Oft á tíðum hefur mér opnast sýn á handleiðslu æðri máttar á óvæntan hátt og þannig lærst að hafa hugann opinn fyrir henni. Ég á marga bræður en aðeins eina systur. Því miður höfum við systir mín ekki verið í nánu sambandi í gegnum tíðina. Persónuleikar okkar virðast mjög andstæðir, en eitt eigum við þó sameiginlegt: Við giftumst báðar alkóhólistum.
Ég fann Al-Anon samtökin fyrir mörgum árum og reyndi um langt skeið að fá systur mína til að koma á fundi og tileinka sér hugmyndafræði Al-Anon. Það tók mig mörg ár að gera mér grein fyrir því að ég varð að leyfa henni að finna sér sína eigin leið í gegnum lífið, þótt það væri ekki Al-Anon leiðin. Samt sem áður stóð ég sjálfa mig oft að því að vera dómhörð gagnvart henni og reið vegna þess að hún vildi ekki sækja fundi. Ég hélt þó hugsunum mínum fyrir mig því að Al-Anon hefur kennt mér að vera kurteis og góðviljuð, jafnvel þótt mig langi ekki alltaf til þess.
Fyrir nokkru varð ég systur minni mjög reið vegna ákveðins atviks, og ákvað að hafa engin samskipti við hana um tíma. Í sömu viku neyddist ég til að tala við hana hvað eftir annað í síma vegna veikinda móður okkar. Svo fór að á endanum áttum við góðar samræður og ég þakkaði æðri mætti fyrir að hafa veitt mér þetta tækifæri.
Að undanförnu höfum við systir mín oftsinnis átt samskipti vegna brúðkaups í fjölskyldunni, veikinda móður minnar og annars. Ég held að minn æðri máttur hafi þannig á nýjan leik vísað mér veginn til að bæta samband okkar. Al-Anon leiðin hjálpar mér að sjá systur mína með opnum huga. Þegar ég umgengst hana nota ég slagorðin ,,Slepptu tökunum og leyfðu Guði”, ,,Góðir hlutir gerast hægt” og ,,Lifðu og leyfðu öðrum að lifa”.
Þegar við vorum saman síðast var dagurinn mjög tilfinningaríkur. Móðir okkar býr nú á hjúkrunarheimili og við systkinin urðum að skipta með okkur búslóð hennar að henni viðstaddri. Við systir mín og bræður áttum saman yndislegan dag. Návist Guðs var mjög áþreifanleg þegar við vorum að þessu, og ekki eitt einasta óvingjarnlegt orð fór á milli okkar. Á eftir kom systir mín til mín og faðmaði mig, en slíkt er mjög ólíkt henni. Hún sagði mér að hún elskaði mig. Ég var djúpt snortin og vissi samstundis að Guð var að verki í hennar lífi á eigin forsendum. Ég fann til djúps þakklætis fyrir að eiga samband við systur mína. Ég gerði mér grein fyrir því að ég veit ekki hvað henni er fyrir bestu í lífinu, en ég er þakklát fyrir að Al-Anon er hluti af mínu lífi.
Carol V., Iowa
VD þýddi úr The Forum June 2001
Al-Anon Family Group Headquarters, Inc., Virginia Beach, VA.