Nýliði í Al-Anon

 
Ég hef ekki verið í Al-anon lengi. Rétt rúma þrjá mánuði. En þessir þrír mánuðir eru dýrmætari fyrir mig en mig hefði nokkurn tíman geta grunað.
 
Ég held að ég hafi alltaf verið frekar stjórnsöm, alveg síðan ég man eftir mér, allavega var mér sagt um daginn að ég hefði fæðst stjórnsöm. Sem er kannski allt í lagi og það hefur nú alveg hjálpað mér helling líka. Spurningin er bara kann ég að stjórna stjórnsemini?? Eins fáránlega og það nú hljómar.
 
Ég ætlaði aldrei í Al-anon, mér fannst það eitthvað það vitlausasta sem nokkur gat gert. Að fara í gegnum einhvern 12 spor, til hvers? Getur fólk ekki bara tekið á sér sjálft og hjálpað sér án þess að fara í gegnum einhver 12 spor? Þetta var hugsun mín og ég þakka fyrir það á hverjum degi að þessi hugsun hefur breyst þvílíkt.
 
Ég fann botninn minn. Þegar ég var á mínum botni talaði ég við góða konu og sagði henni frá hvernig ástandið væri búið að vera. Hún sagði við mig, “þú ert heppin, heppin að ganga í gegnum þetta”. Ég er nú ekki ofbeldishneigð manneskja, en mig langaði að kýla hana. Var hún ekki að hlusta á það sem ég sagði? Heyrði hún ekki um það hvernig ég væri búin að vera að ganga í gegnum helvíti með alkahólistann í mínu lífi? Ég gat ekki séð að ég væri neitt séstaklega heppin með það. Þá sagði hún við mig: “þú sérð það bara seinna”. Og þar með var því samtali lokið. Eins reið og bitur og ég var þá hugsaði ég nú samt rosalega mikið um þetta. Er ég heppin? Gat ekki séð það samt. Einn daginn vaknaði ég og hugsaði mig vel um hvort mér vildi ég alvöruni líða svona. Ég áttaði mig á því að hugsanlega gat ég ráðið því hvernig mér leið. Ég settist við tölvuna og googlaði æðruleysisbænina. Ég hafði marg oft lesið æðruleysisbænina og hún hreyfði aldrei neitt séstaklega við mér. Mér fannst þetta nú bara einhverjir stafir á blaði sem væru ekki neitt merkilegir. En í þetta skiptið gerðist eitthvað. Ég las bænina og ég fann eitthvað. Fann eitthvað inn í mér sem skynjaði bænina. Þarna varð ég fyrir einhverskonar upplifun. Upplifun sem ég verð æfinlega þakklát fyrir.
 
Daginn eftir dreif ég mig á Al-anon fund. Ég fór á nýliðafund og hélt að ég yrði ekki deginum eldri þetta tók svo á. Allir að tala um tilfinningar sínar, allir svo opnir og það sem kom mest á óvart, ég tengdi við sögurnar. Eins erfiður og mér fannst þessi fundur þá ákvað ég nú samt að fara á fleiri.
 
Loksins kom að því að ég þorði aðeins að tjá mig á einum nýliðafundinum. Leið og ég byrjaði að tala hélt ég að ég myndi deyja. Ég roðnaði í klessu og hélt ég væri bara komin með hita! Eftir þennan fund hugsaði ég, okei, ég get ekkert talað á svona fundum ég roðna bara og verð geðveikt asnaleg og fólk bara heldur að ég sé einhver fábjáni. Þá tók ég ákvörðun um að ég skyldi bara hlusta það sem eftir var. Fljótlega langaði mig nú samt að tala, ég hugsaði mig um hvernig ég ætti eiginlega að gera það, jáá!! Ég meika mig bara geðveikt mikið!. Þá sér enginn hvað ég er asnaleg þótt ég roðni. En ég gerði það nú ekki heldur fór bara á fleiri fundi. Eftir því sem ég fór á fleiri fundi þá fattaði ég það að við erum öll þarna á sömu forsendum, allir hafa einhvetíman verið nýjir, hræddir, rauðir og sveittir. Og öllum er alveg sama. Al-anon félögum mínum er alveg sama þó ég roðni, svitni, stami eða gráti. Fólkið er komið þarna saman til að hjálpa öðrum og fá hjálp. Ég fór að hugsa þetta aðeins út frá sjálfri mér og þegar einhver er að tala sem að roðnar, fer að gráta eða stamar af hræðislu, hugsa ég ekki, hey hvað er að þessum… heldur vá! Hvað þessi er hugrakkur, vá hvað þessi er flottur að geta miðlað reynslu sinni, tilfinningum og löngunum með okkur hinum. Hann er að hjálpa okkur og sjálfum sér um leið.
 
Þegar allt þetta rann upp fyrir mér, hvað ég á góða félaga í Al-anon, þá sá ég það. Ég er heppin. Eins mikið og mig langaði að kýla þessa ofur jákvæðu konu sem sagði að ég væri svo heppin, þá sá ég það þarna. Með því að fara á minn botn þá varð ég heppin, ég fann Al-anon og fyrir það á ég engin orð sem geta þakkað fyrir það nógu mikið.
 
Reynsla mín af Al-anon hefur breytt mér og bætt mig. Ég þori kannski bráðum að fara að tjá mig aðeins meira. Því allir þurfa að tjá sig, en það er líka allt í lagi að það taki tíma.
 
En ég segi það bara enn og aftur, ég er heppin og ég er þakklát. Kærleikurinn sem á sér stað á Al-anon fundum er ólýsanlegur.
 
Takk fyrir ykkur kæru Al-Anon félagar!