Mögnuð lífsreynsla

5. sporið:
Reynslusaga félaga
 
EFTIR AÐ ég lauk við fjórða sporið lagði trúnaðarkona mín til að við dveldum við það spor
stutta stund áður en við hæfumst handa við fimmta sporið. Hún sagði að við gætum unnið
fimmta sporið á hvern þann máta sem ég vildi. Hún sagði mér frá nokkrum aðferðum sem
hún hafði beitt til að vinna fimmta sporið með öðru fólki. Ég ákvað að vinna fimmta sporið
með því að lesa fjórðasporsuppgjörið fyrir hana, einn hluta í einu. Við hittumst vikulega í
eina til tvær klukkustundir. Við héldum þannig áfram uns ég hafði loks lesið allt uppgjörið
fyrir hana.
 
Ég upplifði margs konar tilfinningar á þessum vikum sem ég las upphátt og deildi reynslu
minni með trúnaðarkonunni minni. Stundum var ég spennt á taugum þegar ég fór heim,
fannst þyrma yfir mig eða var ringluð. Stundum fann ég til léttis eða undrunar. Ég hafði
varið mörgum árum í það að leita mér hjálpar hjá fagfólki en ég hafði aldrei fundið svona
mikið persónulegt samþykki og stuðning. Ég gat ekki trúað því að nokkur gæti, án þess að
fá greitt fyrir það, varið svo miklum tíma með mér án þess að fara að dæma mig, gagnrýna
eða láta í ljós skoðun sína. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fann skilyrðislausa ást. Ég vildi borga
trúnaðarkonunni fyrir allan þann tíma sem hún hafði gefið mér. Ég vildi bjóða henni út að borða eða kaupa handa henni gjöf en ég áttaði mig á því að slíkt var ekki nauðsynlegt. Reynsla mín af fimmta sporinu sannaði fyrir mér hvað það er sem Al-Anon snýst um – að gefa án þess að búast við ákveðinni útkomu, að hlusta og vera til staðar fyrir aðra manneskju sem er að læra að feta Al-Anon leiðina.
 
Ég er enn að læra af þessari mögnuðu reynslu um meginþætti bata míns – um þolinmæðina,
dómhörkuna, einangrunina og aftenginguna. Hún færði mér meiri þolinmæði og samþykki á
öðru fólki auk þess sem ég náði sífellt meiri sátt við sjálfa mig. Hún kenndi mér að leita til
annarra; hvernig ég get deilt mínum málum og tilfinningum með öðrum. Hún kenndi mér að
þróa dásamlegt samband við æðri mátt, sem ég kýs að kalla guð. Ég næ miklu betri tengslum
við annað fólk. Ég get leyft öðrum að lifa sínu lífi án þess að gefa þeim ráðleggingar, jafnvel
þegar þeir standa frammi fyrir miklum erfiðleikum eða hugsanlegri hættu á heimilinu.
Þegar mér finnst ég hafa staðnað, finn fyrir reiði eða er ringluð, þá vinn ég fjórða sporið.
Það hjálpar mér að finna minn þátt í ringulreiðinni. Með aukinni reynslu og tíma kemst ég
að því að fjórða og fimmta sporið hjálpa mér að sætta mig við alla þá mannlegu eiginleika
sem ég og allir aðrir búa yfir. Ég finn til öryggis og léttis við að láta af fullkomnunaráráttunni
og leyfa mér í auknum mæli að vera mannleg. Ég veit að guð mun sýna mér svörin. Ég þarf
ekki lengur að halda að ég sé ein á nokkru sviði lífs míns. Al-Anon gaf mér andlegan grunn
að bata þegar ég vann fjórða og fimmta sporið. Þau færðu mig í átt að andlegri vakningu minni.        
 
 
 Leiðir til bata 4.-6. spor, bls.23-24