Hvers vegna Al-Anon fyrir mig?

Næstkomandi septembermánuð hef ég verið í Al-Anon í tvö ár.  Ég man þennan kalda haustdag þegar að ég kom á minn fyrsta fund eins og hann hafi verið í gær en á sama tíma er eins og hann hafi verið fyrir 100 árum .  Ég man svo vel þá uppgjöf sem heltók huga minn þegar að ég ákvað að fara á minn fyrsta fund.  Mér fannst eins og veröld mín væri sú svartasta sem um gat. Ég var nýskilin eftir 3 ára sambúð, faðir minn var virkur alki og ég var húsnæðislaus 22 ára stúlka. Mér fannst eins og það væri alveg sama hvað ég hefði gert fyrir aðra, það væri enginn tilbúinn að gera neitt fyrir mig nema að taka frá mér orku. Virðing mín fyrir sjálfri mér sem manneskju með tilfinningar, langanir og drauma var enginn.  Í raun vissi ég ekki hverjar mínar tilfinningar, langanir né draumar voru.  Ég var algerlega týnd í eigin vanlíðan og sjálfsvorkunn.
 
Ég hafði gert mér ákveðna hugmynd um Al-Anon. Ég taldi alltaf að þarna væri fullt af konum sem skiptust á sögum um hversu mikill bjáni alkinn í þeirra lífi væri. Ég taldi að þessar konur væru að skiptast á að vorkenna hver annari eftir því hver hefði það erfiðast og þangað var ég til í að fara og láta vorkenna mér.  Strax á mínum fyrsta fundi sá ég að sú mynd sem ég hafði búið mér til var svo alröng að ekki einu sinni ramminn var í réttum lit.  Allur sá styrkur, skilningur, von og ekki síst gleði sem að ríkti inn á þessum fundum var óviðjafnanleg.  Mér leið vel í fyrsta skiptið í langan tíma.
 
Ég grét allan tímann á meðan fundur stóð í eina 5 fundi í röð, ég þurfti að losa um svo mikla spennu, á meðan aðrir högðu léttari sögur að segja og hlógu af sögum hvors annars.  Þetta var stórkostleg blanda !!  Ég fann strax að þetta voru fræði sem ég ætlaði að tileinka mér því að mér var orðið um megn að stjórna eigin lífi.  Fyrir konu eins og mig að segja upphátt að ég hafi ekki stjórn á öllu og öllum er ein af stærri setningum sem ég hef sagt því ég borgaði jú reikningana, sá um að heimilið gengi, passaði upp á hvað aðrir sögðu eða gerðu og vissi alltaf hvað var best fyrir alla aðra.
Það sem í raun kom mér í skilning um ástand mitt var fundur á öðrum mánuði mínum í deildinni þar sem að talað var um hvað gleddi okkur.  Ég hugsaði og hugsaði um hluti sem gleddu mig en datt ekkert í hug.  Ég gat talið upp hvað gleddi alla aðra í kringum mig eða hvernig gleðja ætti ókunnugan en gat ekki sagt hvað gladdi mig. Þetta gerði mér grein fyrir hversu sjúk ég var orðin og að ég þyrfti engu að síður á hjálp að halda frekar en alkinn.
 
Á þessum tveimur árum hef ég lært að elska mig eins og ég er og horfast í augu við galla mína og kosti.  Ég á auðveldara með að sýna ókunnugu fólki kærleika.  Þörfin fyrir að vera með nefið ofaní málum annara er miklu minni.  Ég hef lært að bera virðingu fyrir ákvörðunum annarra þótt að þær séu þvert á mínar skoðanir.  Ég skil að það er ekki á mínu valdi að breyta heiminum og að ég er ekki ábyrg fyrir öllum heimsins vandamálum.  Ég stjórna ekki öðru fólki en get umfram allt tekið gjörðum þeirra með æðruleysi.  Þetta og margt annað hef ég einungis lært í Al-Anon; með fundarsókn, sporavinnu og lesefni.  Al-Anon hefur kennt mér að meta sjálfa mig og elska og það skilar sér síðan út í hið daglega amstur.  Eitt er að mæta á fund og hlusta tala og lesa, og svo annað að taka fræðin með sér út og nýta þegar á hólminn er komið t.d. í vinnu, heimili, félagsskap o.s.frv.  Það er í raun það sem Al-Anon snýst um fyrir mér, þetta eru fræði sem að ætla mér að gera hverja mínútu betri fyrir mig á þeirri stundu sem að ég er að upplifa hana.
 
Við alla nýliða langar mig að segja að ekkert vandamál er það stórt og engar áhyggjur það miklar að ekki megi úr bæta.  Góður hlutir gerast hægt og það er bara að byrja á byrjunninni. Byrjunin fyrir mér var það að drífa mig á fund!  Ég er bjartsýn í dag og elska sjálfa mig og sé sólina koma upp á mismunandi hátt á hverjum degi og það á ég að þakka Al-Anon.
 
Bestu kveðjur,
Sesselía