Okkur hjónunum finnst gaman að spila við vini okkar, að fara út að borða, fylgjast með börnunum okkar í uppákomum í skólanum og að heimsækja ættingja hvors annars. Það eina sem ógnaði tómstundunum okkar var drykkja. Fyrst eftir að við giftum okkur gerði ég mér grein fyrir því að í fjölskyldu konu minnar voru nokkrir sem áttu í vanda með drykkju sína en afneitaði því að slíkt væri að finna í minni fjölskyldu. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af þessu fyrr en ég fékk mína fyrstu lexíu.
Við höfum bæði ákveðnar skoðanir og þrætur okkar fóru ekki alltaf fram á lágu nótunum. Sá sem gat hrópað hærra vann venjulega og oftast fannst mér það vera ég sem vann. Þegar konan mín fór að auka drykkju sína, trúði ég því að hegðun mín og persónuleiki minn ætti stóran þátt í því. Vegna þessarar sektarkenndar neitaði ég því að þetta væri vandamál. Ég keypti vín svo hún drykki frekar heima, skrökvaði fyrir hana og leiddi hjá mér athugasemdir annarra um að hún liti ekki vel út og svo framvegis. Mér fannst sem hennar lífi væri auðvelt að stjórna og var orðinn nokkuð góður í því. Ég reyndi eins og ég gat að fá hana til að hætta að drekka, en ekkert gekk.
Ég er verkfræðingur og barnæskan hafði kennt mér að öllu væri hægt að stjórna, ef ég væri raunhæfur og léti ekki tilfinningar taka yfir hugsanir mínar. Ég trúði því fullkomlega að ég gæti það. Þetta lífsmottó var og er enn erfitt fyrir mig, því hugsanir mínar eru oft ekki raunhæfar. Mér hættir til að leyfa tilfinningum eins og hræðslu, óþolinmæði og reiði að brjótast upp á yfirborðið. Þegar ég réði ekki lengur við tilfinningar mínar ákvað ég að leita mér hjálpar. Sú leit leiddi mig á minn fyrsta Al-Anon fund – dauðhræddur um hvað gæti gerst þegar þangað væri komið.
Á fundinum voru eingöngu konur og mín fyrsta hugsun var: „Hvernig geta þær hjálpað mér?” Þær tóku mér opnum örmum og fyrstu mánuðina notaði ég til að hlusta. Æðruleysisbænin og upphafs- og lokaorð fundanna greyptust í huga minn og ég lærði þetta utan að. Ég lærði strax nokkur atriði en ég trúði því samt ennþá að ég sækti fundina til að hjálpa alkóhólistanum í lífi mínu.
Það var ekki fyrr en ég fór að deila reynslu minni sem ég uppgötvaði raunverulega ástæðu þess að ég var á fundunum. Ég fór að finna fyrir friði í mínu daglega lífi og leið betur með sjálfan mig en ég hélt að væri hægt. Slagorðið „Slepptu tökunum og leyfðu Guði” hjálpaði mér óendanlega mikið. Fólk hafði á orði við mig hversu sæll ég virtist vera. Ég hafði fundið það sem mig vantaði og jafnvel þó alkóhólistinn í lífi mínu væri enn að drekka gekk mér betur að eiga við það.
Á einum fundinum sagði einn sem búinn var að stunda Al-Anon í mörg ár, „þú þarft að fylgja þessu prógrammi það sem þú átt eftir ólifað”. Þvílíkt sjokk! Ég trúði þessu ekki. Mín ætlun var að fá snögga lækningu og vera svo farinn! Það tók mig nokkra mánuði að átta mig á því að ég ætti eftir að stunda fundi og lesa „lesefnið” það sem ég ætti eftir ólifað.
Á einum fundinum var rætt um aðskilnað, og mín hugmynd var sú að hætta alfarið að tala við konuna mína. Augljóslega var það ekki rétt. Fundarmenn hjálpuðu mér að skilja að ég þyrfti að aðskilja mig frá vandamálum konu minnar, ekki henni. Á þessum tíma fannst konunni minni ég meira að segja miklu betri maður.
Það komu tímabil í Al-Anon þar sem ég eyddi öllum vökustundum dagsins í að óska þess að konan mín hætti að drekka. Á þessu tímabili var ég andlega og líkamlega úrvinda. Þegar ég deildi þessu með félögunum á fundunum öðlaðist ég nýjan skilning. Minn Æðri máttur kom til sögunnar. Alvarleg veikindi konu minnar urðu til þess að hún hætti að drekka. Nú þegar hún var orðin edrú, var ég fullkomlega týndur og vissi ekkert hvað ég ætti að gera næst. Minn Æðri máttur leiddi mér fyrir sjónir að ég þyrfti að halda áfram að vinna í mínum málum á meðan konan mín ynni í sínum.
Ég hef verið í Al-Anon í rúmlega átta ár og konan mín hefur verið edrú í fjögur ár. Þvílíkt kraftaverk. Konan mín hefði getað dáið vegna drykkju sinnar eða hlotið alvarlegan heilaskaða. Það er í rauninni of gott til að vera satt. Mér líður eins og ég hafi fylgt Al-Anon prógramminu, farið eftir leiðsögn þess og hlotið að launum það sem allir þrá. Ég hef verið svo lánsamur.
Að sjálfsögðu skil ég núna að það eru líka alkóhólistar í minni fjölskyldu. Ég er undrandi á fjölda alkóhólista í veröldinni í dag. Al-Anon hefur opnað augu mín fyrir raunveruleikanum, og ég er mjög þakklátur.
Brian, Wyoming.
The Forum, septermber 2004.