Hvernig mér tókst að hætta að falla fyrir ofbeldisfullum alkóhólistum
Í fjallahlíðum Austur-Tennessee bjó tvenns konar fólk: Hinir virtu meðlimir samfélagsins sem unnu hörðum höndum, gættu heimila sinna og fóru í kirkju á hverjum sunnudegi. Hinir voru aumar sálir sem voru dæmdar til vítisdvalar vegna drykkju og syndsamlegra lifnaðarhátta.
Þegar ég lít til baka þá er ég viss um að þeir sem mörkuðu línuna milli þessara tveggja samfélagshópa voru þeir sem voru bestir í að fela leyndarmál sín. Leyndarmál fjölskyldu minnar voru vel falin.
Ég á góðar minningar frá uppvaxtarárum mínum. Pabbi vann mikið alla vikuna, samdi lög, spilaði á gítarinn og söng með kórnum á sunnudögum. Við fórum í kirkju, ég var hamingjusöm í minni barnalegu fávisku og í sinni daglegu, þokukenndri pilluneyslu beygði mamma sig undir stjórnsemi pabba.
Ég var sannfærð um að líf mitt yrði fullkomið, ég gat ekki beðið eftir því að verða fullorðin.
Ég giftist bílstjóra skólarútunnar áður en ég lauk framhaldsskóla. Mig langaði til að flytja til borgarinnar, eignast eigið líf og lifa í minni draumaveröld. Hann var svarið við draumum mínum.
20 árum og tveimur börnum síðar var hjónabandinu lokið. Ekkert hafði undirbúið mig undir það áfall að missa manninn minn til annarrar konu.
Ég var uppfull af sektarkennd og skömm. Ég reyndi að berjast fyrir sjálfa mig, það var jú hann sem hafði brotið af sér, ég var fullkomin.
Eftir skilnaðinn fór hann til hinnar konunnar og ég horfðist í augu við kaldan, tekjulausan raunveruleikann. Ég lærði að lifa af.
Ég breytti húsinu mínu í veitingastað fyrir ferðamenn sem komu til að upplifa fegurð fjallanna. Ég fékk tekjur af því að bjóða upp á heimalagaðan mat og brosa þar til mig verkjaði í andlitið. Ég var of önnum kafin til að finna til.
Dag einn kom bjargvætturinn minn inn um dyrnar. Ég leit á þennan myndarlega mann og vissi að ég gæti gert hann að mínum draumaprinsi. Hann sagði mér hvað ég væri sexí. Lífið var vissulega að ganga upp! Við giftumst.
Sjö árum síðar var ég á flótta til að bjarga lífi mínu. Barsmíðarnar og áverkarnir þróuðust yfir í það að hann elti mig með hlaðna byssu og hótaði að brenna ofan af mér húsið ef ég liti nokkurn tímann á annan mann. Ég vissi aldrei hvað yrði til þess að hann missti næst stjórn á sér.
Þegar hann róaðist gaf hann mér blóm.
Áráttan mín var að „gera hvað sem var“ til að hann yrði hamingjusamur. Ég fór með honum og fylgdist með honum daðra við aðrar konur og kyssa þær – fyrir framan mig. Ég var lamin ef ég sagði eitthvað.
Kvöld eitt horfði ég á ofsareitt andlit mitt í speglinum og þekkti ekki sjálfa mig. Ég var að missa vitið við að slást við hann og hárreita.
Lögleglan ráðlagði mér að fara áður en hann dræpi mig. Ég pakkaði einhverju smálegu niður og fór í vesturátt. Strit mitt á veitingastaðnum mínum, lífið mitt, heimili mitt, allt var í rúst og ég var blönk.
Góð vinkona mín ráðlagði mér að koma á Al-Anon fund. Hún hafði séð áverkana á mér, skömmina og vanlíðanina.
Ég fór að ráðum hennar og gekk inn í hóp ókunnugra sem hjálpuðu mér að snúa við blaðinu og hefja nýtt líf.
Eftir að hafa sótt þrjá fundi á viku og grátið mig til baka til einhvers konar heilbrigðrar skynsemi ákvað ég að fara heim. Líf mitt var í rúst en ég hafði í það minnsta fengið einhverja sjálfsvirðingu, hugrekki og von.
Maðurinn minn hafði skilið við mig og gifst annarri – það var þó eitthvað sem var mér í hag.
Ég vissi að ég gæti ráðið við lífið mitt núna. Einn dans enn með myndarlegum ofbeldismanni þurfti samt til að kenna mér að hætta að ásaka alkóhólistann og snúa athyglinni að mér og hvers vegna ég héldi áfram að lenda í sömu aðstæðum í lífinu.
Í fjórða spors vinnunni hef ég verið að horfa á hin vel geymdu leyndarmál ættarinnar. Nokkrir hugaðir fjölskyldumeðlimir eru reiðubúnir að draga beinagrindina út úr skápnum í þágu sannleika og skilnings.
Þetta eru sársaukafull spor fyrir mig en ég reyni eins vel og ég get.
Ég vakna snemma á hverjum morgni og les Al-Anon efni, læri meira um sjálfa mig; læri að meta og virða sjálfa mig og lífsleið mína án þess að fyllast sekt eða skömm. Ég er að finna mína leið. Ég er hætt að leika Guð, bæði í mínu lífi og í lífi annarra.
Í dag hef ég eitt markmið: Einn dagur í einu – æðruleysi og friður, minna af drama og spennu.
Ég hef verið þakklátur meðlimur í Al-Anon í þrettán ár. Ég á heima með fólki sem gerir líf mitt innihaldsríkara og uppörvandi.
Loksins hef ég fundið týnda hlekkinn í andlegum grunni lífs míns: Minn Æðri mátt og væntumþykju Al-Anon fjölskyldunnar minnar.