Hefur trúin tilgang??

Félagi deilir reynslu
Áður en ég kynntist Al-Anon samtökunum vissi ég svo sem ekki hvort ég
var trúuð eða ekki. Ég hafði jú fermst, gifst og skírt börnin mín. Ég
bað bænir þegar einhver var veikur en ég upplifði aldrei að ég fengi
einhver „svör“ við bænum mínum. Ég söng  í kirkjukór í 15 ár af
einhverskonar skyldurækni við samfélagið en ekki af því að ég kynni að
njóta þess sem sagt var í kirkjunni. Ég heyrði ekki það sem presturinn
sagði, ég heyrði bara að hann var að tala.
 
Ég hef upplifað ýmislegt um ævina bæði gott og slæmt. Ég hef alltaf
bitið á jaxlinn þegar á hefur þurft að halda og komist í gegnum
erfiðleika með hjálp góðra vina og fjölskyldu. Mér hafði aldrei dottið
í hug að það myndi bæta neitt að biðja bænir til að komast í gegnum
lífið.

Ég vissi ekki fyrr en ég kynntist æðri mætti í Al-Anon að ég hefði
farið á mis við eitthvað. Ég vissi ekki hvað hefði verið yndislegt að
geta leitað til æðri máttar í bæn fyrir farsælum lausnum, en ekki
síður til að þakka allt það góða sem ég hef fengið að upplifa.

Ég veit nákvæmlega hvenær ég uppgötvaði að ég tryði á æðri mátt. Ég
var búin að starfa í Al-Anon í nokkurn tíma. Ég var búin að finna mér
sponsor og byrjuð í sporavinnu. Alkinn minn hafði átt erfiðan tíma og
ég hafði oft hugleitt hvernig ég gæti leitað til æðri máttar til að
finna lausn fyrir mig. Ég kunni ekki að biðja bænir. Ég vissi ekki
hvernig ég ætti að tala við æðri mátt. Mér fannst ekki líklegt að
einhver æðri máttur myndi heyra í mér þegar ég hvíslaði einhverju ofan
í koddann minn og myndi sýna mér einhver viðbrögð. Hvernig átti hann
að skilja mín vandamál?

Mín stóra stund var óvænt og eftirminnileg. Ég fór við útför ættingja
míns sem mér þótti mjög vænt um. Í fyrsta sinn fann ég að ég beið
eftir að heyra hvað presturinn hefði að segja. Í öllu mínu kirkju- og
kórastarfi hafði ég beðið eftir því að presturinn yrði búinn að segja
það sem hann ætlaði að segja , til að ég gæti byrjað að syngja eða
hitt fólkið eftir athöfnina í kaffisamsæti. Nú var það allt í einu
öðruvísi. Ég hafði ekkert hlutverk í þessari athöfn. Ég kom bara til
að hlusta. Þegar kórinn byrjaði að syngja „Drottinn er minn hirðir“
gerðist eitthvað innra með mér. Mig langaði að standa upp, rétta fram
hendina og leyfa drottni að leiða mig þá leið sem hann teldi besta
fyrir mig. Ég hefði aldrei trúað að svona gæti hent mig.
Í þessum fallega sálmi finn ég svör við öllu sem ég hef svo lengi leitað að:

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um réttan veg
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.

Sproti þinn og stafur huggar mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi drottins bý ég langa ævi.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.

Frá þessum degi hef ég notað bænina í þrennum tilgangi. Ég bið fyrir
farsæld fyrir mig og aðra. Ég þakka fyrir allt sem ég hef fengið að
upplifa og læra af. Ég þakka fyrir að Guð skuli vera til staðar til að
styrkja mig þegar ég þarf á því að halda.
Eftir að ég náði sambandi við minn æðri mátt hef ég áttað mig á að það
er ekkert flókið að biðja bænir. Þær verða til um leið og ég hugsa til
Guðs. Hvað hann hefur gert fyrir mig, hvað hann gæti gert fyrir mig og
hversu þakklát ég er honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig.

Ég hef svarað minni eigin spurningu. TRÚIN HEFUR TILGANG.