Vonin byrjar með mér

Frá alþjóðafulltrúa Al-Anon 2001:
– Hugleiðing vegna 50 ára afmælis Al-Anon samtakanna
Eftirfarandi erindi var flutt á síðustu landsþjónusturáðstefnu Al-Anon samtakanna, sem haldin var í Neskirkju í september á síðasta ári. Flytjandi var Ása, þáverandi alþjóðafulltrúi samtakanna, og starfandi formaður aðalþjónustunefndarinnar:
Þegar ég var að hugsa um alþjóðastarfið reikaði hugurinn til upphafsins til frumkvöðlanna. Hvernig byrjaði þetta allt saman?
Það var árið 1935 að Lois W., kona Bills, eins af stofnendum AA-samtakanna, gerði sér grein fyrir því að hún yrði að finna sér sína eigin leið til að láta sér líða betur. Það dugði henni ekki að fara á AA-fundi með Bill. Lois hafði kynnst Önnu, konu Bobs sem einnig var einn af stofnendum AA-samtakanna, og þær fóru að koma saman á fundum ásamt fleiri konum.
 
Á þessum árum voru margar fjölskyldudeildir stofnaðar í samvinnu við AA-samtökin. Árið 1950 fóru þrjár konur úr fjölskyldudeild í Toronto og töluðu á fyrstu  alþjóðaráðstefnu AA-samtakanna í Cleveland.
 
Árið 1951, fyrir 50 árum síðan, fékk Lois lista hjá aðalþjónustuskrifstofu AA-samtakanna yfir 87 fjölskyldudeildir í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Suður-Afríku og Írlandi. Lois og Anna sendu þeim öllum bréf . Alls svöruðu 56 deildir með ósk um að stofna þjónustuskrifstofu sem síðan var opnuð á heimili Lois og Bills að Stepping Stone.
 
Árið 1952 kom fyrsti Al-Anon bæklingurinn út, Purpose and Suggestions, eða Tilgangur og tillögur á íslensku, sem Lois skrifaði sjálf. Árið 1955 kom fyrsta Al-Anon bókin út og hlaut nafnið Al-Anon family groups
 
Árið 1957 eru deildirnar um eitt þúsund og á árinu er fyrsta Alateen-deildin stofnuð í Kaliforníu. Árið 1973 kom fyrsta Alateen bókin út sem heitir á frummálinu Hope for Children of Alcoholics. Árið 1986 eru Al-Anon og Alateen-deildirnar orðnar 27.000 talsins.
 
Árið 1986 deyr Anna og fjórum árum síðar Lois. Nú í ár eru Al-Anon deildir starfandi í 120 löndum og u.þ.b. 40 lönd eru hluti af alþjóðauppbyggingunni. Al-Anon lesefni er til á 30 tungumálum.
 
Á síðasta ári var haldinn 10. Alþjóðaþjónustufundur Al-Anon, IAGSM, í Essen í Þýskalandi, en hann er haldinn annað hvert ár. Alls tóku 20 þjóðir þátt. Ísland hefur alltaf sent fulltrúa á þennan fund.
 
Yfirskriftin var: Framtíð Al-Anon okkar ábyrgð og mig langar til að rifja upp það sem var efst á baugi á fundinum. Áhersla var lögð á einingu samtakanna um allan heim og mikilvægi þess að vera í sambandi við Alþjóðaþjónustuskrifstofuna (WSO). Mikið var rætt um stöðu Al-Anon í breyttum heimi nýrrar tækni, um mikilvægi erfðavenjanna til að viðhalda stöðugleika og að við þyrftum á þeim að halda meira nú en nokkru sinni fyrr. Áhersla var lögð á réttar þýðingar á lesefninu okkar, um ögrun forystunnar að góðir leiðtogar gleyma aldrei að þeir eru aðeins þjónar, opnir fyrir nýjum hugmyndum og leiðum til að koma boðskapnum á framfæri. Mikil áhersla var lögð á að þjónustuhugtökin væru notuð í þjónustunni og að það væri góður stuðningur við þá sem eru að byrja í þjónustu.
 
Mig langar að lokum að minnast á skýrsluna frá Alþjóðaþjónusturáðstefnunni (World Service Conference) 2001 sem haldin er á hverju ári og bar yfirskriftina Hope Begins with Me, eða Vonin byrjar með mér. Það er mjög margt áhugavert í þessari skýrslu, t.a.m. liður sem heitir „The Ask-It-Basket“, sem snýst um það að félagar á ráðstefnunni skrifa spurningar um hin ýmsu mál og setja í körfu. Síðan er unnið úr þessu og svörin birtast síðan í skýrslunni. Mér er ljóst að ef við höldum okkur fast við hinar þrjár arfleiðir Al-Anon samtakanna þ.e.a.s. reynslusporin, erfðavenjurnar og þjónustuhugtökin þurfum við engu að kvíða um framtíð Al-Anon.