fundi.
 
4. Að ljá þeim félögum ,,tæknilega aðstoð“ sem vilja deila reynslu sinni en    hafa ekki aðgang eða kunnáttu til að  nota tölvutæknina, þ.e.a.s. skrifa upp fyrir þá texta á tölvu og koma til ritnefndarformanns.              
 
Tenglarnir hafa enga fundaskyldu en verða að hafa aðgang að tölvupósti. Formaður ritnefndar getur boðað til hugmyndafunda meðal þeirra, sé áhugi til slíks. Hætti sá sem tekið hefur að sér hlutverk tengiliðs í sinni deild fundasókn í Al-Anon, skipti um deild, eða missi áhugann á verkinu er þess æskt að hann láti vita af því til ritnefndarformanns og aðstoði við að útvega nýjan tengilið í sinn stað.
 
Formaður ritnefndar mun bera ábyrgð á að taka við aðsendu efni frá félögum, yfirfara það og prófarkalesa og koma því áfram á stafrænu formi til starfsmanns skrifstofunnar, skipuleggja birtingu þess og stuðla jafnframt að því að félagar þýði kafla úr því lesefni samtakanna sem til er á ensku, bæði í bókum og á Netinu (m.a. The Forum í Bandaríkjunum). 
 
Formaður getur t.d. óskað eftir því við tengla að þeir biðji félaga um að senda inn efni sem tengist hinum ýmsu fundar-og umræðuefnum, s.s. sagan mín, tiltekin reynsluspor, tiltekin slagorð og hugtök úr prógramminu, (s.s. aftenging, meðvirkni, nafnleyndin,) og svo framvegis.  Formaður lætur tenglana vita í tölvupósti í hvert sinn sem nýtt efni hefur birst á heimasíðunni.
 
Nýtt líf Hlekksins veltur á því að þið, kæru Al-Anon félagar, verðið óragir við að senda inn efni, bæði eigin texta og þýðingar.  Mörg ykkar hafa þýtt texta úr bókunum okkar og bæklingunum til notkunar innan deildarinnar ykkar. Sendið það nú inn til birtingar og þannig getur það nýst öllum deildum hvar sem þær eru á landinu og blásið nýju lífi í starf samtakanna.
 
Saga hvers og eins, sem hefur á einhvern hátt orðið fyrir áhrifum af drykkju og fíkn annarra, er einstök og hvert og eitt okkar hefur einhverju að miðla.  Hver er þín saga og hvað hefur Al-Anon leiðin kennt þér? Deildu því með okkur í Hlekknum. Netfangið er hlekkurinn@simnet.is
 
Með Al-Anon kveðju,
Vilborg D.
form. ritnefndar Hlekksins