Jólin 2008 var ég í þeirri aðstöðu að eiga ekki fyrir öllum jólagjöfum. Ég hafði föndrað og prjónað gjafir. En þó vantaði mig að geta keypt nokkrar gjafir. Ég fór á minn fasta fund og það var sporafundur.
Þar sem þetta var í desember þá var fjallað um 12. sporið. Eftir að við höfðum lesið saman um 12. sporið í Leiðir til bata og leiðari hafði tjáð sig út frá því var komið að okkur að segja frá okkar reynslu af 12. sporinu. Þegar röðin kom að mér og ég byrjaði að tala um 12. sporið þá allt í einu fékk ég grátstafi í kverkarnar og baðst afsökunar á því að vera haldin svolítilli gremju. Ég væri eiginlega miður mín yfir því að eiga ekki fyrir jólagjöfum. Eftir að fundinum lauk og við höfðum faðmast í deildinni og félagar höfðu klappað mér á bakið og óskað mér alls hins besta í þessum aðstæðum, þá kom til mín kona, sem ekki var vön að stunda þessa fundi og sagði: ,,Ég fékk miklar gleðifréttir í dag, ég er orðin amma, dóttir mín hefur eignast dóttur, viltu labba með mér að næsta hraðbanka og mig langar til að gefa þér smá peninga fyrir jólagjöfum, ég vona að þú móðgist ekki við mig?” Á árum áður hefði ég verið svo stolt að ég hefði afþakkað en í Al-Anon hef ég bæði lært auðmýkt og gildi þakklætis. Hún gaf mér 10.000 kr. og fyrir þær gat ég keypt sex jólagjafir.
Þetta er sönn saga og ég hef því miður aldrei séð þessa konu aftur á fundi. Mig langar til þess að þakka henni. Ég bið ykkur öll að deila með mér þessari þakklætistilfinningu í anda jólanna.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og góðs bata á nýju ári.
Al-Anon félagi úr Reykjavík