Þegar ég skildi sjúkdóminn

Ég er búin að vera í Al-Anon í 10 ár og hef verið í mikilli þjónustu og stjórnað fundum af röggsemi, verið deildarfulltrúi og fundist ég vera í Al-Anon af öllu hjarta. Fyrir svona 4 árum fór ég að hugsa um af hverju gekk hvorki né rak á mínu heimili í sambandi við drykkju,  og ég skildi ekki af hverju mér leið alltaf ílla. Ég var alltaf reið við manninn minn fyrir drykkjuna og gerði lítið úr honum í þynnkunni og fyrir framan aðra var ég íllkvittin. Ég gat samt ekki hugsað mér að skilja við hann, heldur vildi ég breyta honum í þann mann sem ég vildi að hann væri. Það sem ég átti svo erfitt með að berjast við var tilfinningin að hann væri aumingi og ræfill og ég var ekki tilbúin að samþykkja að hann réði ekki við þetta. Mér fannst að hann ætti bara að hætta þessu þó ekki væri nema fyrir það hvað hann elskaði mig mikið. Hann lofaði öllu fögru og einhver tími leið á milli þess sem hann datt í það, en hann var túramaður og alltaf varð ég jafn reið, reifst við hann fullan og jafnvel tók í hann af eintómri reiði.  
Á fundum var ég alltaf jafn dugleg að ráðleggja öðrum en sá svo á endanum að ég hafði ekki einu sinni stjórn á eigin lífi. Eitt sinn eftir langann tíma sem ekki var drukkið, kom ég heim úr vinnu. Ég var í ágætu skapi og það fyrsta sem ég sá þegar ég kom inn var maðurinn minn. Hann stóð við stofuborðið og ég sá strax að hann var byrjaður að drekka. Það helltist yfir mig alda vonbrigða og ég stóð smástund og horfði á hann. Allt í einu sá ég svolítið sem varð til þess að ég vissi hvorki í þennan heim né annan. Ég sá manninn minn jú slagandi þarna en ég sá líka svolítið annað, ég sá angist, ótta, sektarkennd og hróp á hjálp. Ég gat ekki hreyft mig og við horfðumst í augu augnablik. Allt í einu brast hann í grát og sagði “ Ég get þetta ekki , ég get þetta ekki, hjálpaður mér!”
Þá var allt í einu eins og opnuðust fyrir mér dyr skilnings í kollinum á mér. Ég sá allt í einu sjúkann mann sem hafði drukkið í kvöl, því hver hefur ánægju af að drekka einn á bak við lukta glugga í sólskini og þar fram eftir götunum.
Ég gekk til hans og tók utan um hann og skildi ekkert í mér, ég beið eftir reiðinni en hún kom ekki. Ég skildi allt í einu að maðurinn gat ekki stjórnað drykkju sinni frekar en ég lífi mínu. Hann yrði að vilja hjálp og þetta væri mikil vinna bæði fyrir alkóhólistann og aðstandandann.
Maðurinn minn drekkur ekki í dag, en það er það eina sem ég get vitað með vissu: Ekki í dag! Ég vona að ég standi við hliðina á manni mínum ef eitthvað kemur upp á og ég á alltaf Al-Anon að og við Al-Anon ætla ég að halda mig, bara fyrir mig.                            
                                 
Birtist áður í hlekknum mars 1993.