Mikil breyting hefur orðið á mér síðan ég ákvað að reyna að hafa Al-Anon prógrammið að leiðarljósi í lífi mínu. Ég hef uppgötvað að það er ekkert bogið við það að hafa svolitla kímni með í lífinu. Þega ég byrjaði í Al-Anon stökk mér varla bros. Mér var líka illa við alla þá sem alltaf voru brosandi og fannst þeir vera óskaplega kærulausir. Ég skildi ekki allan þann hlátur og gleði sem ríkti á fundunum. Ég heyrði ekkert sem mér fannst vera hlægilegt. Lífið var alvarlegt og harmþrungið.
Ef ég reyndi að koma auga á skoplegu hliðarnar á lífinu gerði ég það þannig að ég niðurlægði sjálfa mig og gerði lítið úr mér. Ég var svo vitlaus, heimsk, óþolinmóð o.s.frv., að það var ekki skrýtið að mér tækist ekki þetta og hitt, og svo hló ég.
Nýlega var ég á fundi þar sem ég sagði frá atburðum sem mér höfðu fundist erfiðir á meðan á þeim stóð. Alla vikuna hafði allt virst ganga á afturfótunum. Það merkilega var að nú þegar þetta var yfirstaðið kom ég auga á margt spaugilegt sem hafði gerst mitt í öllum vandamálunum.
Stundum finnst nýliðum óþægilegt að upplifa þessa gleði og léttleika sem ríkir hjá okkur og halda að við séum að gera lítið úr vandamálum okkar. Ég hef lært í áranna rás í Al-Anon samtökunum að sú er ekki raunin. Þegar okkur fer að takast að tileinka okkur Sporin breytist viðhorf okkar til lífisins og við förum að leita að því sem er skemmtilegt í stað þess að velta okkur upp úr vandamálunum og vera vansæl. Við verðum smátt og smátt raunsæ, í stað þess að vera full sjálfsvorkunnar og píslarvættis.
Ég held að þegar ég lít yfir liðinn dag og horfi á hann eins og kvikmynd þá hljóti ég alltaf að geta fundið eitthvað spaugilegt atvik. Ef ég hef til dæmis látið reiðina hlaupa með mig í gönur og misst stjórn á mér, með því að öskra og garga á þann sem ég reiddist, get ég séð eftir á hvað það var spaugilegt af mér að eyða allri þessari orku í reiðina, í stað þess að nota slagorðið ,,Hugsaðu“ til þess að stoppa mig af og geta þá rætt málin í rólegheitum og komist að samkomulagi, í stað þess að þurfa að biðjast afsökunar á ósæmilegri hegðan minni.
Ég trúi því að Æðri máttur sé gæddur góðu skopskyni og hann horfi oft á mig með góðlátlegu brosi þegar ég er að nota gömlu hegðunarmunstrin og gleymi því hvað lífið getur verið skemmtilegt ef ég bara vil leyfa því að vera það.
Ég er ekki kærulaus þó að ég sleppi tökunum á vandamálum svolitla stund og geri eitthvað sem getur komið mér til að hlæja, til dæmis að fara á Al-Anon fund og hitta skemmtilega félaga og njóta með þeim hláturs. Vandamálin mín fara örugglega ekki í burtu þó ég bregði mér aðeins frá en þau geta virst minni og viðráðanlegri eftir að ég hef tekið mér hlé og hlegið með öðrum, í stað þess að sitja föst yfir þeim og leyfa þeim að heltaka líkama minn og sál.