Sagan mín

Ég var 18 ára gömul þegar ég kynntist manni sem var og er alkóhólisti. Við það tók líf mitt stefnu sem mig hefði seint órað fyrir en það besta er að í dag er ég sátt við að hafa farið þessa leið.  Ég sá fljótlega að það var eitthvað bogið við neyslumunstur þessa manns. Hann drakk um helgar og ef hann sleppti úr helgi þá drakk hann í miðri viku. Hann notaði líka önnur fíkniefni í miklu mæli.  Hann breyttist mikið þegar hann var undir áhrifum, varð mikill skaphundur og þegar neyslan ágerðist fékk hann ofsóknaræði sem lýsti sér t.d. þannig að hann sat inn á gluggalausu klósetti með sólgleraugu og reykti hassið sitt.
Hann átti það til að hverfa í einhverja daga og munstrið var grátur og örvænting þar til ekkert var eftir nema þögn og kuldi. Oft hef ég velt fyrir mér afhverju ég entist þetta lengi.  Við því er ekki til neitt einhlítt svar nema að svona er sjúkdómurinn alkóhólismi. Hann endist og endist ef maður leitar sér ekki hjálpar.
 
Ég byrjaði mjög fljótt að vinna að því hörðum höndum að færa líf hans til betri vegar. Það gerði ég með því að kóa með honum hvenær sem hann þurfti á því að halda, fyrirgefa honum þegar hann kom illa fram við mig og refsa honum þegar hann þurfti á því að halda svo hann gæti haldið neyslunni áfram. Ég áttaði mig ekki á því að með þessu var ég aðeins að ýta undir neysluna en ekki draga úr henni. Fyrir mér var þetta óskiljanlegt og ef honum þætti vænt um mig gæti hann gert eins og ég vildi. Það var ósköp einfalt í mínum augum. Málið var að ég var með hans hegðun á heilanum og gleymdi að horfa á sjálfa mig. Ég upplifði sjálfa mig eingöngu sem fórnarlamb og fannst ég svo mikið eiga það skilið að hann hætti fyrir mig.
 
En ég veit í dag að alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur og hefur áhrif á a.m.k. þá nánustu sem eru í lífi alkóhólistans. Við vorum saman í 8 ár og þetta voru ansi erfið ár. Honum hélst illa á vinnu, fjármálin voru í miklu ólagi, við keyptum íbúð og seldum og keyptum aðra og seldum og leigðum og alltaf reglulega skildum við og tókum saman.
 
Hann fór í meðferð síðasta árið og þá fór ég á fjölskyldunámskeið og ég man hvað ég var hissa á sjálfri mér þegar ég fór að tjá mig þar.  Hvað ég var reið, hvað þessi reiði var mikið inní mér og hvað það var búið að vera erfitt að fela ástandið öll þessi ár. Því það gerði ég og fjölskyldan mín hefur í raun aldrei almennilega trúað mér þegar ég hef síðar verið að lýsa þessu tímabili í lífi mínu fyrir þeim. Það er auðvitað alveg eðlilegt því ég reyndi að halda andlitinu og fela allt eins vel og ég mögulega gat. Og það var vel gert!
 
Hann var aðeins edrú í nokkra mánuði og það haust lauk sambúðinni með því að ég fór til útlanda. Þá var ég þeirrar skoðunar að nú væri þessu alkóhóltímabili lokið og ég þyrfti ekki og það var í raun æskilegt í mínum huga að fara ekki á Al-anon fundi því nú var ég byrjuð nýtt líf! Það var mjög erfitt að ljúka sambandinu, það tók langan tíma og margar tilraunir voru gerðar en að lokum tókst það. En þá var ég ung kona á besta aldri! En stóð uppi með sjálfa mig, andlegt og líkamlegt hrak. En ég sá það ekki. Eina sem ég sá var að þetta var allt HONUM að kenna og ég var mjög reið.
 
