Reynslusaga

Leið mín lá í Al-Anon fyrir allmörgum árum þegar ég fór á kynningarfund sem mér var bent á í framhaldi af fyrstu meðferð bróður míns.
 
Ég er uppkomið barn alkahólista og aðstandandi. Í kjölfar drykkju á heimilinu leið mér alltaf illa, fannst ég utangátta og passa hvergi inn í neinn félagskap. Ég var sífellt í feluleik og gat ekki treyst neinum að mér fannst og með tímanum skipti ég oft um vini og lenti í miður góðum félagsskap fyrir vikið. Kannski því þar var ekki gerð krafa um eðlileg samskipti og ég þekkti þannig aðstæður, vissi hvernig best væri að haga sér meðal þeirra. Að lokum fór svo að ég hóf sambúð með alkóhólista.
Sem góðum aðstandanda sæmir var ég dugleg að vinna og sjá um heimilið. Börnin fæddust og ég var alveg á fullu í að halda öllu eins „eðlilegu“ og hægt var. Ég taldi mér trú um að meðan ég leyfði ekki drykkju inn á mínu heimili væri allt í standi. Hugur minn var á sífelldu iði, ég var með hausinn fullan af því hvernig ég ætti að snúa mér í að fá hinn og þennan til að gera eins og ég vildi því mín leið var sú besta. Skyndilausnir voru í algjöru uppáhaldi „EF þetta væri nú svona eða hinsegin þá væri allt í lagi“. Með tímanum leið mér alltaf verr og verr. Ég var sem sagt með hausinn fullan af öðru fólki og með hnút í maganum af kvíða.
 
Eftir minn fyrsta fund fann ég fyrir miklum létti þegar ég áttaði mig á að ég var ekki sú eina sem leið svona, þarna var fullt af fólki sem upplifði sama óttann og vanlíðanina og ég. Þó svo ég fyndi að þarna væri leiðin til betra lífs gat ég ekki sett hrokann minn til hliðar og viðurkennt vanmátt minn. Ég tók bara til mín það sem mér fannst viðeigandi og passa við mig en aðallega voru það leiðir til að fá manninn minn til að hætta að drekka. Ég fór til hans og sagði honum að ég væri búin að fatta þetta allt saman „hann“ var ástæðan fyrir því hvernig aðstæður okkar voru og ég skrifaði vanlíðan mína á hann, alltaf að reyna að finna sökudólg. Það hlutverk sem passaði mér mjög vel var fórnarlambshlutverkið, aumingja ég.  Ég fór stopult á fundi og skildi sumt sem var sagt en sum hugtök var ég ekki að skilja en vildi ekki líta út eins og kjáni og fara að spyrja… allt hélt því áfram niður á við. Líkamleg einkenni voru löngu farin að gera vart við sig og sífelldur pirringur út í annað fólk varð til þess að ég fór að missa oftar og oftar stjórn á skapi mínu, blaðran sprakk og fólkið sem ég reiddist við vissi yfirleitt ekki út af hverju því ég talaði aldrei, heldur reiknaði með að fólk ætti að vita hvernig mér liði og hvað ég var búin að ákveða án þess að tala við viðkomandi.
 
Ein setning sem ég hafði heyrt var á þá leið „þegar fíflunum fer að fjölga þá er kominn tími til að líta í eigin barm“. Það gat ekki verið að allir sem ég hitti væru fífl með þann ásetning að láta mér líða illa. Ég fór að hugsa hvort það gæti verið eitthvað að hjá mér og löngunin til að líða betur fór að gera vart við sig. Á endanum ákvað ég að fara á Al-Anon fund fyrir mig og ég vissi að til að ná bata yrði ég að gefast upp og fylgja þeim leiðbeiningum sem reyndir félagar höfðu fram að færa. Ég keypti mér Einn dagur í einu og las á hverjum degi. Ég tók þá ákvörðun að fá mér trúnaðarkonu og fara alla leið. Ég fór á fundi út um allt til að finna deild sem mér líkaði og beið eftir því að einhver myndi bjóða sig fram til að vera trúnaðarkonan mín. Að lokum fann ég frábæra konu sem hentaði mér mjög vel. Hún lét mig kaupa sporabækurnar Leiðir til bata 1-12 og vinnan hófst fyrir alvöru. Ég hafði heyrt af fólki sem fannst erfitt að vinna sporin og ég hélt að það væri það líka. En það var svo auðvelt, ég náði fljótt góðum bata, kvíðinn fór og ég sá lífið í nýju ljósi. Um leið og ég fór að einbeita mér að mér og minni velferð gekk allt upp hjá mér ég öðlaðist sjálfsvirðingu sem ég hafði aldrei átt og lífið varð bara frábært og ég hætti að flækja hlutina og dvelja í fortíð og framtíð. Mér fannst ég finna virkilega til bata var þegar ég vann fjórða sporið og allir brestirnir mínir komu í ljós. Að vita hverjir brestirnir eru segja manni líka hverjir kostirnir eru og það voru allmargir kostir sem komu upp úr pokanum, fullt af hlutum sem ég hélt að ég ætti ekki til. Einnig þegar maður veit hverjir brestirnir eru gefur það tækifæri á breytingum. Bókin Leiðsögn til bata: fjórða spor Al-Anon gerði mér kleyft að átta mig á hvernig ég ætti að fara að því að vinna þetta spor og hvað ég vildi fá í staðinn fyrir brestina. Til dæmis breyttist sjálfsvorkunnin mín úr því að sjá bara hvað ég ætti bágt í það að geta þakkað fyrir það sem ég hef (sem er fullt þegar betur var að gáð) og sett mig í spor annarra og sýnt kærleika án þess að blanda mér í þeirra mál og taka ábyrgð á öðrum.
 
Oft þyrmir yfir mig og gamla vanlíðanin skýtur upp kollinum en þegar það gerist veit ég hvaða tæki ég hef til að laga það og nýti mér lesefnið óspart því það er ekki bara til að lesa einu sinni og muna alla ævi heldur er þetta handbækur eða leiðarvísir sem maður þarf að kíkja í þegar eitthvað bilar.
Í dag veit ég hver ég er og það er Al-Anon og lesefninu að þakka að ég get viðhaldið bata mínum og haldið áfram að lifa lífinu lifandi.
 
Félagi úr Al-Anon