Nú get ég sleppt tökunum

Saga uppkominnar dóttur alkóhólista:
– æðruleysið er ómetanlegt
Ég kynntist Al-Anon fyrst fyrir mörgum árum, þegar ég fór á fund með vinkonu minni sem átti kærasta sem drakk.  Mér fannst ég ekki eiga heima þarna því að faðir minn drakk ekki og hafði ekki drukkið þegar ég bjó hjá honum áður en hann og móðir mín skildu.  Ég skildi ekki að ástandið sem ég hafði alist upp í var mjög alkóhólískt þó að ekki hafi verið drykkja og ég var mjög hugsjúk, með slæm viðbrögð og ekki minnsta vott af æðruleysi eða trú á nokkurn æðri mátt.  Ég trúði á sjálfa mig og það sem ég gat, en það hafði samt sem áður ekki skilað mér góðri líðan.  Ég var reið inní mér og ósátt við margt.  Ég gerði mér ekki grein fyrir að það var ekki ég sem átti að bera ábyrgð á heiminum og öllum í kringum mig.
 
Ég reyndi að stjórna móður minni og bróður og varð reið og sár þegar þau gerðu eitthvað sem mér fannst þau ekki eiga að gera.  Ég þóttist gera allt rétt þar sem ég fór að lögum, reyndi alltaf að vera duglegri en allir í kringum mig, sparaði peningana mína vel og fékk háar einkunnir í skóla, þar sem ég mætti vel og gerði heimalærdóminn minn samviskusamlega.  Metnaður minn var mjög mikill og vonbrigðin mikil þegar mér fannst ég ekki standa mig eða ef ég gerði mistök.  Einnig var ég erfið í samskiptum við mína nánustu, var oft leiðinleg í tilsvörum, dómhörð og kom illa fram. 
 
Ég ákvað um tvítugt að hefja störf hjá föður mínum, eftir nokkuð erfið samskipti við hann á unglingsárum mínum.  Ég ákvað að gera mitt besta og aðeins betur til að láta hann verða stoltan af mér.  Eftir nokkur mislukkuð ástarsambönd á unglingsárunum kynntist ég að lokum óvirkum alkóhólista sem mér fannst hafa mikið til brunns að bera auk þess sem hann hafði alla þessa reynslu úr AA samtökunum.  Þetta hlyti að vera fullkomið.  Ég ákvað að vera góð við hann og gera allt til þess að láta þetta samband ganga.  Ég var í algjöru þjónustuhlutverki eins og ég var í vinnunni, enda fannst mér það eðlilegt.  Það hlyti að vera eina aðferðin til velgengni eins og ég sá hjá föður mínum og konu hans, en mér fannst sem hún væri hugur hans að öllu leyti og hann elskaði hana mikið. 
Eftir að það fór að halla á ógæfuhliðina í sambandinu þá benti kærastinn minn sagði mér að ég væri stórkostlega sjúkur aðstandandi föður míns og benti mér á að fara í Al-Anon.  Ég þóttist fljótt skilja það að ég væri ekki komin þangað til að halda einhverjum edrú, en ég gæti samt sem áður breytt mér til betri vegar, fyrir kærastann.  Þá væri ég fullkomin að þessu leyti sem öðru og þá hlyti ég að vera hamingjusöm.  Mér leið illa í sambandinu mínu og skildi ekki af hverju því mér fannst ég gera mitt besta, til að hann yrði hamingjusamur.  Þegar á leið fylltist ég smám saman óstjórnlegri reiði og illsku út í manninn sem endaði með skilnaði.  Ég hafði gleymt sjálfri mér. 
 
Þegar ég að lokum skildi að ég var í Al-Anon fyrir engan nema sjálfa mig og ég þyrfti að ná árangri svo að mér liði sjálfri betur, þá loksins fór mér að ganga betur, skref fyrir skref.  Ég þarf heldur ekki að vera eins og aðrir vilja að ég sé, heldur eins og ég sjálf vil. 
 
Ég hef verið mjög kröfuhörð við sjálfa mig, með algjöra fullkomnunaráráttu og liðið hryllilega illa oft undanfarin ár.  Ég hef staðist illa tilfinningalegt álag, auk þess að vera þunglynd, áhyggjufull, móðursjúk og oft virkilega í nöp við sjálfa mig.  Síðast en ekki síst hefur mér gengið mjög vel að kenna öðrum um líðan mína, vegna þess að ég gerði ,,aldrei“ neitt rangt.
 
Síðan ég kynntist Al-Anon hef ég lært margt gott þar, m.a. það að þykja vænt um sjálfa mig, að ég eigi tilverurétt eins og ég er þó ég sé ekki fullkomin.  Sjálfri mér og öðrum getur þótt vænt um mig þó ég sé ekki fullkomin og eins getur mér þótt vænt um aðra þrátt fyrir þeirra ágalla.   Ég hef lært að æðruleysi er ómetanlegt og það besta sem ég hef kynnst.  Með því að læra æðruleysi er hægt að vera hamingjusamur þrátt fyrir að heimurinn sé ekki alveg eins og maður vill.  Ég er komin í sambúð með manni sem er ekki alkóhólisti og er mjög góður við mig og ég þarf að læra alveg upp á nýtt að vera góð við hann og láta hann ekki gjalda fyrir allt það sem mér hefur fundist vera gert á minn hlut í fortíðinni.  Ég get einungis breytt sjálfri mér og viðbrögðum mínum, en ekki hvernig aðrir eru, þó svo að þeir geri hluti sem mér líkar ekki og þeim líður jafnvel sjálfum illa með.  Ég hef lært að slaka á og reiðast sjaldnar, ég hef lært að fólk sem er ólíkt mér er yndislegt, en ég er það líka sjálf.  Ég er ekki fullkomin í þessu frekar en öðru, en ég kemst í gegnum einn dag í einu og tek örstutt skref í átt að betri líðan.  Og það besta er að nú veit ég að ég á von og ég get sleppt tökunum og leyft Guði.  Það hefur hjálpað mér að ganga í gengum þá erfiðleika sem ég hef staðið frammi fyrir undanfarið, því jú, lífið er fullt af hindrunum og það breytist aldrei. 
 
Ég þakka Al-Anon samtökunum þá breytingu sem þegar hefur orðið á lífi mínu og þá von sem ég hef um áframhaldandi og sífellt betra líf.  Ég veit ekki hvar ég væri stödd ef ég hefði ekki kynnst þeim.
 
– Elín