Reynslusaga úr þjónustunni

Kæru félagar.
Þó ég hafi ekki séð það þá, var það engin tilviljun að ég leitaði til Al-Anon.
Mér var fylgt þangað af óþekktum mætti mér æðri.
 
Ég kom inn í deild sem var, að mér fannst vera full af ,,fullkomnu fólki” Mig langaði í það sem þau höfðu upp á að bjóða. Þar var mikið talað um sporin, lesefnið og einnig þjónustu. Ég fékk mér trúnaðarkonu sem ég nýtti mér óspart og það sem hún sagði að hefði gert sér gott  –  gerði ég!  Líka það að fara í þjónustu. Ég var mjög óttaslegin þegar ég hellti upp á fyrstu kaffikönnuna mína. Allt varð að vera fullkomið. Og allan fundartímann hugsaði ég ,,Ætli kaffið sé of sterkt, ætli það sé of þunnt” og ég reyndi að lesa í svip allra sem fengu sér bolla, sjálfstraust mitt var ekkert.
 
Tíminn leið hratt og ég fann mig tilbúna að taka að mér aðra þjónustu við deildina. Nú hef ég verið í allri þeirri þjónustu sem deildin mín hefur haft.  Ég hef víkkað skilning minn á Al-Anon í heild með því td. að fara reglulega á fundi í öðrum deildum.
Svo var ákveðið að hafa svokallaða ,,bókaveru” þjónustu í deildinni minni. Ég tók það að mér og lagði leið mína á skrifstofuna okkar. Þar var mér tekið mjög vel af starfsmanni og við spjölluðum saman í dagóðan tíma og meðal annars var nefnt við mig  að gerast sjálfboðaliði. Ég var nú ekki enn viss um ágæti mitt en það ómaði stöðugt í huga mér ,,Stígðu í óttann” svo að ég tók vel í það og setti mig inn í samstarfið.
 
Það sem ég fékk að læra sem sjálfboðaliði var ómetanlegt,  að mér væri treyst og að ég gæti treyst öðrum.
 Að allir væru jafnir í Al-Anon, enginn væri mér æðri nema æðri máttur.  Ég sá mér færi á að gefa til baka til samtakanna sem höfðu bókstaflega bjargað lífi mínu.
Ég er mannleg og hef lært í gegnum þjónustu í A.-Anon að það er í lagi að gera mistök á meðan ég læri af reynslunni, viðurkenni mistök mín og einsett mér að endurtaka þau ekki.
Á meðan ég lifi í heiðarleika og hef æðri mátt með mér eru mér allir vegir færir.
 
Nefndir eru eitt af mikilvægustu verkfærum Al-Anon samtakanna. Þær eru mikilvægur hlekkur til að koma á framfæri skoðunum félaganna. Þrátt fyrir mismunandi reynslu nefndarfélaga hafa allir jafnan rétt til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa jafnan atkvæðisrétt. Allir nefndarfélagar eru ábyrgir fyrir að láta skoðanir sínar í ljós og koma með tillögur. Samvinna er ábyrgð allra nefndarfélaga á meðan þeir sinna þjónustunni.
Ég finn til mikils þakklætis fyrir það sem Al-Anon er að gera fyrir mig. Til að sýna þakklæti mitt fyrir þessa gjöf tek ég á mig vissa ábyrgð: Að vinna og lifa í reynslusporunum, erfðavenjunum og þjónustuhugtökunum.
Einn megintilgangurinn í Al-Anon er að endurvekja sjálfstraustið og það hef ég gert. Ég hef byggt upp sterkari og betri persónuleika með því að sjá mig eins og ég er í raun og veru, og að koma auga á kostina mína. Ég hef lært að gagnrýna ekki aðra og ég hef lært ,,að lifa og leyfa öðrum að lifa.” Og uppáhaldið mitt ,,Eymd er valkostur”
 
Al-Anon félagi.