Sérhver deild ætti að vera algjörlega á eigin framfæri

Vinnusmiðja um erfðavenjurnar árið 2006
Spurningar um sjöundu erfðavenjuna
Hér koma nokkrar spurningar sem félagar af Reykjavíkursvæðinu sömdu með hliðsjón af Al-Anon lesefninu Paths to Recovery (Leiðir til bata), Tólf erfðavenjur í máli og myndum og Al-Anon´s Twelve Steps & Twelve Traditions.
 
Þessar spurningar voru notaðar í umræðum á vinnusmiðju árið 2006 en eiga ekki síður við núna þegar umræðu er þörf um bágan fjárhag samtakanna.
 
 
 
Deildin:
1)     Er deildin mín fjárhagslega sjálfstæð og veit ég hvaða þýðingu hefur það fyrir deildina að vera fjárhagslega sjálfstæð?
2)     Þegar ég borga í pottinn hef ég í huga hvað kostar að halda fundinn og reka samtökin eða set ég alltaf sama hundraðkallinn af gömlum vana?
3)     Get ég hugsanlega lagt aðeins meira af mörkum vegna þeirra félaga sem hafa úr minna að spila?
4)     Geri ég mér grein fyrir því að það er hluti af tólfta sporinu að greiða í þakklætispottinn, því þannig stuðla ég að því að deildin og samtökin eru áfram til staðar fyrir þá sem þurfa á því að halda?
5)     Hefur deildin gjaldkera og gefur hann reglulega upplýsingar um stöðu deildarinnar og hvernig peningunum er varið eða er verið að safna í sjóð?
6)     Veit ég að samkvæmt samþykktum alþjóðasamtaka Al-Anon þá eiga deildir að eiga í varasjóð sem nemur þriggja mánaða húsaleigu og að deildin í anda tólfta sporsins lætur afganginn til þjónustuskrifstofunnar og þjónustugeira hennar?
7)     Hvernig styður deildin mín við þjónustuskrifstofu Al-Anon samtakanna á Íslandi? Viljum við bara fá þjónustuna en gerum okkur ekki grein fyrir því að það eru eingöngu fjárframlög deildanna ásamt bóksölunni sem fjármagna rekstur skrifstofunnar, borga laun starfsmanns, halda úti vefsíðu, renna til útgáfu lesefnis og fleira?
8)     Gerir deildin sér grein fyrir því að ef við höfum ekki starfandi skrifstofu á Íslandi að þá höfum við ekki lengur umsagnarrétt í alþjóðasamtarfi samtakanna?
9)     Hversu oft skiptum við um þjónustuhlutverk eða halda fáir einstaklingar uppi starfsemi deildarinnar?
10)Er gott að koma á fund og láta einhvern annan sjá um undirbúninginn?
11)Geri ég mér grein fyrir að það er tólfta spor að taka þátt í þjónustu deildarinnar minnar, á svæðinu og landsþjónustunni?