Bréf frá móður:
Kæru Al-Anon félagar.
Ég sit ein með penna í hönd og veit ekki hvar skal byrja en þegar ég hugsa mig betur um held ég að best sé að byrja á byrjuninni. Það var seint um vetrarkvöld sem ég sá son minn drukkinn í fyrsta skipti. Mér brá mjög. Hann var illa drukkinn og kaldur. Hann hafði sofnað í snjóskafli. Vinur hans kom honum heim, ég hlúði að honum og vakti yfir honum alla nóttina. Ég var óttaslegin og hugsaði um hvað hefði getað gerst. Ég var ein heima, pabbi hans var fjarverandi vegna atvinnu sinnar. Mér er þessi nótt alltaf föst í minni. Ég hugsaði mikið til Guðs fyrir að honum yrði ekki meint af. Ég hugsaði líka um af hverju hann hefði drukkið sig út úr og þessi nótt er ein af mörgum nóttum síðastliðin 10 ár. Ég komst að því að af hverju þetta stafaði þegar ég hafði loks kjark og þor til að ganga inn um dyrnar á Al-Anon fund. Ég hafði nokkru áður farið á kynningarkvöld hjá SÁÁ.
Þá opnuðust augu mín fyrir þessu öllu. Hversu hræðilegur sjúkdómur alkóhólismi er. Ég hef aldrei öðru eins kynnst. Mér hefur oft dottið í hug köttur og mús og sett köttinn sem sjúkdóminn sem er tilbúinn að hremma bráðina þegar færi gefst. En mikið er ég þakklát algóðum Guði fyrir að hafa leitt mig inn í
Al-Anon samtökin. Án þeirra væri ég ekki á lífi. Þetta er svo mikið mannræktarprógramm og allir góðu vinirnir sem ég hef eignast sem mér þykir svo vænt um. Þetta er stóra fjölskyldan mín.
Æðruleysisbænin, Sporin, Slagorðin og Erfðavenjurnar, allt er þetta svo mikil hjálp og í gegnum allt prógrammið hef ég leitað Guðs og fundið hann. Trú mín er orðin djúp og sterk. Ég er búin að vera í Al-Anon í rúm 4 ár. Mér gekk erfiðlega að tjá mig fyrst. Ég hlustaði og lærði. Mér fannst hinar svo klárar. Ég fór að tala smátt og smátt og oft var stutt í grátinn. Mér hefur oft fundist það vera helvíti á jörðu að vera foreldri alkóhólista. Sorgin er
svo sár þegar hann er í ruglinu. Vanmátturinn svo mikill. Ég var góður stuðningsmaður áður en ég kom í samtökin en smátt og smátt náði ég að sleppa tökunum og þá hvarf stuðningsmaðurinn. Ég var vön að rífast og skammast eftir hvert fyllirí. Mér leið ömurlega, vissi ekkert hvað ég átti að gera, réð ekkert við hann. Skammirnar gerðu aðeins illt verra. Eftir að ég fór í Al-Anon hefur líf mitt breyst. Ég fel Guði hvern dag að morgni og hef ákveðið að taka því sem að höndum ber með æðruleysi. Við erum góðir vinir, sonur minn og ég, og tölum oft mikið saman. Það koma góðir tímar og vondir tímar, föll, en ég skil þetta betur núna og mikið þykir mér vænt um hann og bið honum Guðs blessunar.
Ég verð oft að minna mig á slagorðið ,,Lifðu og leyfðu öðrum að lifa”. Ég þarf mikið að vinna í sjálfri mér. Stjórnsemin er stór þáttur í minni skapgerð og margir fleiri gallar sem ég þarf að uppræta. Það kemur. Ég er að vinna í sporunum skriflega og veit af annarra reynslu að það virkar. Meðan ég er að skoða sjálfa mig og taka til í ruslapokanum, því af nógu er að taka, þá hef ég ekki tíma til að spá í hvað alkóhólistinn er að gera. Mér er farið að líka betur við sjálfa mig, finnst ég hafa kynnst mér betur, ég vil vera heiðarleg og góð móðir, eiginkona og vinur vina minna sem ég get treyst og þeir mér. Svo legg ég líf mitt og minna í Guðs hendur. Hann mun vel fyrir sjá.
Með kærri Al-Anon kveðju,
Móðir