Yfirveguð gremja

Sérhvert okkar hefur væntingar. Þær eru kjarninn í daglegu lífi okkar. Þegar ég vakna á morgnana veit ég að sólin mun rísa í austri og setjast í vestri og að sumarið verður hlýrra en veturinn. Þetta eru hlutir sem ég býst við að gerist hvað svo sem ég geri eða geri ekki. Einhvern veginn breytast þessar væntingar þegar ég beini þeim að fólki og kringumstæðum. Hvernig býst ég við að fólkið mitt hegði sér? Býst ég við því að Scott verði áfram edrú? Býst ég við því að Andrew sjái hversu klikkaðar gjörðir hans eru? Í rauninni býst ég við hvorugu.
Síðastliðið ár hef ég loks gert mér ljóst að væntingar mínar til annarra munu ætíð valda mér vonbrigðum – vegna þess að þær eru mínar væntingar en ekki þeirra. Ég las í bókinni Courage to Change (Kjarkur til að breyta) á bls. 153: ,,Væntingar eru yfirveguð gremja”.  Þegar ég vænti einhvers af manneskju eða kringumstæðum, þýðir það að ég trúi því að viðkomandi ætli að gera það sem ég vil, þegar ég vil það og eins og ég vil. Ef árangurinn er ekki í samræmi við væntingar mínar þá finnst mér að mér hafi mistekist og ég verð fyrir vonbrigðum. Ég er jafnvel svo ósvífin(n) að færa skömm mína og óánægju yfir á aðra manneskju bara til að létta á vonbrigðum mínum. Ég held að ég hafi jafnframt flækt enn frekar væntingar mínar til alkóhólistanna í lífi mínu með því að vilja meira þeim til handa en þeir hafi nokkru sinni viljað sjálfir eða gætu áorkað.
 
Þegar ég lít til baka sé ég að ég var óhæf(ur) um að ákveða, þrátt fyrir góðar fyrirætlanir, hvað einhver annar telur vera ásættanlegan lífsstaðal, edrúmennsku, ölvun, brjálæði, grimmd, ást, velgengni, hamingju eða mistök. Ég get einungis tekið ákvörðun fyrir sjálfa(n) mig um hvað sé ásættanlegt magn af þessum hlutum fyrir mig. Ég er fegin(n) að ég kom af mér ábyrgð á þessum ákvörðunum fyrir aðra! Núna, þegar ég sé að ástvinir mínir ná ekki því marki sem ég tel að þeir gætu náð, þá veit ég að guð, samkvæmt skilningi mínum á honum, hefur áætlun handa þeim. Þegar og ef það verða breytingar, þá munu þeir vinna það verk, ekki ég.
 
Með því að losa mig við væntingar mínar til annarra, verð ég raunsærri. Í því ferli losa ég mig jafnframt við möguleikann á eigin vonbrigðum. Ég vinn að því dag hvern að setja ást í stað væntinga minna til annarra, jafnvel þó svo að ég kjósi að elska ákveðnar manneskjur úr fjarlægð.
 
Þegar ég sá loksins að ég var með hrikalegar væntingar til alkóhólistanna í mínu lífi, varð mér ljóst að kannski væri einnig þörf á því að endurskoða væntingarnar til sjálfrar/sjálfs mín(s). Ég bjóst í alvörunni við því að ég gæti gert kraftaverk. Ekkert smáatriði var of lítið til að kveljast yfir, jafnvel þó svo að það væri svo lítið að enginn annar myndi nokkru sinni taka eftir því. Ég gat ekki sagt nei, vegna þess að ég óttaðist að einhverjum myndi þykja ég ekki nógu góð(ur). Árum saman taldi ég að það sem myndi verða mér til lífs væri að kítta í hverja einustu holu en í Al-Anon gerði ég mér grein fyrir því að mitt besta hverju sinni, er nógu gott.

 

-Nafnlaus
Þýtt úr Forum, júlí 2000, bl.s 22-23