Raddir fortíðar

Þegar ég óx úr grasi var drukkið á mínu heimili, eins og mörgum öðrum. Foreldrar mínir gerðu sitt besta til að sinna mér eins vel og þau gátu. Oft á tíðum þegar ég tjáði mig um eitthvað óþægilegt eða sagði eitthvað sem ekki hentaði þá sögðu þau við mig ,,hvaða vitleysa….“ og ,,láttu ekki svona….“ eða ,,æ góða slakaðu á…“.
Nýlega áttaði ég mig á þessum svörum því ég fæ þau stundum enn í dag þegar ég, fullorðin kona, reyni að tjá mig um það hvernig mér líður eða eitthvað sem þeim finnst óþægilegt. Ég varð reið þegar ég áttaði mig á þessu því ég upplifði höfnun og þessa yfirþyrmandi tilfinningu að hafa ekki rödd sem má heyrast. Ég er svo heppin að hafa sótt fundi í Al-Anon í nokkur ár og þar veit ég að mín rödd er alveg jafn mikilvæg og annarra. Þar að auki er ég með trúnaðarkonu sem er alltaf tilbúin að hlusta á mig. Ég veit að Al-Anon félagarnir, trúnaðarkonan og æðri máttur samþykkja mig eins og ég er og hlusta á mig. Og ég læri að hlusta á móti. Ég læri gagnkvæma virðingu.
            Fyrir nokkrum vikum gerði ég enn eina uppgötvunina þessu tengdu. Oft þegar óvæntar tilfinningar blossa upp innra með mér, sem mér finnast jafnvel óþægilegar, segi ég við sjálfa mig ,,hvaða vitleysa….“ og ,,láttu ekki svona….“ eða ,,æ góða slakaðu á…“. Ég afneita tilfinningum mínum og sjálfri mér í staðinn fyrir að samþykkja þær og hlusta af virðingu. Ósjálfrátt hef ég notað raddirnar úr fortíðinni þegar ég tala við sjálfa mig. Því meira sem ég leyfi þessum röddum að hljóma því meira byrja ég að efast um sjálfa mig og setja sjálfa mig til hliðar. Sem betur fer hef ég áttað mig á þessu og get, með hjálp Al-Anon, stöðvað þessar raddir og breytt þessum ósjálfráðu viðbrögðum. Smám saman læri ég að bera virðingu fyrir sjálfri mér og hlusta á tilfinningar mínar, mína innri rödd.
 
Þakklátur Al-Anon félagi úr Kópavogi