Reynslusaga:
Ég lifði lengi í þeirri trú að ef ég bara næði að hagaræða hlutum nógu vel, ef ég gerði þetta, eða yrði aðeins meira svona eða hinsegin, þá myndi allt breytast og fólk myndi breytast.
En það skipti engu máli hvað ég gerði, ég sat alltaf eftir með sárt ennið og var úrvinda við það að reyna að breyta heiminum og laga hann að mínum óskum. Og aldrei kom útkoman sem ég vildi. Í Al-Anon heyrði ég að það væri til æðri máttur sem bæði gæti og vildi
gera mig andlega heilbrigða að nýju.
Í 3. sporinu kom að því að taka ákvörðun um að láta líf mitt og vilja lúta
handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi mínum á honum. Mér fannst mjög
ógnvænlegt að taka þessa ákvörðun í byrjun, því ég vissi ekki hvaða plan
Guð hafði. Var það jafngott og mitt plan? Hvernig gat ég treyst því að allt
yrði í lagi, ef ég setti þetta í Hans hendur? Sem uppkomið barn alkóhólista
þá hafði ég aldrei þekkt öryggi. Þannig að ég hafði búið mér til öryggi alls
staðar þar sem ég mögulega gat. Ég var hræðilega skipulögð og ég varð
að vita nákvæmlega hvað myndi gerast í dag, á morgun og eftir viku.
Og yfirleitt var ég alltaf með allan sólarhringinn fullhlaðin og passaði mig
á því að hafa ekki auða stund svo að ég þyrfti ekki að horfast í augu við
sjálfa mig. Ég vissi samt ekki að ég væri að flýja, ég hélt ég væri svona
dugleg og skipulögð. En þetta var eina öryggið sem ég hafði. Ég vissi
ekki að með þessu var ég líka að reyna að fela alla óreiðuna sem var
innra með mér. Með þessa frábæru skipulagshæfileika þá taldi ég
mig vera nokkuð góða í að stjórna lífinu og einkum lífi annrra, ég vissi
yfirleitt alltaf hvað var öðrum fyrir bestu. Vandamálið var bara það að
fólk vildi ekki gera eins og ég vildi.
Með því að taka þessa ákvörðun, að láta líf mitt og vilja lúta handleiðslu
Guðs, þá þýddi það að ég þyrfti að sleppa tökunum. Það var ekki auðvelt
en ég vissi að ég varð að láta reyna á það því mínar leiðir höfðu brugðist.
Mér fannst ég virkilega vera að taka áhættu en það var svo sannarlega
þess virði. Það sem að ég hef fengið með því að sleppa tökunum er svo
miklu betra heldur en það sem ég hafði. En ég hefði aldrei verið hæf til
þess að taka við því ef ég hefði ekki opnað mína krepptu lófa. Þetta kom
samt bara smám saman, en þegar ég fór að taka þessa ákvörðun á
hverjum degi þá fór líf mitt virkilega að breytast. Ég byrja hvern dag á
því að leggja líf mitt í hendur Guðs, eins og ég skil Hann, og ég hef
komist að því að Hann er svo miklu færari að sjá um það en ég.
Og Hans hugmyndir eru svo miklu betri en mínar. Hann vill mér aðeins
það besta, að ég sé hamingjusöm og frjáls! Hann læknar sárin sem ég
hef á sálinni og gefur mér gleði og frið. Ég fæ tækifæri til að deila reynslu
minni með öðrum. Ég hefði aldrei komist að því að lífið væri svona gott ef
ég hefði ekki gefið þessu tækifæri.
Trúnaðarkonan mín benti mér síðar á hvað mikið væri breytt hjá mér.
Ég var að fara burt af landinu, ég vissi ekki alveg nákvæmlega hvert en
ég vissi að Guð hafði áætlun og ég treysti Honum fyrir ferðinni. Þarna sá
ég að traustið mitt byggðist ekki á lengur á utanaðkomandi öryggi. Stundum
er drasl í fataskápnum eða skúffunum, og fyrir mig er það batamerki.
Því ég er búin að finna mitt innra öryggi sem felst í Guði, sem er innra
með mér og ég er að læra að treysta honum meir og meir. Hann er höfundur
lífs míns og reynsla mín hefur kennt mér það að Hann er sá sem ég á að leita
til þegar ég er búin að klúðra hlutunum, sem ég geri reglulega. Hann er alltaf
tilbúinn til að taka við því aftur og gefa mér það sem ég þarfnast. En það er
á fundunum sem ég er leidd aftur inn á brautina þegar að ég villist, Guð talar
mikið við mig þar og ég fæ að sjá kraftaverkin gerast hjá öðrum.
Stundum finnst mér erfitt að sleppa tökunum og treysta Guði, sérstaklega þegar
ég skil ekki alveg hvað er að gerast. En ég hef lært í Al-Anon að þá má ég sleppa
bara litlu í einu, einn dag í einu og stundum bara einn klukkutíma í einu. En með
því að sleppa tökunum þá er ég að opna hendur mínar og þá fyrst er ég fær um
að fá að taka við öllum gjöfunum sem Guð hefur handa mér.
Félagi