Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi

Fyrsta sporið:
– og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi
Fyrsta orðið er við.  Fyrir mér þýðir það að ég er ekki ein, aðrir finna fyrir sömu tilfinningum og ég. 
Það er þess vegna sem við erum félagsskapur jafningja.  Annað orðið er viðurkenning.  Það þýðir að ég get hætt afneitun minni og viðurkennt að ég eigi í vanda með hegðun einhvers annars.
 
Næsta orð sem mér er mikilvægt er vanmáttur.  En sá léttir að vita að það er ekki ætlast til þess að ég viti alltaf svörin og að aðrir ráða ekkert betur við hlutina en ég.  Við erum félagsskapur jafningja, annarra sársauki er hvorki meiri né minni en minn.
 
Næst er að viðurkenna vanmátt minn gegn áfengi.  Ég hef aldrei skilið val Al-Anon á þessu orði; það er ekki áfengi, heldur alkóhólistinn sem ég varð að viðurkenna vanmátt minn gegn.  Það er alkóhólistinn sem ég elska og hef reynt að hjálpa.  Að viðurkenna vanmátt gegn áfengi er lykill alkóhólistans til bata.  Að viðurkenna vanmátt minn gagnvart alkóhólistanum er lykillinn minn til að hætta að reyna að stjórna annarri manneskju og sambandi okkar.  Það er ekki mín ábyrgð að halda sambandinu gangandi.
 
Mér var orðið um megn að stjórna eigin lífi og það var gott að eiga stað þar sem ég gat talað um þráhyggju mína.  Þó ég vissi betur hélt ég áfram að reyna að stjórna hegðun alkóhólistans.  Hvers vegna gerði ég hans líf að mínu fyrsta forgangsverkefni?  Ég mat sjálfa mig einskis, ég vildi bara að honum batnaði.  Ég hélt að hann myndi elska mig og fylla tómarúmið sem ég hafði fundið fyrir svo lengi.
 
Al-Anon er að kenna mér heilbrigðari leið til að elska – að elska sjálfa mig.  Ég byggi ekki lengur hamingju mína á því hvað önnur manneskja gerir eða gerir ekki.  Í gegnum Al-Anon geri ég mér grein fyrir því að ég er ekki misheppnuð þó að sambandi mínu við alkóhólistann hafi lokið.  Ég er sjálf einhvers virði.  Al-Anon kennir mér að sætta mig við sjálfa mig eins og ég er í dag, vitandi að ég er enn að þroskast.  Ég er komin lengra en sumir og styttra en aðrir, en ég er þar sem ég þarf að vera og ég er ekki ein.

 

Inda, Georgia U.S.A.
Forum í jan. 1995
Áður birt í Hlekknum með leyfi AFG Inc.
í sept.1995