Ég kynntist Al-Anon samtökum fyrst fyrir um 10 árum. Þá stóð ég á tímamótum, ég var að skilja eftir 22 ára hjónaband. Maðurinn minn var farinn frá mér. Eftir stóð ég með sjálfmyndina í rúst, enga vinnu og var að missa húsnæðið mitt. Börnin mín þrjú voru 20 ára, 19 ára og 11 ára. Ég var full af gremju og sjálfsvorkunn og var sjálf í rúst. Þá var mér bent á Al-Anon samtökin, en var ekki búin að átta mig á að áfengi spilaði eitthvað inn í hvernig komið var. Ég lét til leiðast og fór á Al-Anon fund. Það var mér hrein upplifun. Þar áttaði ég mig á því að ég hafði alist upp við alkóhólisma, og að ég var fullorðið barn alkóhólista.
Þá fóru hjólin að snúast. Ég stóð ekki lengur ein. Ég byrjaði á því að fara á fjölskyldunámskeið og í framhaldi að því fór ég að stunda Al-Anon fundi. Í fyrstu var fundarsókn mín ansi slitrótt, ég var enn í bullandi vanlíðan og full af hroka og hleypidómum gagnvart öðru fólki. Ég var ekki tilbúin, ég beið eftir því að riddarinn á hvíta hestinum kæmi og bjargaði mér úr hörmungum mínum. Riddarinn kom til mín í formi Al-Anon sem benti mér á að það gat enginn hjálpað mér nema ég sjálf, krafturinn til þess var hjá mér sjálfri.
Það var erfitt verkefni að horfast í augu við mitt eigið sjálf og galla mína. Ég verð að vera á verði gegn sjálfréttlætingunni og hrokanum. Mér er það vel ljóst hversu auðvelt það er að finna sér afsakanir og kenna öðrum um eigin hrakfarir, sérstaklega alhólistanum.
Það varð breyting á mér þegar eldri sonur minn fór í meðferð, þá 24 ára gamall. Þá fékk ég annað áfall, mér fannst ég hafa brugðist honum sem móðir og ásakaði mig fyrir hvernig líf hans var orðið. Í dag veit ég betur; ég stjórna ekki drykkju annarra. En þá vissi ég hvert ég átti að leita og fór að stunda samtökin aftur að miklum krafti, í þetta skipti fann ég mig og hef stundað fundi óslitið síðan.
Samtökin hafa veitt mér mitt líf. Hér áður fyrr hafði ég ekki sjálfstraust – ég vissi ekki hvað sjálfsvirðing var. En undanfarin 10 ár hafa verið einu árin í lífi mínu sem ég hef ekki búið við virkan alkóhólisma. Í dag er ég ánægð með sjálfa mig, ég er í vinnu sem mér líður vel í og ég er virt fyrir það sem ég er og það sem ég geri. Lífið leikur við mig, ég er orðin amma og á tvö yndisleg barnabörn. Ég er þakklát samtökunum og nú er ég tilbúin að gefa til baka sem ég hef fengið. Ég byrjaði á sínum tíma í kaffiþjónustu og er enn annað slagið í kaffiþjónustunni, ég er deildarfulltrúi í minni deild, og sæki svæðisfundi fyrir deildina. Að auki er ég landsþjónustufulltrúi og sæki því landsþjónusturáðstefnu Al-Anon samtakanna sem er haldin árlega. Ég er stolt í dag yfir að vera félagi í Al-Anon samtökunum og ég vil þakka félögum mínun fyrir að hafa verið til staðar fyrir mig þegar ég var nýliði og þurfti á þeim að halda.
Hanna