Láttu það stoppa hjá mér

Íslensk reynslusaga
Ég var alin upp við alkóhólisma þar sem faðir minn og hálfbróðir eru alkóhólistar.  Við bróðir minn erum sammæðra.  Hann og pabbi minn hafa aldrei þolað hvorn annan og það hefur litað allt heimilislífið, samskipti í fjölskyldunni og viðhorf mín til fósturforeldra yfirleitt.                    
 
Þegar ég síðan eignaðist barn sjálf og varð einstæð móðir var ég harðákveðin í því að sonur minn skyldi aldrei þurfa að upplifa það sem ég og bróðir minn ólumst upp við. Ég ól hann upp ein langt fram á unglingsárin hans og gætti hans vel fyrir drykkju annarra. Ég var treg til að leyfa honum að gista hjá vinum sínum, bauð þeim frekar að koma til okkar og gista og var mjög nákvæm í því hvar hann væri svo hann myndi ekki þurfa að upplifa drykkju og vanlíðan vegna drykkju annarra. 
 
Það sem ég áttaði mig engan veginn á er að alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur og ég var gegnsýrð af meðvirkni og þeirri hegðun sem því fylgir: að þora ekki að segja hug sinn, lesa stöðugt í svipbrigði og látbragð annarra, láta aðra ganga fyrir, hunsa eigin tilfinningar og óskir, setja ekki mörk í samskiptum við annað fólk, ætlast til að aðrir lesi í mín svipbrigði og háttalag, reyna að stjórna með svip og ósögðum orðum o.s.frv.  Allt þetta kenndi ég syni mínum ómeðvitað í uppvextinum og var svekkt þegar hann fór ekki eftir þessum leikreglum meðvirkninnar. Nú er ég búin að vera í Al-Anon í þrjú ár, búin að fara í gegnum sporin og sæki nokkra fundi í viku hverri og reyni að vinna eftir 12 spora kerfinu og breyta minni hegðun því það er það eina sem ég GET breytt og það eina sem ég Á að breyta. Sonur minn er virkur í öðru 12 spora kerfi og vinnur sína vinnu þar. Ég vil ekki að sonardóttir mín læri þessa hegðun, ég vil að hún viti hug sinn og þori að segja frá tilfinningum sínum og óskum og verði frjáls í samskiptum við annað fólk.
 
Ég vil láta þessa meðvirkni STOPPA HJÁ MÉR!