Íslensk reynslusaga
Eftir hrunið versnaði fjárhagur minn mikið, enda láglauna-manneskja. Sporin tólf hafa hjálpað mér mikið til þess að ég geri mér grein fyrir því hvað það er sem skiptir máli í lífinu.
Samband mitt við minn æðri mátt hefur orðið til þess að ég hef geta tekist á við þennan erfiða fjárhag. En samt þurfti ég líka á aðstoð geðlæknis að halda. Það var einmitt sporagangan sem hjálpaði mér að fatta vanmátt minn og leita hjálpar. Ég hef hitt hann reglulega síðan.
Ég sat hjá honum í vikunni og ræddi um það að nú ætlaði ég að fara í jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstarfs kirkjunnar og að ég í rauninni skammast mín ekkert fyrir það. Svo hafði ég frétt af því að Mæðrastyrksnefnd og Rauði krossinn væru með úthlutun á fatnaði og velti fyrir mér hvort ég hefði ,,nógu bágt“ til að fara þangað. Þá segir geðlæknirinn að bragði: ,,Það var einn skjólstæðingur hjá mér um daginn sem hafði farið í úthlutun og var svo glaður því nú hafði hann alltaf föt til skiptana.“ Síðan á fundinum hef ég hugsað mikið um þetta og komist að því í raun hef ég það bara ansi gott og get verið þakklát æðri mætti fyrir þá aðstoð sem ég hef fengið frá fjölskyldu og vinum. Slagorðið ,,Einn dagur í einu” hefur hjálpað mér mikið á þessum tímum og nú hef ég fundið enn eitt til að vera þakklát fyrir, að ég eigi meira af fötum en bara til skiptana.
Ég var lengi vel haldin jólakvíða vegna þess m.a. að eiginmaðurinn datt alltaf í það á Þorláksmessu og týndist. Í barnæsku var oft mikið um rifrildi á þessum tíma og var þar alkabarnið móðir mín háværust. Það skrýtna er að núna þegar ég á ekki fyrir jólamatnum eða jólafötum þá er ég ekki með kvíða og er þakklát fyrir fjölskyldu mína og vini.
Þakklátur Al-Anon félagi í Vesturbænum.