Meira virði en…

Reynslusaga um sjálfsmat
Ég gægðist fram á tröppurnar á bak við pilsfald móður minnar þar sem ég horfði á tvö lögreglumenn halda föður mínum á milli sín. Hann var afar illa til fara, blóðugur, óhreinn og angaði af vínanda, virtist reiður, barðist um og reyndi að losa sig sem gekk ekki í þetta sinn. Þeir spurðu hvort móðir mín vildi fá hann inn eða hvort þeir ættu að taka hann með sér aftur. Hún bað þá að fara með hann og við það ærðist faðir minn enn frekar. Stóri bróðir minn tók við áfengisflösku af hendi lögreglumannsins og fleygði henni út á nærliggjandi brunn þar sem hún brotnaði með hvelli í þann mund sem lögreglubíllinn ók á braut. Á þessari stundu (þá 6 ára) tók ég ákvörðun fyrir lífstíð ,,ég ætla aldrei að drekka“, hét ævarandi aðskilnaði mínum við áfengi.
Það var ekki fyrr en ég var orðin 48 ára, þá komin í Al-Anon að vinna 4. spor að ég áttaði mig á að ég var í raun bundin flöskunni tryggðarböndum þótt það væri á allt annan hátt en alkóhólistinn er. Ég hafði lært að meta sjálfa mig í samanburði við flöskuna. Ástríkur, skemmtilegur og sjúkur faðir minn valdi ávalt að fara í áfengisbúðina með launin sín og drekka sig dauðadrukkinn fyrir hverja helgi, á meðan fjölskyldan beið (fjögur systkinin) eftir honum og e.t.v. að fá eitthvað gott að borða. Í síendurteknum vonbrigðum hafði ég ómeðvitað fengið þá niðurstöðu að ég væri minna virði en flaska. Í fjórða sporinu þarf maður að skoða skapgerðarbresti og kosti sína með því að horfa á hegðun sína og líðan. Ég strandaði alltaf á því að ég brást sjálfri mér hvað eftir annað og varð að leita ástæðu þess. Það var alveg sama hversu oft ég reiknaði dæmið ég fékk alltaf sömu niðurstöðu þangað til ég áttaði mig á að ég var ekki með réttar breytur í dæminu. Nú er ég búin að taka flöskuna út úr formúlunni. Þá velti ég því lengi fyrir mér hvað ég ætti að setja í staðinn, hvaða samanburð ætti ég að nota í staðin fyrir flöskuna. Eftir mikla yfirlegu, spjall við trúnaðarkonu, félaga og æðri mátt þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég á ekki að nota neitt/neinn til samanburðar. Nú veit ég að það er alveg sama hvað ég set í staðin fyrir flöskuna ég verð alltaf meira virði en það. Í fjórða sporinu lærði ég að horfast í augu við og njóta þessa að verðmæti mitt er ósamanburðarhæft og óendanlegt. Í þessu ljósi lifi ég nú hvern dag í einu og er ég ótrúlega þakklát fyrir þetta frelsi og að fá að njóta þess. Gott að fá að gefa þetta áfram til ykkar.
 
Þakklátur Al-Anon félagi.