Annað sem ég fann fyrir þegar ég var á fjölskyldunámskeiðinu var að ég upplifði létti þegar ég skildi fyrsta sporið : Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi. Ég skildi það að ég gat ekki lengur barist við neysluna og út frá því fór ég að sjá að eina leiðin fyrir mig var að skilja við hann, því hann var ekki þess megnugur að hætta – ekki einu sinni fyrir mig! Að mér væri orðið um megn að stjórna eigin lífi – það tók mig lengri tíma að skilja það.
 
Eftir að sambandinu lauk var ég ein í allmörg ár. Einhvern tímann á því tímabili fór ég að átta mig, þegar ég fór sjálf að gera mistök og ég hafði ekki hann til að benda á og segja: Þetta er honum að kenna. Það tók mig t.d. mörg ár að koma mér út úr fjárhagsvandræðunum og þrjóskan og stoltið tafði mig mikið.
 
Áður hafði ég eitt markmið, það var að gera hann edrú.  Nú hafði ég annað markmið, það var að forðast að kynnast öðrum alkóhólista. En einhverra hluta vegna hélt ég áfram að kynnast fólki sem á einn eða annan hátt tengdist alkóhólisma. Þetta var mikil togstreita í mér á tímabili og ég skildi ekki afhverju líf mitt gat ekki orðið bara,,normal”.
 
Ég kynntist síðan manninum sem ég er gift í dag, sem var (og er) minn besti vinur í þrjú ár áður en við fórum að vera saman. Hann er óvirkur alkóhólisti og var það þegar við urðum vinir. Það var ekki fyrr en við fórum að búa saman sem ég fattaði að ég var búin að burðast með fortíðina á bakinu allan tíman. Hann þurfti ekki annað en að koma korteri of seint heim þá var ég komin á hugarflug og í mínum huga breyttist þessi indæli góði maður í hinn og ég varð stjórnlaus og réði ekki við óttann.
 
Þá fór ég aftur á fjölskyldunámskeið og eftir það strax á Al-Anon fundi. Ég er fegin að ég fór strax að fara á fundi, ég fann að það var mikið í húfi og að ég gat ekki endalaust gert hlutina upp á eigin spýtur. Það var erfitt fyrst en samt ekki svo vegna þess að það var svo tekið vel á móti mér og ég fann strax fyrir hugarró og fannst ég vera komin á góðan stað – loksins.
 
Það eru sjö ár síðan og Al-Anon hefur hjálpað mér mikið. Í Al-Anon samhæfum styrk okkar, reynslu og vonir. Oft þegar ég hlusta á manneskju á fundum gæti ég eins verið að tala sjálf. Mér er sýndur skilningur og ég reyni að skilja aðra, það er ekki erfitt því við höfum flest upplifað hlutina svo líkt.
 
Ég fór á sporafundi fyrsta árið, sporin fengu mig til að skoða sjálfa mig betur og viðurkenna að ég átti stóran hlut að máli.  Ég veit í dag að ég ber sjálf ábyrgð á mínu lífi.  Ég hef tekið þá stefnu að gera Al-Anon hugmyndina að mínum lífsmáta og ég læri eitthvað á hverjum degi og ekki síst það að ég verð aldrei fullkomin. Ég set líf mitt í hendur guðs og þegar ég fæ óttaköst yfir því að eitthvað slæmt gæti komið fyrir bið ég æðri mátt um styrk. Þann styrk fæ ég ekki hvað síst á fundum.
 
Ég og maðurinn minn erum samhent í að reyna okkar besta til að gera AA og Al-Anon að lífsmáta fyrir okkur. Við umgöngumst ekki fólk sem ofnotar áfengi eða önnur vímuefni og veitum ekki áfengi heima hjá okkur. Ég er meðvitaðri um sjálfa mig og átta mig á því þegar ég dett í gamla pytti eða þegar gömul forrit í huganum mínum opnast. Ég hugsa oft að ef ég hefði ekki kynnst mínum fyrri manni, hefði ég ekki lifað það sem ég gerði, þá væri ég ekki þar sem ég er í dag: Í Al-Anon.
 
Bestu kveðjur
Gúrí